Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-27

Héðinsreitur ehf. (Jón Þór Ólason lögmaður)
gegn
Gamla Byr ses. (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Skaðabætur
  • Efndabætur
  • Matsgerð
  • Tjón
  • Saknæmi
  • Sennileg afleiðing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 10. mars 2022 leitar Héðinsreitur ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 24. febrúar sama ár í máli nr. 224/2021: Gamli Byr ses. gegn Héðinsreit ehf. á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur aðallega að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að skaðabótakrafa hans að fjárhæð 3.060.000.000 krónur njóti stöðu í réttindaröð við slit gagnaðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafa leyfisbeiðanda er byggð á því að gagnaðili hafi með ólögmætum hætti vanefnt fjármögnunarsamning sem aðilar gerðu með sér 9. október 2007 með því að lýsa yfir riftun 12. júní 2008. Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2011 í máli nr. 87/2011 var skaðabótaskylda gagnaðila viðurkennd en ágreiningur aðila lýtur að því hvort og þá hve miklu tjóni leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu riftunar.

4. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á framangreinda kröfu leyfisbeiðanda en fjárhæð hennar talin nema 2.580.868.079 krónum. Í úrskurði Landsréttar var komist að gagnstæðri niðurstöðu. Þar var rakið að leyfisbeiðandi hefði ekki gripið til neinna ráðstafana í kjölfar riftunarinnar sem hefðu verið til þess fallnar að koma í veg fyrir tjón hans eða draga úr því. Vanræksla leyfisbeiðanda á að takmarka tjón sitt hefði leitt til þess að hann gæti ekki krafist greiðslu skaðabóta fyrir tjón sem hann hefði getað komið í veg fyrir með aðgerðum sínum. Þá taldi Landsréttur að ýmsir annmarkar væru á yfirmatsgerð í málinu. Taldi rétturinn að þær forsendur sem yfirmatsgerðin byggði á væru of fjarlægar skilmálum fjármögnunarsamningsins og háðar of mikilli óvissu til að unnt væri að leggja þær til grundvallar niðurstöðu máls um ætlað tjón leyfisbeiðanda. Jafnframt var talið að leyfisbeiðandi yrði að bera hallann af sönnunarskorti um að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna hinnar ólögmætu riftunar. Kröfum leyfisbeiðanda var því hafnað.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Í því efni vísar hann meðal annars til þess að niðurstaða Landsréttar feli í sér grundvallarbreytingu á þeirri viðurkenndu reglu að tjónþoli eigi rétt á efndabótum vegna vanefnda tjónvalds á gildum löggerningi. Í öðru lagi hafi kæruefnið fordæmisgildi meðal annars um hvað teljist sennileg afleiðing tjóns, hverjar teljist vera sanngjarnar athafnir tjónvalds til að takmarka tjón sitt og hver beri sönnunarbyrði fyrir því að tjónþola hafi verið unnt að takmarka það. Í þriðja lagi hafi kæruefnið grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins í ljósi þess að verið sé að skera endanlega úr ágreiningi aðila sem hafi staðið frá því í júní 2008. Loks byggir hann í fjórða lagi á því að ástæða sé til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi og efni. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að úrskurður Landsréttar fari gegn framangreindri niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 87/2011.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, né hafi slíkt fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að í málinu reyndi á hvort fyrir hendi væru skilyrði til að taka til greina kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur við slit gagnaðila án þess að úrlausn þar um verði talin hafa fordæmisgildi. Einnig er þess að gæta að í úrskurði Landsréttar, sem var skipaður tveimur sérfróðum meðdómendum, var komist að þeirri niðurstöðu að á yfirmatsgerð hefðu verið þeir annmarkar að hún yrði ekki lögð til grundvallar sönnun á ætluðu tjóni leyfisbeiðanda. Sú ályktun réttarins gefur ekki tilefni til þess að heimila veitingu kæruleyfis. Þegar þetta er haft í huga eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðninni er því hafnað.