Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-123
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Viðurkenningarkrafa
- Líkamstjón
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 3. júlí 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 5. júní sama ár í máli nr. 184/2024: A gegn Reykjavíkurborg. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns sem hann hlaut 28. júní 2010 þegar hann rann til á flísum á bakka innilaugar sundlaugarinnar í Laugardal. Leyfisbeiðandi byggði á því að flísarnar hefðu verið flughálar og gólfið þar með vanbúið.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var tekið fram að dómaframkvæmd bæri með sér að ríkar kröfur væru gerðar til aðbúnaðar á sundstöðum. Þær kröfur birtust meðal annars í ströngu sakarmati en einnig í því að til álita gæti komið að beita sönnunarreglum með þeim hætti að sönnunarbyrði væri að einhverju marki létt af tjónþola. Eftir sem áður væru meginreglur um sönnun hinar sömu og endranær í skaðabótarétti og til að vikið yrði frá þeim þyrfti almennt eitthvað sérstakt til að koma sem kallaði á slíkt frávik. Í ljósi atvika og fyrirliggjandi gagna, meðal annars um viðnámsmælingu á flísunum sem um ræddi á árinu 2017 þar sem viðnámið mældist nægilega gott miðað við sænsk viðmiðunargildi og þær forsendur sem notaðar voru við prófunina voru ekki talin efni til að víkja frá meginreglum um sönnun í skaðabótarétti. Engu var talið breyta í því sambandi þótt ekki hefði verið fallist á formlega beiðni leyfisbeiðanda í maí 2022 um að teknar yrðu upp nokkrar flísar og hálkuviðnám þeirra mælt. Rannsókn á því tímamarki hefði auk þess ekki lotið að ástandi flísanna nálægt slysdegi enda hefðu þá verið liðin tæplega tólf ár frá slysinu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur einkum þar sem hann fari þvert gegn fordæmum í sambærilegum málum um sakarmat og sönnunarbyrði. Í dóminum hafi verið lagt á leyfisbeiðanda að sýna fram á að flísarnar sem um ræðir hefðu verið hálar á slysdegi og þannig jafnframt sýna fram á að ekkert hefði breyst frá slysdegi. Samkvæmt reglum um sönnunarbyrði sem staðfestar hafi verið í dómaframkvæmd hafi hvílt á gagnaðila en ekki leyfisbeiðanda að láta fara fram rannsókn á orsökum slyssins á slysdegi. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um hvernig sönnunarbyrði sé háttað í sambærilegum málum.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.