Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-35
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Viðurkenningarkrafa
- Umferðarslys
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 16. mars 2023 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja dómi Landsréttar 17. febrúar 2023 í máli nr. 526/2021: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og til réttargæslu TM tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi 11. ágúst 2017.
4. Héraðsdómur hafnaði kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu. Landsréttur taldi liggja fyrir að áreksturinn hefði verið vægur. Þrátt fyrir það réðist af fjölda þátta hverju sinni hvort líkamstjón yrði og hvert umfang þess væri. Fyrir lægju læknisfræðileg gögn þar sem fram kæmi að gagnaðili glímdi við afleiðingar af völdum slyssins. Leyfisbeiðandi hefði ekki hnekkt þeirri niðurstöðu matsgerðar að áreksturinn hefði haft áhrif á heilsu og starfsgetu gagnaðila með því að bera hana undir örorkunefnd eða óska dómkvaðningar matsmanna samkvæmt heimild 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Taldi Landsréttur að gagnaðili hefði sýnt nægilega fram á að hún hefði orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við slysið og viðurkenndi bótaskyldu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir þau skaðabótamál þar sem reynir á sönnun orsakatengsla við lágorkuárekstra. Leyfisbeiðandi vísar til þess að málið varði verulega hagsmuni hans og annarra vátryggingafélaga. Árlega greiði vátryggingafélög hundruð milljóna króna í bætur vegna lágorkuárekstra og leiði það til hækkunar iðgjalda lögbundinna ábyrgðartrygginga ökutækja. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því samhengi vísar hann til þess að niðurstaða Landsréttar sé ekki í samræmi við gögn málsins og feli í sér rangt mat á viðbótareinkennum sem komið hafi fram eftir áreksturinn 11. ágúst 2017. Fyrirliggjandi matsgerðir beri ekki með sér að einkenni gagnaðila frá hálsi og mjóbaki hafi versnað við áreksturinn. Hið rétta sé að gagnaðili hafi ekki verið búin að jafna sig á fyrri árekstri 9. júní 2016 en í málinu lá fyrir matsgerð vegna fyrra slyssins.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.