Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-138

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Viðari Sæbergssyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattalög
  • Virðisaukaskattur
  • Bókhald
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson

2. Með beiðni 28. júlí 2022 leitar Viðar Sæbergsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní 2022 í máli nr. 168/2021: Ákæruvaldið gegn Hrólfi A. Sumarliðasyni og Viðari Sæbergssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 6. júlí 2022. Beiðnin barst embætti ríkissaksóknara 28. júlí 2022 en Hæstarétti ásamt umsögn ríkissaksóknara 17. nóvember 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum sem bókari félagsins Eldshöfða 23 ehf. ásamt framkvæmdastjóra og stjórnarmanni félagsins.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot samkvæmt 1. tölulið A-liðar ákæru sem taldist varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. og 5. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, brot samkvæmt 2. tölulið A-liðar ákæru sem taldist varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. einnig 1. og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og samkvæmt 3. tölulið A-liðar ákæru sem taldist varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. einnig 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. og 2. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir, þó með þeirri breytingu að brot hans samkvæmt 1. tölulið A-liðar ákæru taldist varða við 5. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og brot samkvæmt 2. tölulið sama ákæruliðar taldist varða við 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Leyfisbeiðandi var dæmdur í 12 mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 70.500.000 krónur en sæta ella fangelsi í 12 mánuði.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu. Þannig hafi það verulega almenna þýðingu að fá úrlausn um það hvort einstaklingur, sem aðeins aðstoði við bókhald einkahlutafélags án þess að vera starfsmaður eða hafa félagaréttarleg tengsl við félagið, geti orðið að þola refsingu til jafns við stjórnendur félagsins vegna ófullnægjandi skattskila og bókhalds þess. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann einkum til þess að hann hafi verið bókari félagsins og unnið það starf sem verktaki en hvorki verið endurskoðandi né skoðunarmaður félagsins og geti af þeim sökum ekki borið ábyrgð á skattskilum og ársuppgjörum félagsins með þeim hætti sem byggt er á í dómi Landsréttar. Þá hafi sú niðurstaða að gera leyfisbeiðanda sekt samkvæmt 5. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 verið bersýnilega röng þar sem skattstofn hans hafi í engu verið vantalinn. Loks sé refsiákvörðun röng og engin rök mæli með því að gera leyfisbeiðanda, sem aðstoðaði aðeins við bókhald, sömu refsingu og sekt og meðákærða, sem hafi borið alla ábyrgð á bókhaldi og skattskilum félagsins. Leyfisbeiðandi byggir enn fremur á því að Landsréttur hafi hvorki tekið tillit né afstöðu til málsástæðna sinna, sérstaklega nýrra málsástæðna sem fram komu við munnlegan flutning málsins fyrir Landsrétti.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.