Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-167
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Lögheimili
- Umgengni
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. maí 2019 leitar M eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 636/2018: M gegn K, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. K leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að ágreiningi um hvar lögheimili sonar aðila skuli vera og hvernig umgengni verði háttað en samkomulag er milli aðilanna um að fara sameiginlega með forsjá barnsins. Héraðsdómur tók til greina kröfu gagnaðila um að lögheimili drengsins yrði flutt frá leyfisbeiðanda til hennar. Þá kvað dómurinn jafnframt á um hvernig umgengni barnsins við leyfisbeiðanda skyldi háttað svo og um skyldu hans til að greiða einfalt meðlag með drengnum. Staðfesti Landsréttur þessa niðurstöðu með fyrrnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann til þess að við úrlausn málsins fyrir Landsrétti hafi undirmatsgerð verið veitt meira vægi en yfirmatsgerð en slíkt sé í andstöðu við þær reglur sem almennt gildi um matsgerðir dómkvaddra manna. Þá hafi ekki áður í dómaframkvæmd verið litið framhjá vilja barns til búa hjá foreldri sem hafi verið metið hæfara til að fara með forsjá eins og gert hafi verið í dómi Landsréttar. Telur leyfisbeiðandi að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um þessi atriði. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess geti talist hafa fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið. Verður jafnframt að gæta að því að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda er svo einnig ástatt endranær í málum sem varða málefni barna, en ekki verður séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.