Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-130
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Uppgjör
- Lífeyrissjóður
- Árslaun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 11. júlí 2025 leitar Vörður tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í máli nr. 494/2024: Vörður tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort telja skuli mótframlag vinnuveitanda gagnaðila í séreignasjóð til árslauna í skilningi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við uppgjör á skaðabótum til gagnaðila vegna varanlegrar örorku í kjölfar umferðarslyss eða hvort ákvæðið gildi aðeins um skyldubundið mótframlag vinnuveitanda.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að fallast á kröfur gagnaðila. Landsréttur taldi að fyrra uppgjör aðila hefði ekki falið í sér fullnaðaruppgjör og gagnaðili því getað haft uppi viðbótarkröfu þá sem ágreiningur málsins tók til. Landsréttur féllst ekki á að lagarök stæðu til þess að mótframlag vinnuveitanda í séreignarsjóð skyldi ekki telja til atvinnutekna tjónþola og þar með árslauna í skilningi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ekki var fallist á að þýðingu hefði að launþegi gæti einhliða ákveðið að hætta greiðslum í séreignarsjóð enda lægi fyrir að hann hefði notið slíkra greiðsla á viðmiðunartímabili samkvæmt ákvæðinu. Þá var engu talið breyta þótt fyrir lægi að heimilt væri að gera samning um greiðslur í séreignarsjóð við aðra en lífeyrissjóði en mótframlag vinnuveitanda gagnaðila hefði verið innt af hendi til lífeyrissjóða. Loks var ekki fallist á að ólíkar reglur um úttektir úr séreignarsjóði gætu haft þýðingu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda hafi ekki áður verið dæmt um það álitaefni sem ágreiningur þess lýtur að. Niðurstaða málsins muni hafa áhrif á uppgjör sambærilegra bótakrafna hjá öllum vátryggingarfélögum á Íslandi og hafi því fordæmisgildi á sviði skaðabótaréttar og vátryggingaréttar. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks er á því byggt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur Hæstaréttar geti haft verulegt almennt gildi á sviði vátrygginga- og skaðabótaréttar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.