Ákvarðanir 2012

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar 
við kjör forseta Íslands

---ooo000ooo---

 

Ár 2012, miðvikudaginn 6. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti hefur borist „kæra vegna undirbúnings forsetakosninga 2012“ frá Hauki Haraldssyni, Kristni Jónssyni, Helenu Hauksdóttur, Kristni Jónssyni og Ingvari Erni Arnarssyni, sem einnig var beint til innanríkisráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Í erindi þessu segir að kært sé „hvernig staðið hefur verið að undirbúningi forsetakosninga 2012 af Yfirkjörstjórnum og Innanríkisráðuneytinu“ og krafist „leiðréttinga og eða ógildingar kosninganna.“ Kemur fram að tilefnið fyrir þessu erindi sé að innanríkisráðuneytið hafi 1. júní 2012 tilkynnt Ástþóri Magnússyni Wium að framboð hans til embættis forseta Íslands uppfyllti ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands og yrði ekki metið gilt sökum þess að ráðuneytið teldi að ekki hafi verið lögð fram gögn um að aflað hafi verið nægilegs fjölda meðmælenda með framboðinu. Í niðurlagi erindisins segir að krafist sé að ákvörðun þessi verði dregin til baka, en til vara að Ástþóri Magnússyni Wium verði veittur tíu daga frestur til að „afla nýrra meðmælenda í stað þeirra sem sannarlega hafi verið falsaðir á meðmælendalistum og Yfirkjörstjórnir yfirfari viðbótarnöfnin án tafar og gefi út vottorð, og Innanríkisráðuneytið staðfesti löglegt framboð hans.“ Verði þetta ekki tekið til greina og gengið til kosninga telji kærendur brotið á sér „og okkar frambjóðanda“ og sé það „brot á mannréttindum og forsetakjörið þar með ógilt.“

Fyrir liggur að innanríkisráðherra gaf út auglýsingu 1. júní 2012, þar sem fram kemur að sex nafngreindir menn séu í kjöri til embættis forseta Íslands við kosningar 30. sama mánaðar.

Í 2. gr. laga nr. 36/1945 kemur fram að undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör séu þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra hafi Hæstiréttur þau störf með höndum, sem segi í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjóra og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands. Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.

Af framangreindri talningu verður ráðið að ekki er í lögum nr. 36/1945 að finna heimild til að beina til Hæstaréttar erindi af því tagi, sem að framan er lýst. Kærunni er því vísað frá Hæstarétti.

 

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar

við kjör forseta Íslands

 

---ooo000ooo---

 

Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti barst 13. júlí 2012 ódagsett bréf Ástþórs Magnússonar Wium, Vogaseli 1, Reykjavík, þar sem hann ber fram kæru, sem varðar lögmæti forsetakjörs 30. júní 2012 samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar ógildar vegna þriggja atriða, sem tengjast því að kærandinn hugðist samkvæmt gögnum málsins bjóða sig fram, en innanríkisráðuneytið tilkynnti honum með bréfi 1. júní 2012 að framboð hans yrði ekki metið gilt.

Kæran er í fyrsta lagi reist á því að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi 22. maí 2012 gefið út vottorð, þar sem tekin hafi verið gild meðmæli úr Vestfirðingafjórðungi með framboði kærandans. Þetta vottorð hafi yfirkjörstjórnin afturkallað með bréfi 25. sama mánaðar með vísan til þess að við nánari athugun hennar á meðmælendalistum kærandans úr Vestfirðingafjórðungi hafi komið fram að flestir þeir, sem þar voru skráðir og spurðir voru, hafi ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á slíka lista og væru því brostnar forsendur fyrir vottorðinu. Kærandinn byggir á því að yfirkjörstjórninni hafi ekki verið heimilt að afturkalla stjórnsýsluákvörðun um að gefa út vottorðið 22. maí 2012 nema að uppfylltum skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim skilyrðum hafi ekki verið fullnægt í þessu tilviki og sé því ógild ákvörðun yfirkjörstjórnarinnar 25. sama mánaðar um afturköllun vottorðsins. Í öðru lagi er kæran reist á því að ákvörðun innanríkisráðuneytisins 1. júní 2012 hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Ráðuneytið hafi þar stuðst við ákvörðun yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis 25. maí 2012 um afturköllun vottorðsins frá 22. sama mánaðar, svo og að yfirkjörstjórnir annarra kjördæma hafi gefið út vottorð til kærandans með fyrirvara um gildi undirskrifta á meðmælendalistum með framboði hans. Á þessu hafi ráðuneytið ekki mátt byggja, enda hafi rannsókn ekki farið fram á undirskriftum á meðmælendalistunum. Í þriðja lagi hafi yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis farið út fyrir verksvið sitt samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 þegar hún hafi staðið að könnun á meðmælendalistum kærandans með því að hringja í menn, sem þar voru skráðir. Með þessu hafi yfirkjörstjórnin jafnframt brotið gegn persónuvernd þeirra, sem hringt var í, en frekari rannsókn hafi ekki verið gerð á ætlaðri fölsun undirskrifta og sé ljóst að ekki verði við kærandann sakast vegna slíks athæfis.

Hæstiréttur gaf innanríkisráðuneytinu og yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, yfirkjörstjórninni og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðendurnir Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason og Þóra Arnórsdóttir lýstu því bréflega að þau teldu ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Herdís Þorgeirsdóttir létu hana ekki til sín taka. Kærandanum var gefinn kostur á að tjá sig um þessar athugasemdir, sem hann neytti með bréfi 22. júlí 2012.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 skal sá, sem býður sig fram við forsetakjör, afhenda innanríkisráðuneytinu ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag gögn um nægilega tölu meðmælenda með framboði sínu, svo og vottorð yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Við gerð slíks vottorðs getur yfirkjörstjórn ekki látið við það sitja að staðreyna það eitt hvort meðmælendur með framboði séu á kjörskrá, heldur verður hún einnig að gæta meðal annars að því hvort fyrirliggjandi gögn gefi tilefni til að efast um að þeir, sem sagðir eru meðmælendur, hafi sjálfir ritað undir yfirlýsingu um það. Sé svo verður yfirkjörstjórn að bregðast við með frekari athugun. Fram er komið að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis taldi við könnun á meðmælendalistum með framboði kærandans að ástæða gæti verið til að ætla að undirskriftir á þeim kynnu að vera falsaðar og greip hún af því tilefni til þess ráðs að hringja til skráðra meðmælenda úr Vestfirðingafjórðungi. Í athugasemdum innanríkisráðuneytisins til Hæstaréttar segir að þessir meðmælendur hafi verið 77 talsins og hafi 53 þeirra ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á meðmælendalista með framboði kærandans, 11 hafi staðfest undirritun sína, en til annarra hafi ekki náðst. Vegna þess fjölda manna, sem könnuðust ekki við að hafa ritað undir meðmælendalistana, taldi yfirkjörstjórnin sýnt að kærandinn hafi ekki náð þeirri tölu meðmælenda í fjórðungnum, sem áskilin var í auglýsingu forsætisráðuneytisins 15. mars 2012, sbr. 5. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945. Eins og atvikum var háttað var ekki þörf á frekari rannsókn. Taka ber fram að í málatilbúnaði kærandans hefur efnisleg niðurstaða yfirkjörstjórnarinnar ekki verið vefengd. Vegna þess galla, sem samkvæmt þessu var á framboði kærandans, var yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis rétt samkvæmt 2. tölulið 25. gr. stjórnsýslulaga að afturkalla að eigin frumkvæði ákvörðun frá 22. maí 2012 um að gefa út vottorð um að tilskilinn fjöldi kosningabærra manna í Vestfirðingafjórðungi hefði mælt með framboðinu, enda var sú ákvörðun ógildanleg. Því til samræmis var innanríkisráðuneytinu skylt að hafna framboði kærandans, svo sem gert var 1. júní 2012.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað kröfu Ástþórs Magnússonar Wium um að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar 30. júní 2012 ógildar.

 

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar

við kjör forseta Íslands

 

---ooo000ooo---

 

Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti barst 18. júlí 2012 bréf Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, þar sem hann ber fram kæru í þágu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar, sem varðar lögmæti forsetakjörs samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.

I

Samkvæmt kærunni er tilefni hennar einkum það að kjósendum, sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi í forsetakosningum 30. júní 2012, hafi ekki verið heimilað að njóta þar liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali, heldur hafi þeim verið gert að fá aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild til að rita á kjörseðil. Kjósendum, sem ekki hafi unað þessu, hafi verið meinað að neyta atkvæðisréttar síns. Kærendur telja þessa skipan, sem leiðir af 86. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, brjóta gegn meginreglum um frjálsar, óþvingaðar og leynilegar kosningar og séu lagaákvæði, sem að þessu lúta, andstæð stjórnarskránni. Í kærunni er greint frá því að kærandinn Ásdís sé fötluð og geti ekki kosið með eigin hendi. Við forsetakosningarnar hafi hún krafist þess í kjördeild að fylgdarmaður hennar fengi að veita henni aðstoð við að greiða atkvæði, en því hafi verið hafnað og henni boðið að velja til þess mann úr kjörstjórn. Að endingu hafi verið komist að þeirri málamiðlun að hún fengi aðstoð fylgdarmanns síns til að skrifa á miða nafn þess frambjóðanda, sem hún vildi kjósa, miðinn hafi svo verið afhentur kjörstjórnarmanni inni í kjörklefa og hafi hann merkt við nafnið á kjörseðli. Kærandinn Rúnar sé einnig fatlaður og geti ekki kosið með eigin hendi. Með honum hafi mætt á kjörstað aðstandandi, sem hann hafi viljað láta aðstoða sig við atkvæðagreiðslu, en þeirri ósk hafi verið hafnað og hann því vikið af kjörfundi. Kærandinn Guðmundur sé fatlaður, en hann hafi þó greitt atkvæði í kosningunum með eigin hendi.

Í kærunni er vísað til þess að samkvæmt 5. gr. stjórnarskrárinnar skuli forseti Íslands kosinn við beinar og leynilegar kosningar af þeim, sem hafi kosningarrétt til Alþingis. Í lögum nr. 36/1945 séu ekki beinar reglur um framkvæmd forsetakjörs, heldur segi þar í 3. mgr. 6. gr. að um kosningaathöfnina, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því, sem við eigi. Þá sé tekið fram í 1. mgr. 14. gr. að ákvæði 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gildi um forsetakosningar að svo miklu leyti, sem við geti átt. Þessar tilvísanir laga nr. 36/1945 nái ekki til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, þar sem fram komi að gallar á kosningum valdi því aðeins ógildingu þeirra að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Í því sambandi megi einnig líta til þess að í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþing hafi verið ákvæði hliðstæð 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, en með ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 hafi kosningar til stjórnlagaþings verið ógiltar án þess að nokkuð hafi bent til að gallar á þeim hafi haft áhrif á niðurstöður. Vegna þeirra atvika, sem áður greinir, hafi þess ekki verið gætt í forsetakosningunum 30. júní 2012 að tryggt væri í framkvæmd að þær væru frjálsar og leynilegar. Þannig nægi það eitt til að ógilda kosningarnar án tillits til þess hvort þessi galli hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra.

Kærendur benda á að með 3. mgr. 63. gr. og 86. gr. laga nr. 24/2000 sé vikið frá meginreglu 2. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 81. gr. sömu laga um að kjósandi skuli greiða atkvæði sitt í einrúmi og án aðstoðar og þannig leynilega. Fyrrnefndu lagaákvæðin tvö feli nánar tiltekið í sér að kjósandi geti óskað eftir aðstoð til að kjósa ef hann greinir kjörstjóra við utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða kjörstjórn á kjörfundi frá því að hann sé ófær um að gera það einn síns liðs vegna sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf. Að baki þessu séu þau rök að kjósandi, sem þannig sé ástatt um, yrði að öðrum kosti sviptur kosningarrétti. Á þessum ákvæðum séu á hinn bóginn þeir annmarkar að kjósandi geti við þessar aðstæður eingöngu leitað aðstoðar kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns, sem fari með opinbert vald, en með frjálsum og leynilegum kosningum eigi ekki síst að vernda kjósendur fyrir afskiptum valdhafa af því hvernig atkvæði sé varið. Til samanburðar er í kærunni bent á að við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings hafi samkvæmt ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra 26. nóvember 2010 verið heimilað að blindir, sjónskertir og þeir, sem ekki hafi getað fyllt út kjörseðil með eigin hendi, fengju að hafa með sér mann að eigin vali til að veita sér aðstoð í kjördeild. Hæstarétti hafi borist kærur vegna þessara kosninga, en þar hafi ekki verið fundið að þessari tilhögun og heldur ekki í ákvörðun réttarins 25. janúar 2011, þar sem kosningarnar voru ógiltar af öðrum ástæðum.

Í kærunni er því ítarlega lýst hvernig kærendur telji þá skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, andstæða ýmsum fyrirmælum stjórnarskrárinnar, einkum 5. gr. og 31. gr. um leynilegar kosningar, jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr., ákvæðum 71. gr. um friðhelgi einkalífs og 73. gr. um skoðana-, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og banni í 1. mgr. 68. gr. við vanvirðandi meðferð, auk óskráðra meginreglna hennar um sjálfræði manna og meðalhóf. Þessi skipan sé jafnframt andstæð 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007, sem Ísland hafi gerst aðili að, en kærendur telji þennan samning, sem ekki hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, hafa verið leiddan í innlend lög með breytingu, sem gerð var með lögum nr. 152/2010 á 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Þessi skipan sé einnig í andstöðu við 3. gr. 1. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglur um góða starfshætti við kosningar frá svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Til þeirra reglna og samningsins um réttindi fatlaðs fólks hafi verið vitnað í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu, sem sýni gildi þessara heimilda þótt þær kunni að vera óskuldbindandi að alþjóðalögum. Kærendur lýsa þeirri skoðun að Hæstarétti sé við úrlausn um kæruna fært að víkja til hliðar 86. gr. laga nr. 24/2000 á þeim grunni að ákvæðið sé andstætt æðri réttarheimildum í stjórnarskrá og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Verði og að líta til þess að eftir því, sem skerðing réttinda verði þungbærari, þurfi veigameiri rök að búa að baki henni, en í þessu tilviki hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn hennar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 hvíli jafnframt á ríkinu athafnaskylda vegna málefna fatlaðra, sem hafi að auki vegna framkvæmdar kosninga til stjórnlagaþings haft réttmætar væntingar um að réttinda þeirra yrði gætt varðandi aðstoð við kosningar. Í kærunni er einnig fjallað um ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings og atvik þar borin saman við þau, sem hér eru uppi.

II

Hæstiréttur gaf yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum landsins kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Að ósk kærenda var innanríkisráðuneytinu jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, öllum yfirkjörstjórnum og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðandinn Ari Trausti Guðmundsson lýsti því bréflega að hann teldi ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir létu hana ekki til sín taka.

Í bréfum, sem Hæstiréttur sendi yfirkjörstjórnum 19. júlí 2012 til að gefa þeim kost á að gera athugasemdir vegna kærunnar, var óskað eftir því að veittar yrðu upplýsingar um þann fjölda kjósenda, sem hafi greitt atkvæði á kjörfundi við forsetakosningarnar samkvæmt reglum 86. gr. laga nr. 24/2000 og hvort einhver þeirra hafi andmælt því að maður úr kjörstjórn veitti sér aðstoð við atkvæðagreiðsluna. Einnig hvort einhver kjósandi hafi greitt atkvæði með atbeina manns, sem ekki hafi átt sæti í kjörstjórn, og hvort einhver á kjörskrá hafi yfirgefið kjörstað án þess að greiða atkvæði sökum þess að hann hafi ekki viljað þiggja aðstoð kjörstjórnarmanns. Samkvæmt svörum yfirkjörstjórnanna við þessum spurningum greiddu samtals 173 kjósendur á landinu öllu atkvæði með aðstoð kjörstjórnarmanns, þar af tveir að undangengnum mótmælum gegn þeirri tilhögun. Einn kjósandi hafi fengið að njóta aðstoðar manns, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað og átti ekki sæti í kjörstjórn, og einn kjósandi hafi horfið af kjörstað án þess að greiða atkvæði eftir að hafnað hafi verið ósk hans um að fá aðstoð frá manni, sem ekki sat í kjörstjórn.

Kærendunum var gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar athugasemdir, sem þau neyttu með bréfi 24. júlí 2012. Í því gera þau bæði almennar athugasemdir, sem lúta að tölfræðiupplýsingum, og athugasemdir við einstakar umsagnir.

III

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar skal forseti Íslands kjörinn beinum og leynilegum kosningum af þeim, sem hafa kosningarrétt til Alþingis, en eftir 1. mgr. 33. gr. hennar njóta þess réttar allir íslenskir ríkisborgarar, sem eru orðnir 18 ára á kjördegi og eiga lögheimili hér á landi nema undantekningar frá skilyrðinu um það síðastnefnda hafi verið ákveðnar í kosningalögum. Af 2. mgr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, sbr. 1. mgr. 81. gr., 82. gr., 84. gr., 85. gr. og 87. gr. laga nr. 24/2000, leiðir að leynileg kosning forseta á kjörfundi er einkum tryggð með því að kjósandi greiði atkvæði í kjörklefa, þar sem hann megi einn vera, hann geri þetta með því að setja með ritblýi kross á kjörseðil framan við nafn frambjóðandans, sem hann kjósi, og megi engin önnur merki færa á kjörseðilinn, hann brjóti saman seðilinn áður en hann haldi út úr kjörklefa, leggi síðan seðilinn í kjörkassa og gæti að því að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði, en verði misbrestur á því verði kjörseðill ónýtur. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, sbr. d. og e. liði 125. gr. laga nr. 24/2000, varðar það refsingu að kjósandi sýni af ásetningi hvernig hann kýs eða hefur kosið, svo og að maður njósni um hvernig kjósandi verji atkvæði sínu.

Blindum mönnum, sem numið geta blindraletur, er með úrræðum samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 24/2000 gert fært að greiða atkvæði leynilega á sama hátt og þeir, sem hafa næga sjón. Að því frágengnu er ljóst að kæmi ekki annað til yrðu þeir, sem skortir annars sjón eða líkamsmátt til að greiða atkvæði eins og að framan er lýst, í raun útilokaðir frá því að neyta kosningarréttar við forsetakosningar. Hjá slíkri skerðingu réttinda verður ekki komist nema vikið sé með lögum frá ítrustu skilyrðum um leynilegar kosningar gagnvart þeim kjósendum, sem þess þurfa með. Svo að slíkt frávik verði ekki meira en nauðsyn ber til er ekki önnur leið tæk en sú að kjósanda, sem á því þarf að halda, sé tryggð aðstoð manns, sem bundinn sé þagnarskyldu, sá maður taki á kjörfundi við fyrirmælum kjósandans um hvernig atkvæði hans skuli varið og leggi svo til sína hönd til að framfylgja þeim, en í öðrum atriðum verði farið eftir almennum reglum til að tryggja leynd kosningar. Þetta hlutverk verður vart falið öðrum með lögum en manni, sem situr í kjörstjórn við framkvæmd kosninga, eða manni, sem kjósandi velur sjálfur og fylgir honum á kjörstað. Í þessu sambandi verður að gæta að því að reglan um leynilegar kosningar þjónar meðal annars þeim tilgangi að vernda kjósanda fyrir áhrifum, sem aðrir kunna að vilja hafa á það hvernig hann ver atkvæði sínu, þar á meðal frá þeim, sem þekkja kjósandann og eru í áhrifastöðu gagnvart honum, svo sem vegna fjölskyldutengsla, búsetu, atvinnu eða fjármála. Ef kjósandi þarf aðstoð við atkvæðagreiðslu skiptir því máli að svo sé búið um hnúta að hann sé varinn fyrir slíkum afskiptum, svo sem áskilið er í reglum Feneyjanefndarinnar um góða starfshætti við kosningar, sem vitnað er til í kæru. Með því að fela manni úr kjörstjórn það verk að veita kjósanda aðstoð er tryggt svo vel, sem kostur er, að gengið sé ótvírætt eftir vilja hans á kjörstað og sá vilji ráði því einn hvernig atkvæði fellur. Fyrir þessu getur ekki fengist hliðstæð vissa ef kjósandi nýtur aðstoðar frá manni, sem hefur fylgt honum á kjörstað. Ráði kjósandinn því hver veiti honum aðstoð er á hinn bóginn tryggt að hann þurfi ekki að trúa öðrum en þeim, sem hann velur í því skyni, fyrir svo mikilvægu persónulegu málefni, en að öðrum kosti yrði hann að greina ókunnugum manni frá því.

Í 86. gr. laga nr. 24/2000 er mælt svo fyrir að skýri kjósandi kjörstjórn svo frá að hann sé ekki fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skuli sá úr kjörstjórninni, sem kjósandi nefnir til, veita honum aðstoð til þess í kjörklefa, enda er sá, sem aðstoðina veitir, bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því, sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina og tilgreina ástæðuna fyrir því að hún sé veitt. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt kjörstjórnarmanninum ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð, sem þannig þarfnast hennar. Samkvæmt b. lið 126. gr. laga nr. 24/2000 varðar það kjörstjórnarmann sektum ef hann segir frá því hvernig kjósandi, sem hann hefur aðstoðað, hefur greitt atkvæði, en slíkt brot, sem framið yrði af ásetningi, gæti varðað þyngri refsingu eftir 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með setningu þessara reglna hefur löggjafinn valið að fara þá fyrrnefndu af þeim tveimur leiðum, sem áður var getið. Að virtum þeim kostum og ókostum, sem fylgja hvorri þessara leiða, verður ekki fallist á með kærendum að ákvæði stjórnarskrárinnar, sem þau vísa til, knýi á um það að löggjafanum hefði borið að fara aðra leiðina hinni fremur, enda er málum þannig skipað samkvæmt lögum á mörgum öðrum sviðum að menn, sem fá vegna starfa síns vitneskju um einkamálefni annarra, séu bundnir þagnarskyldu um þau. Samkvæmt því verður sú skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, ekki talin andstæð stjórnarskránni. Aðrar heimildir, sem kærendur hafa vísað til, geta heldur ekki staðið til þess að krafa þeirra um ógildingu forsetakjörs verði tekin til greina.

Að lögum stendur engin heimild til þess að annar en kjörstjórnarmaður veiti kjósanda aðstoð við atkvæðagreiðslu á kjörstað. Kjörstjórnarmanni er ekki heimilt að færast undan þessari skyldu eða leyfa öðrum að veita kjósanda aðstoð í sinn stað, enda hvílir engin lögmælt skylda á þeim, sem ekki á sæti í kjörstjórn, að halda því leyndu hvernig kjósandi hefur greitt atkvæði við þessar aðstæður. Ákvæði a. liðar 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hvorki hefur verið fullgiltur af Íslandi né lögtekinn hér á landi, haggar ekki við skýrum ákvæðum laga um þetta efni. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, var brotið gegn ákvæðum 86. gr. laga nr. 24/2000 þegar kærandinn Ásdís greiddi atkvæði á kjörfundi á þann hátt, sem áður var lýst. Jafnframt liggur fyrir að í einu öðru tilviki fékk kjósandi, sem ekki var einfær um að greiða atkvæði, aðstoð frá manni, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað en átti ekki sæti í kjörstjórn. Teljast þetta ótvíræðir gallar á forsetakjörinu. Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, sbr. einnig 94. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, kemur fram sú meginregla í íslenskum rétti að almennar kosningar skulu því aðeins lýstar ógildar að slíkir gallar séu á þeim að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á kosningaúrslit. Frá þessari meginreglu er gerð undantekning með því að mælt er svo fyrir í fyrrnefnda lagaákvæðinu að alþingiskosningar skuli allt að einu ógiltar ef þingmaður, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellum, enda séu þær verulegar. Í lögum nr. 36/1945 er ekki kveðið á um það hvenær gallar á forsetakjöri skuli leiða til ógildingar þess. Þótt ekki sé þar efnislega vísað til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000 hljóta sömu reglur eftir eðli máls að eiga við þegar úrskurðað er um gildi forsetakjörs og alþingiskosninga, enda er í báðum tilvikum um að ræða almennar kosningar á landinu öllu. Samkvæmt því verður ekki litið svo á að fyrrgreindir gallar á forsetakjörinu 30. júní 2012 eigi að leiða til ógildingar þess, enda voru þeir með öllu óviðkomandi þeim frambjóðanda, sem flest atkvæði hlaut, umboðsmönnum hans og meðmælendum og höfðu augljóslega engin áhrif á úrslit kjörsins.

Samkvæmt öllu framangreindu er hafnað kröfu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar um að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.


Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar 
við kjör forseta Íslands

---ooo000ooo---

Ár 2012, miðvikudaginn 6. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti hefur borist „kæra vegna undirbúnings forsetakosninga 2012“ frá Hauki Haraldssyni, Kristni Jónssyni, Helenu Hauksdóttur, Kristni Jónssyni og Ingvari Erni Arnarssyni, sem einnig var beint til innanríkisráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Í erindi þessu segir að kært sé „hvernig staðið hefur verið að undirbúningi forsetakosninga 2012 af Yfirkjörstjórnum og Innanríkisráðuneytinu“ og krafist „leiðréttinga og eða ógildingar kosninganna.“ Kemur fram að tilefnið fyrir þessu erindi sé að innanríkisráðuneytið hafi 1. júní 2012 tilkynnt Ástþóri Magnússyni Wium að framboð hans til embættis forseta Íslands uppfyllti ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands og yrði ekki metið gilt sökum þess að ráðuneytið teldi að ekki hafi verið lögð fram gögn um að aflað hafi verið nægilegs fjölda meðmælenda með framboðinu. Í niðurlagi erindisins segir að krafist sé að ákvörðun þessi verði dregin til baka, en til vara að Ástþóri Magnússyni Wium verði veittur tíu daga frestur til að „afla nýrra meðmælenda í stað þeirra sem sannarlega hafi verið falsaðir á meðmælendalistum og Yfirkjörstjórnir yfirfari viðbótarnöfnin án tafar og gefi út vottorð, og Innanríkisráðuneytið staðfesti löglegt framboð hans.“ Verði þetta ekki tekið til greina og gengið til kosninga telji kærendur brotið á sér „og okkar frambjóðanda“ og sé það „brot á mannréttindum og forsetakjörið þar með ógilt.“

Fyrir liggur að innanríkisráðherra gaf út auglýsingu 1. júní 2012, þar sem fram kemur að sex nafngreindir menn séu í kjöri til embættis forseta Íslands við kosningar 30. sama mánaðar.

Í 2. gr. laga nr. 36/1945 kemur fram að undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör séu þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra hafi Hæstiréttur þau störf með höndum, sem segi í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjóra og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands. Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.

Af framangreindri talningu verður ráðið að ekki er í lögum nr. 36/1945 að finna heimild til að beina til Hæstaréttar erindi af því tagi, sem að framan er lýst. Kærunni er því vísað frá Hæstarétti.

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar

við kjör forseta Íslands

---ooo000ooo---

Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti barst 13. júlí 2012 ódagsett bréf Ástþórs Magnússonar Wium, Vogaseli 1, Reykjavík, þar sem hann ber fram kæru, sem varðar lögmæti forsetakjörs 30. júní 2012 samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar ógildar vegna þriggja atriða, sem tengjast því að kærandinn hugðist samkvæmt gögnum málsins bjóða sig fram, en innanríkisráðuneytið tilkynnti honum með bréfi 1. júní 2012 að framboð hans yrði ekki metið gilt.

Kæran er í fyrsta lagi reist á því að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi 22. maí 2012 gefið út vottorð, þar sem tekin hafi verið gild meðmæli úr Vestfirðingafjórðungi með framboði kærandans. Þetta vottorð hafi yfirkjörstjórnin afturkallað með bréfi 25. sama mánaðar með vísan til þess að við nánari athugun hennar á meðmælendalistum kærandans úr Vestfirðingafjórðungi hafi komið fram að flestir þeir, sem þar voru skráðir og spurðir voru, hafi ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á slíka lista og væru því brostnar forsendur fyrir vottorðinu. Kærandinn byggir á því að yfirkjörstjórninni hafi ekki verið heimilt að afturkalla stjórnsýsluákvörðun um að gefa út vottorðið 22. maí 2012 nema að uppfylltum skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim skilyrðum hafi ekki verið fullnægt í þessu tilviki og sé því ógild ákvörðun yfirkjörstjórnarinnar 25. sama mánaðar um afturköllun vottorðsins. Í öðru lagi er kæran reist á því að ákvörðun innanríkisráðuneytisins 1. júní 2012 hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Ráðuneytið hafi þar stuðst við ákvörðun yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis 25. maí 2012 um afturköllun vottorðsins frá 22. sama mánaðar, svo og að yfirkjörstjórnir annarra kjördæma hafi gefið út vottorð til kærandans með fyrirvara um gildi undirskrifta á meðmælendalistum með framboði hans. Á þessu hafi ráðuneytið ekki mátt byggja, enda hafi rannsókn ekki farið fram á undirskriftum á meðmælendalistunum. Í þriðja lagi hafi yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis farið út fyrir verksvið sitt samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 þegar hún hafi staðið að könnun á meðmælendalistum kærandans með því að hringja í menn, sem þar voru skráðir. Með þessu hafi yfirkjörstjórnin jafnframt brotið gegn persónuvernd þeirra, sem hringt var í, en frekari rannsókn hafi ekki verið gerð á ætlaðri fölsun undirskrifta og sé ljóst að ekki verði við kærandann sakast vegna slíks athæfis.

Hæstiréttur gaf innanríkisráðuneytinu og yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, yfirkjörstjórninni og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðendurnir Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason og Þóra Arnórsdóttir lýstu því bréflega að þau teldu ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Herdís Þorgeirsdóttir létu hana ekki til sín taka. Kærandanum var gefinn kostur á að tjá sig um þessar athugasemdir, sem hann neytti með bréfi 22. júlí 2012.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 skal sá, sem býður sig fram við forsetakjör, afhenda innanríkisráðuneytinu ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag gögn um nægilega tölu meðmælenda með framboði sínu, svo og vottorð yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Við gerð slíks vottorðs getur yfirkjörstjórn ekki látið við það sitja að staðreyna það eitt hvort meðmælendur með framboði séu á kjörskrá, heldur verður hún einnig að gæta meðal annars að því hvort fyrirliggjandi gögn gefi tilefni til að efast um að þeir, sem sagðir eru meðmælendur, hafi sjálfir ritað undir yfirlýsingu um það. Sé svo verður yfirkjörstjórn að bregðast við með frekari athugun. Fram er komið að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis taldi við könnun á meðmælendalistum með framboði kærandans að ástæða gæti verið til að ætla að undirskriftir á þeim kynnu að vera falsaðar og greip hún af því tilefni til þess ráðs að hringja til skráðra meðmælenda úr Vestfirðingafjórðungi. Í athugasemdum innanríkisráðuneytisins til Hæstaréttar segir að þessir meðmælendur hafi verið 77 talsins og hafi 53 þeirra ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á meðmælendalista með framboði kærandans, 11 hafi staðfest undirritun sína, en til annarra hafi ekki náðst. Vegna þess fjölda manna, sem könnuðust ekki við að hafa ritað undir meðmælendalistana, taldi yfirkjörstjórnin sýnt að kærandinn hafi ekki náð þeirri tölu meðmælenda í fjórðungnum, sem áskilin var í auglýsingu forsætisráðuneytisins 15. mars 2012, sbr. 5. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945. Eins og atvikum var háttað var ekki þörf á frekari rannsókn. Taka ber fram að í málatilbúnaði kærandans hefur efnisleg niðurstaða yfirkjörstjórnarinnar ekki verið vefengd. Vegna þess galla, sem samkvæmt þessu var á framboði kærandans, var yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis rétt samkvæmt 2. tölulið 25. gr. stjórnsýslulaga að afturkalla að eigin frumkvæði ákvörðun frá 22. maí 2012 um að gefa út vottorð um að tilskilinn fjöldi kosningabærra manna í Vestfirðingafjórðungi hefði mælt með framboðinu, enda var sú ákvörðun ógildanleg. Því til samræmis var innanríkisráðuneytinu skylt að hafna framboði kærandans, svo sem gert var 1. júní 2012.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað kröfu Ástþórs Magnússonar Wium um að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar 30. júní 2012 ógildar.

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar

við kjör forseta Íslands

---ooo000ooo---

Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti barst 18. júlí 2012 bréf Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, þar sem hann ber fram kæru í þágu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar, sem varðar lögmæti forsetakjörs samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.

I

Samkvæmt kærunni er tilefni hennar einkum það að kjósendum, sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi í forsetakosningum 30. júní 2012, hafi ekki verið heimilað að njóta þar liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali, heldur hafi þeim verið gert að fá aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild til að rita á kjörseðil. Kjósendum, sem ekki hafi unað þessu, hafi verið meinað að neyta atkvæðisréttar síns. Kærendur telja þessa skipan, sem leiðir af 86. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, brjóta gegn meginreglum um frjálsar, óþvingaðar og leynilegar kosningar og séu lagaákvæði, sem að þessu lúta, andstæð stjórnarskránni. Í kærunni er greint frá því að kærandinn Ásdís sé fötluð og geti ekki kosið með eigin hendi. Við forsetakosningarnar hafi hún krafist þess í kjördeild að fylgdarmaður hennar fengi að veita henni aðstoð við að greiða atkvæði, en því hafi verið hafnað og henni boðið að velja til þess mann úr kjörstjórn. Að endingu hafi verið komist að þeirri málamiðlun að hún fengi aðstoð fylgdarmanns síns til að skrifa á miða nafn þess frambjóðanda, sem hún vildi kjósa, miðinn hafi svo verið afhentur kjörstjórnarmanni inni í kjörklefa og hafi hann merkt við nafnið á kjörseðli. Kærandinn Rúnar sé einnig fatlaður og geti ekki kosið með eigin hendi. Með honum hafi mætt á kjörstað aðstandandi, sem hann hafi viljað láta aðstoða sig við atkvæðagreiðslu, en þeirri ósk hafi verið hafnað og hann því vikið af kjörfundi. Kærandinn Guðmundur sé fatlaður, en hann hafi þó greitt atkvæði í kosningunum með eigin hendi.

Í kærunni er vísað til þess að samkvæmt 5. gr. stjórnarskrárinnar skuli forseti Íslands kosinn við beinar og leynilegar kosningar af þeim, sem hafi kosningarrétt til Alþingis. Í lögum nr. 36/1945 séu ekki beinar reglur um framkvæmd forsetakjörs, heldur segi þar í 3. mgr. 6. gr. að um kosningaathöfnina, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því, sem við eigi. Þá sé tekið fram í 1. mgr. 14. gr. að ákvæði 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gildi um forsetakosningar að svo miklu leyti, sem við geti átt. Þessar tilvísanir laga nr. 36/1945 nái ekki til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, þar sem fram komi að gallar á kosningum valdi því aðeins ógildingu þeirra að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Í því sambandi megi einnig líta til þess að í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþing hafi verið ákvæði hliðstæð 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, en með ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 hafi kosningar til stjórnlagaþings verið ógiltar án þess að nokkuð hafi bent til að gallar á þeim hafi haft áhrif á niðurstöður. Vegna þeirra atvika, sem áður greinir, hafi þess ekki verið gætt í forsetakosningunum 30. júní 2012 að tryggt væri í framkvæmd að þær væru frjálsar og leynilegar. Þannig nægi það eitt til að ógilda kosningarnar án tillits til þess hvort þessi galli hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra.

Kærendur benda á að með 3. mgr. 63. gr. og 86. gr. laga nr. 24/2000 sé vikið frá meginreglu 2. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 81. gr. sömu laga um að kjósandi skuli greiða atkvæði sitt í einrúmi og án aðstoðar og þannig leynilega. Fyrrnefndu lagaákvæðin tvö feli nánar tiltekið í sér að kjósandi geti óskað eftir aðstoð til að kjósa ef hann greinir kjörstjóra við utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða kjörstjórn á kjörfundi frá því að hann sé ófær um að gera það einn síns liðs vegna sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf. Að baki þessu séu þau rök að kjósandi, sem þannig sé ástatt um, yrði að öðrum kosti sviptur kosningarrétti. Á þessum ákvæðum séu á hinn bóginn þeir annmarkar að kjósandi geti við þessar aðstæður eingöngu leitað aðstoðar kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns, sem fari með opinbert vald, en með frjálsum og leynilegum kosningum eigi ekki síst að vernda kjósendur fyrir afskiptum valdhafa af því hvernig atkvæði sé varið. Til samanburðar er í kærunni bent á að við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings hafi samkvæmt ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra 26. nóvember 2010 verið heimilað að blindir, sjónskertir og þeir, sem ekki hafi getað fyllt út kjörseðil með eigin hendi, fengju að hafa með sér mann að eigin vali til að veita sér aðstoð í kjördeild. Hæstarétti hafi borist kærur vegna þessara kosninga, en þar hafi ekki verið fundið að þessari tilhögun og heldur ekki í ákvörðun réttarins 25. janúar 2011, þar sem kosningarnar voru ógiltar af öðrum ástæðum.

Í kærunni er því ítarlega lýst hvernig kærendur telji þá skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, andstæða ýmsum fyrirmælum stjórnarskrárinnar, einkum 5. gr. og 31. gr. um leynilegar kosningar, jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr., ákvæðum 71. gr. um friðhelgi einkalífs og 73. gr. um skoðana-, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og banni í 1. mgr. 68. gr. við vanvirðandi meðferð, auk óskráðra meginreglna hennar um sjálfræði manna og meðalhóf. Þessi skipan sé jafnframt andstæð 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007, sem Ísland hafi gerst aðili að, en kærendur telji þennan samning, sem ekki hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, hafa verið leiddan í innlend lög með breytingu, sem gerð var með lögum nr. 152/2010 á 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Þessi skipan sé einnig í andstöðu við 3. gr. 1. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglur um góða starfshætti við kosningar frá svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Til þeirra reglna og samningsins um réttindi fatlaðs fólks hafi verið vitnað í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu, sem sýni gildi þessara heimilda þótt þær kunni að vera óskuldbindandi að alþjóðalögum. Kærendur lýsa þeirri skoðun að Hæstarétti sé við úrlausn um kæruna fært að víkja til hliðar 86. gr. laga nr. 24/2000 á þeim grunni að ákvæðið sé andstætt æðri réttarheimildum í stjórnarskrá og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Verði og að líta til þess að eftir því, sem skerðing réttinda verði þungbærari, þurfi veigameiri rök að búa að baki henni, en í þessu tilviki hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn hennar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 hvíli jafnframt á ríkinu athafnaskylda vegna málefna fatlaðra, sem hafi að auki vegna framkvæmdar kosninga til stjórnlagaþings haft réttmætar væntingar um að réttinda þeirra yrði gætt varðandi aðstoð við kosningar. Í kærunni er einnig fjallað um ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings og atvik þar borin saman við þau, sem hér eru uppi.

II

Hæstiréttur gaf yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum landsins kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Að ósk kærenda var innanríkisráðuneytinu jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, öllum yfirkjörstjórnum og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðandinn Ari Trausti Guðmundsson lýsti því bréflega að hann teldi ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir létu hana ekki til sín taka.

Í bréfum, sem Hæstiréttur sendi yfirkjörstjórnum 19. júlí 2012 til að gefa þeim kost á að gera athugasemdir vegna kærunnar, var óskað eftir því að veittar yrðu upplýsingar um þann fjölda kjósenda, sem hafi greitt atkvæði á kjörfundi við forsetakosningarnar samkvæmt reglum 86. gr. laga nr. 24/2000 og hvort einhver þeirra hafi andmælt því að maður úr kjörstjórn veitti sér aðstoð við atkvæðagreiðsluna. Einnig hvort einhver kjósandi hafi greitt atkvæði með atbeina manns, sem ekki hafi átt sæti í kjörstjórn, og hvort einhver á kjörskrá hafi yfirgefið kjörstað án þess að greiða atkvæði sökum þess að hann hafi ekki viljað þiggja aðstoð kjörstjórnarmanns. Samkvæmt svörum yfirkjörstjórnanna við þessum spurningum greiddu samtals 173 kjósendur á landinu öllu atkvæði með aðstoð kjörstjórnarmanns, þar af tveir að undangengnum mótmælum gegn þeirri tilhögun. Einn kjósandi hafi fengið að njóta aðstoðar manns, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað og átti ekki sæti í kjörstjórn, og einn kjósandi hafi horfið af kjörstað án þess að greiða atkvæði eftir að hafnað hafi verið ósk hans um að fá aðstoð frá manni, sem ekki sat í kjörstjórn.

Kærendunum var gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar athugasemdir, sem þau neyttu með bréfi 24. júlí 2012. Í því gera þau bæði almennar athugasemdir, sem lúta að tölfræðiupplýsingum, og athugasemdir við einstakar umsagnir.

III

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar skal forseti Íslands kjörinn beinum og leynilegum kosningum af þeim, sem hafa kosningarrétt til Alþingis, en eftir 1. mgr. 33. gr. hennar njóta þess réttar allir íslenskir ríkisborgarar, sem eru orðnir 18 ára á kjördegi og eiga lögheimili hér á landi nema undantekningar frá skilyrðinu um það síðastnefnda hafi verið ákveðnar í kosningalögum. Af 2. mgr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, sbr. 1. mgr. 81. gr., 82. gr., 84. gr., 85. gr. og 87. gr. laga nr. 24/2000, leiðir að leynileg kosning forseta á kjörfundi er einkum tryggð með því að kjósandi greiði atkvæði í kjörklefa, þar sem hann megi einn vera, hann geri þetta með því að setja með ritblýi kross á kjörseðil framan við nafn frambjóðandans, sem hann kjósi, og megi engin önnur merki færa á kjörseðilinn, hann brjóti saman seðilinn áður en hann haldi út úr kjörklefa, leggi síðan seðilinn í kjörkassa og gæti að því að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði, en verði misbrestur á því verði kjörseðill ónýtur. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, sbr. d. og e. liði 125. gr. laga nr. 24/2000, varðar það refsingu að kjósandi sýni af ásetningi hvernig hann kýs eða hefur kosið, svo og að maður njósni um hvernig kjósandi verji atkvæði sínu.

Blindum mönnum, sem numið geta blindraletur, er með úrræðum samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 24/2000 gert fært að greiða atkvæði leynilega á sama hátt og þeir, sem hafa næga sjón. Að því frágengnu er ljóst að kæmi ekki annað til yrðu þeir, sem skortir annars sjón eða líkamsmátt til að greiða atkvæði eins og að framan er lýst, í raun útilokaðir frá því að neyta kosningarréttar við forsetakosningar. Hjá slíkri skerðingu réttinda verður ekki komist nema vikið sé með lögum frá ítrustu skilyrðum um leynilegar kosningar gagnvart þeim kjósendum, sem þess þurfa með. Svo að slíkt frávik verði ekki meira en nauðsyn ber til er ekki önnur leið tæk en sú að kjósanda, sem á því þarf að halda, sé tryggð aðstoð manns, sem bundinn sé þagnarskyldu, sá maður taki á kjörfundi við fyrirmælum kjósandans um hvernig atkvæði hans skuli varið og leggi svo til sína hönd til að framfylgja þeim, en í öðrum atriðum verði farið eftir almennum reglum til að tryggja leynd kosningar. Þetta hlutverk verður vart falið öðrum með lögum en manni, sem situr í kjörstjórn við framkvæmd kosninga, eða manni, sem kjósandi velur sjálfur og fylgir honum á kjörstað. Í þessu sambandi verður að gæta að því að reglan um leynilegar kosningar þjónar meðal annars þeim tilgangi að vernda kjósanda fyrir áhrifum, sem aðrir kunna að vilja hafa á það hvernig hann ver atkvæði sínu, þar á meðal frá þeim, sem þekkja kjósandann og eru í áhrifastöðu gagnvart honum, svo sem vegna fjölskyldutengsla, búsetu, atvinnu eða fjármála. Ef kjósandi þarf aðstoð við atkvæðagreiðslu skiptir því máli að svo sé búið um hnúta að hann sé varinn fyrir slíkum afskiptum, svo sem áskilið er í reglum Feneyjanefndarinnar um góða starfshætti við kosningar, sem vitnað er til í kæru. Með því að fela manni úr kjörstjórn það verk að veita kjósanda aðstoð er tryggt svo vel, sem kostur er, að gengið sé ótvírætt eftir vilja hans á kjörstað og sá vilji ráði því einn hvernig atkvæði fellur. Fyrir þessu getur ekki fengist hliðstæð vissa ef kjósandi nýtur aðstoðar frá manni, sem hefur fylgt honum á kjörstað. Ráði kjósandinn því hver veiti honum aðstoð er á hinn bóginn tryggt að hann þurfi ekki að trúa öðrum en þeim, sem hann velur í því skyni, fyrir svo mikilvægu persónulegu málefni, en að öðrum kosti yrði hann að greina ókunnugum manni frá því.

Í 86. gr. laga nr. 24/2000 er mælt svo fyrir að skýri kjósandi kjörstjórn svo frá að hann sé ekki fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skuli sá úr kjörstjórninni, sem kjósandi nefnir til, veita honum aðstoð til þess í kjörklefa, enda er sá, sem aðstoðina veitir, bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því, sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina og tilgreina ástæðuna fyrir því að hún sé veitt. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt kjörstjórnarmanninum ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð, sem þannig þarfnast hennar. Samkvæmt b. lið 126. gr. laga nr. 24/2000 varðar það kjörstjórnarmann sektum ef hann segir frá því hvernig kjósandi, sem hann hefur aðstoðað, hefur greitt atkvæði, en slíkt brot, sem framið yrði af ásetningi, gæti varðað þyngri refsingu eftir 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með setningu þessara reglna hefur löggjafinn valið að fara þá fyrrnefndu af þeim tveimur leiðum, sem áður var getið. Að virtum þeim kostum og ókostum, sem fylgja hvorri þessara leiða, verður ekki fallist á með kærendum að ákvæði stjórnarskrárinnar, sem þau vísa til, knýi á um það að löggjafanum hefði borið að fara aðra leiðina hinni fremur, enda er málum þannig skipað samkvæmt lögum á mörgum öðrum sviðum að menn, sem fá vegna starfa síns vitneskju um einkamálefni annarra, séu bundnir þagnarskyldu um þau. Samkvæmt því verður sú skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, ekki talin andstæð stjórnarskránni. Aðrar heimildir, sem kærendur hafa vísað til, geta heldur ekki staðið til þess að krafa þeirra um ógildingu forsetakjörs verði tekin til greina.

Að lögum stendur engin heimild til þess að annar en kjörstjórnarmaður veiti kjósanda aðstoð við atkvæðagreiðslu á kjörstað. Kjörstjórnarmanni er ekki heimilt að færast undan þessari skyldu eða leyfa öðrum að veita kjósanda aðstoð í sinn stað, enda hvílir engin lögmælt skylda á þeim, sem ekki á sæti í kjörstjórn, að halda því leyndu hvernig kjósandi hefur greitt atkvæði við þessar aðstæður. Ákvæði a. liðar 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hvorki hefur verið fullgiltur af Íslandi né lögtekinn hér á landi, haggar ekki við skýrum ákvæðum laga um þetta efni. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, var brotið gegn ákvæðum 86. gr. laga nr. 24/2000 þegar kærandinn Ásdís greiddi atkvæði á kjörfundi á þann hátt, sem áður var lýst. Jafnframt liggur fyrir að í einu öðru tilviki fékk kjósandi, sem ekki var einfær um að greiða atkvæði, aðstoð frá manni, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað en átti ekki sæti í kjörstjórn. Teljast þetta ótvíræðir gallar á forsetakjörinu. Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, sbr. einnig 94. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, kemur fram sú meginregla í íslenskum rétti að almennar kosningar skulu því aðeins lýstar ógildar að slíkir gallar séu á þeim að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á kosningaúrslit. Frá þessari meginreglu er gerð undantekning með því að mælt er svo fyrir í fyrrnefnda lagaákvæðinu að alþingiskosningar skuli allt að einu ógiltar ef þingmaður, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellum, enda séu þær verulegar. Í lögum nr. 36/1945 er ekki kveðið á um það hvenær gallar á forsetakjöri skuli leiða til ógildingar þess. Þótt ekki sé þar efnislega vísað til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000 hljóta sömu reglur eftir eðli máls að eiga við þegar úrskurðað er um gildi forsetakjörs og alþingiskosninga, enda er í báðum tilvikum um að ræða almennar kosningar á landinu öllu. Samkvæmt því verður ekki litið svo á að fyrrgreindir gallar á forsetakjörinu 30. júní 2012 eigi að leiða til ógildingar þess, enda voru þeir með öllu óviðkomandi þeim frambjóðanda, sem flest atkvæði hlaut, umboðsmönnum hans og meðmælendum og höfðu augljóslega engin áhrif á úrslit kjörsins.

Samkvæmt öllu framangreindu er hafnað kröfu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar um að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar 
við kjör forseta Íslands

---ooo000ooo---

 

Ár 2012, miðvikudaginn 6. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti hefur borist „kæra vegna undirbúnings forsetakosninga 2012“ frá Hauki Haraldssyni, Kristni Jónssyni, Helenu Hauksdóttur, Kristni Jónssyni og Ingvari Erni Arnarssyni, sem einnig var beint til innanríkisráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Í erindi þessu segir að kært sé „hvernig staðið hefur verið að undirbúningi forsetakosninga 2012 af Yfirkjörstjórnum og Innanríkisráðuneytinu“ og krafist „leiðréttinga og eða ógildingar kosninganna.“ Kemur fram að tilefnið fyrir þessu erindi sé að innanríkisráðuneytið hafi 1. júní 2012 tilkynnt Ástþóri Magnússyni Wium að framboð hans til embættis forseta Íslands uppfyllti ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands og yrði ekki metið gilt sökum þess að ráðuneytið teldi að ekki hafi verið lögð fram gögn um að aflað hafi verið nægilegs fjölda meðmælenda með framboðinu. Í niðurlagi erindisins segir að krafist sé að ákvörðun þessi verði dregin til baka, en til vara að Ástþóri Magnússyni Wium verði veittur tíu daga frestur til að „afla nýrra meðmælenda í stað þeirra sem sannarlega hafi verið falsaðir á meðmælendalistum og Yfirkjörstjórnir yfirfari viðbótarnöfnin án tafar og gefi út vottorð, og Innanríkisráðuneytið staðfesti löglegt framboð hans.“ Verði þetta ekki tekið til greina og gengið til kosninga telji kærendur brotið á sér „og okkar frambjóðanda“ og sé það „brot á mannréttindum og forsetakjörið þar með ógilt.“

Fyrir liggur að innanríkisráðherra gaf út auglýsingu 1. júní 2012, þar sem fram kemur að sex nafngreindir menn séu í kjöri til embættis forseta Íslands við kosningar 30. sama mánaðar.

Í 2. gr. laga nr. 36/1945 kemur fram að undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör séu þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra hafi Hæstiréttur þau störf með höndum, sem segi í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjóra og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands. Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.

Af framangreindri talningu verður ráðið að ekki er í lögum nr. 36/1945 að finna heimild til að beina til Hæstaréttar erindi af því tagi, sem að framan er lýst. Kærunni er því vísað frá Hæstarétti.

 

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar

við kjör forseta Íslands

 

---ooo000ooo---

 

Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti barst 13. júlí 2012 ódagsett bréf Ástþórs Magnússonar Wium, Vogaseli 1, Reykjavík, þar sem hann ber fram kæru, sem varðar lögmæti forsetakjörs 30. júní 2012 samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar ógildar vegna þriggja atriða, sem tengjast því að kærandinn hugðist samkvæmt gögnum málsins bjóða sig fram, en innanríkisráðuneytið tilkynnti honum með bréfi 1. júní 2012 að framboð hans yrði ekki metið gilt.

Kæran er í fyrsta lagi reist á því að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi 22. maí 2012 gefið út vottorð, þar sem tekin hafi verið gild meðmæli úr Vestfirðingafjórðungi með framboði kærandans. Þetta vottorð hafi yfirkjörstjórnin afturkallað með bréfi 25. sama mánaðar með vísan til þess að við nánari athugun hennar á meðmælendalistum kærandans úr Vestfirðingafjórðungi hafi komið fram að flestir þeir, sem þar voru skráðir og spurðir voru, hafi ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á slíka lista og væru því brostnar forsendur fyrir vottorðinu. Kærandinn byggir á því að yfirkjörstjórninni hafi ekki verið heimilt að afturkalla stjórnsýsluákvörðun um að gefa út vottorðið 22. maí 2012 nema að uppfylltum skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim skilyrðum hafi ekki verið fullnægt í þessu tilviki og sé því ógild ákvörðun yfirkjörstjórnarinnar 25. sama mánaðar um afturköllun vottorðsins. Í öðru lagi er kæran reist á því að ákvörðun innanríkisráðuneytisins 1. júní 2012 hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Ráðuneytið hafi þar stuðst við ákvörðun yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis 25. maí 2012 um afturköllun vottorðsins frá 22. sama mánaðar, svo og að yfirkjörstjórnir annarra kjördæma hafi gefið út vottorð til kærandans með fyrirvara um gildi undirskrifta á meðmælendalistum með framboði hans. Á þessu hafi ráðuneytið ekki mátt byggja, enda hafi rannsókn ekki farið fram á undirskriftum á meðmælendalistunum. Í þriðja lagi hafi yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis farið út fyrir verksvið sitt samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 þegar hún hafi staðið að könnun á meðmælendalistum kærandans með því að hringja í menn, sem þar voru skráðir. Með þessu hafi yfirkjörstjórnin jafnframt brotið gegn persónuvernd þeirra, sem hringt var í, en frekari rannsókn hafi ekki verið gerð á ætlaðri fölsun undirskrifta og sé ljóst að ekki verði við kærandann sakast vegna slíks athæfis.

Hæstiréttur gaf innanríkisráðuneytinu og yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, yfirkjörstjórninni og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðendurnir Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason og Þóra Arnórsdóttir lýstu því bréflega að þau teldu ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Herdís Þorgeirsdóttir létu hana ekki til sín taka. Kærandanum var gefinn kostur á að tjá sig um þessar athugasemdir, sem hann neytti með bréfi 22. júlí 2012.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 skal sá, sem býður sig fram við forsetakjör, afhenda innanríkisráðuneytinu ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag gögn um nægilega tölu meðmælenda með framboði sínu, svo og vottorð yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Við gerð slíks vottorðs getur yfirkjörstjórn ekki látið við það sitja að staðreyna það eitt hvort meðmælendur með framboði séu á kjörskrá, heldur verður hún einnig að gæta meðal annars að því hvort fyrirliggjandi gögn gefi tilefni til að efast um að þeir, sem sagðir eru meðmælendur, hafi sjálfir ritað undir yfirlýsingu um það. Sé svo verður yfirkjörstjórn að bregðast við með frekari athugun. Fram er komið að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis taldi við könnun á meðmælendalistum með framboði kærandans að ástæða gæti verið til að ætla að undirskriftir á þeim kynnu að vera falsaðar og greip hún af því tilefni til þess ráðs að hringja til skráðra meðmælenda úr Vestfirðingafjórðungi. Í athugasemdum innanríkisráðuneytisins til Hæstaréttar segir að þessir meðmælendur hafi verið 77 talsins og hafi 53 þeirra ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á meðmælendalista með framboði kærandans, 11 hafi staðfest undirritun sína, en til annarra hafi ekki náðst. Vegna þess fjölda manna, sem könnuðust ekki við að hafa ritað undir meðmælendalistana, taldi yfirkjörstjórnin sýnt að kærandinn hafi ekki náð þeirri tölu meðmælenda í fjórðungnum, sem áskilin var í auglýsingu forsætisráðuneytisins 15. mars 2012, sbr. 5. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945. Eins og atvikum var háttað var ekki þörf á frekari rannsókn. Taka ber fram að í málatilbúnaði kærandans hefur efnisleg niðurstaða yfirkjörstjórnarinnar ekki verið vefengd. Vegna þess galla, sem samkvæmt þessu var á framboði kærandans, var yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis rétt samkvæmt 2. tölulið 25. gr. stjórnsýslulaga að afturkalla að eigin frumkvæði ákvörðun frá 22. maí 2012 um að gefa út vottorð um að tilskilinn fjöldi kosningabærra manna í Vestfirðingafjórðungi hefði mælt með framboðinu, enda var sú ákvörðun ógildanleg. Því til samræmis var innanríkisráðuneytinu skylt að hafna framboði kærandans, svo sem gert var 1. júní 2012.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað kröfu Ástþórs Magnússonar Wium um að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar 30. júní 2012 ógildar.

 

Endurrit

úr

gerðabók Hæstaréttar

við kjör forseta Íslands

 

---ooo000ooo---

 

Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.

Hæstarétti barst 18. júlí 2012 bréf Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, þar sem hann ber fram kæru í þágu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar, sem varðar lögmæti forsetakjörs samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.

I

Samkvæmt kærunni er tilefni hennar einkum það að kjósendum, sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi í forsetakosningum 30. júní 2012, hafi ekki verið heimilað að njóta þar liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali, heldur hafi þeim verið gert að fá aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild til að rita á kjörseðil. Kjósendum, sem ekki hafi unað þessu, hafi verið meinað að neyta atkvæðisréttar síns. Kærendur telja þessa skipan, sem leiðir af 86. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, brjóta gegn meginreglum um frjálsar, óþvingaðar og leynilegar kosningar og séu lagaákvæði, sem að þessu lúta, andstæð stjórnarskránni. Í kærunni er greint frá því að kærandinn Ásdís sé fötluð og geti ekki kosið með eigin hendi. Við forsetakosningarnar hafi hún krafist þess í kjördeild að fylgdarmaður hennar fengi að veita henni aðstoð við að greiða atkvæði, en því hafi verið hafnað og henni boðið að velja til þess mann úr kjörstjórn. Að endingu hafi verið komist að þeirri málamiðlun að hún fengi aðstoð fylgdarmanns síns til að skrifa á miða nafn þess frambjóðanda, sem hún vildi kjósa, miðinn hafi svo verið afhentur kjörstjórnarmanni inni í kjörklefa og hafi hann merkt við nafnið á kjörseðli. Kærandinn Rúnar sé einnig fatlaður og geti ekki kosið með eigin hendi. Með honum hafi mætt á kjörstað aðstandandi, sem hann hafi viljað láta aðstoða sig við atkvæðagreiðslu, en þeirri ósk hafi verið hafnað og hann því vikið af kjörfundi. Kærandinn Guðmundur sé fatlaður, en hann hafi þó greitt atkvæði í kosningunum með eigin hendi.

Í kærunni er vísað til þess að samkvæmt 5. gr. stjórnarskrárinnar skuli forseti Íslands kosinn við beinar og leynilegar kosningar af þeim, sem hafi kosningarrétt til Alþingis. Í lögum nr. 36/1945 séu ekki beinar reglur um framkvæmd forsetakjörs, heldur segi þar í 3. mgr. 6. gr. að um kosningaathöfnina, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því, sem við eigi. Þá sé tekið fram í 1. mgr. 14. gr. að ákvæði 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gildi um forsetakosningar að svo miklu leyti, sem við geti átt. Þessar tilvísanir laga nr. 36/1945 nái ekki til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, þar sem fram komi að gallar á kosningum valdi því aðeins ógildingu þeirra að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Í því sambandi megi einnig líta til þess að í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþing hafi verið ákvæði hliðstæð 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, en með ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 hafi kosningar til stjórnlagaþings verið ógiltar án þess að nokkuð hafi bent til að gallar á þeim hafi haft áhrif á niðurstöður. Vegna þeirra atvika, sem áður greinir, hafi þess ekki verið gætt í forsetakosningunum 30. júní 2012 að tryggt væri í framkvæmd að þær væru frjálsar og leynilegar. Þannig nægi það eitt til að ógilda kosningarnar án tillits til þess hvort þessi galli hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra.

Kærendur benda á að með 3. mgr. 63. gr. og 86. gr. laga nr. 24/2000 sé vikið frá meginreglu 2. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 81. gr. sömu laga um að kjósandi skuli greiða atkvæði sitt í einrúmi og án aðstoðar og þannig leynilega. Fyrrnefndu lagaákvæðin tvö feli nánar tiltekið í sér að kjósandi geti óskað eftir aðstoð til að kjósa ef hann greinir kjörstjóra við utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða kjörstjórn á kjörfundi frá því að hann sé ófær um að gera það einn síns liðs vegna sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf. Að baki þessu séu þau rök að kjósandi, sem þannig sé ástatt um, yrði að öðrum kosti sviptur kosningarrétti. Á þessum ákvæðum séu á hinn bóginn þeir annmarkar að kjósandi geti við þessar aðstæður eingöngu leitað aðstoðar kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns, sem fari með opinbert vald, en með frjálsum og leynilegum kosningum eigi ekki síst að vernda kjósendur fyrir afskiptum valdhafa af því hvernig atkvæði sé varið. Til samanburðar er í kærunni bent á að við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings hafi samkvæmt ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra 26. nóvember 2010 verið heimilað að blindir, sjónskertir og þeir, sem ekki hafi getað fyllt út kjörseðil með eigin hendi, fengju að hafa með sér mann að eigin vali til að veita sér aðstoð í kjördeild. Hæstarétti hafi borist kærur vegna þessara kosninga, en þar hafi ekki verið fundið að þessari tilhögun og heldur ekki í ákvörðun réttarins 25. janúar 2011, þar sem kosningarnar voru ógiltar af öðrum ástæðum.

Í kærunni er því ítarlega lýst hvernig kærendur telji þá skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, andstæða ýmsum fyrirmælum stjórnarskrárinnar, einkum 5. gr. og 31. gr. um leynilegar kosningar, jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr., ákvæðum 71. gr. um friðhelgi einkalífs og 73. gr. um skoðana-, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og banni í 1. mgr. 68. gr. við vanvirðandi meðferð, auk óskráðra meginreglna hennar um sjálfræði manna og meðalhóf. Þessi skipan sé jafnframt andstæð 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007, sem Ísland hafi gerst aðili að, en kærendur telji þennan samning, sem ekki hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, hafa verið leiddan í innlend lög með breytingu, sem gerð var með lögum nr. 152/2010 á 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Þessi skipan sé einnig í andstöðu við 3. gr. 1. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglur um góða starfshætti við kosningar frá svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Til þeirra reglna og samningsins um réttindi fatlaðs fólks hafi verið vitnað í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu, sem sýni gildi þessara heimilda þótt þær kunni að vera óskuldbindandi að alþjóðalögum. Kærendur lýsa þeirri skoðun að Hæstarétti sé við úrlausn um kæruna fært að víkja til hliðar 86. gr. laga nr. 24/2000 á þeim grunni að ákvæðið sé andstætt æðri réttarheimildum í stjórnarskrá og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Verði og að líta til þess að eftir því, sem skerðing réttinda verði þungbærari, þurfi veigameiri rök að búa að baki henni, en í þessu tilviki hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn hennar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 hvíli jafnframt á ríkinu athafnaskylda vegna málefna fatlaðra, sem hafi að auki vegna framkvæmdar kosninga til stjórnlagaþings haft réttmætar væntingar um að réttinda þeirra yrði gætt varðandi aðstoð við kosningar. Í kærunni er einnig fjallað um ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings og atvik þar borin saman við þau, sem hér eru uppi.

II

Hæstiréttur gaf yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum landsins kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Að ósk kærenda var innanríkisráðuneytinu jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, öllum yfirkjörstjórnum og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðandinn Ari Trausti Guðmundsson lýsti því bréflega að hann teldi ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir létu hana ekki til sín taka.

Í bréfum, sem Hæstiréttur sendi yfirkjörstjórnum 19. júlí 2012 til að gefa þeim kost á að gera athugasemdir vegna kærunnar, var óskað eftir því að veittar yrðu upplýsingar um þann fjölda kjósenda, sem hafi greitt atkvæði á kjörfundi við forsetakosningarnar samkvæmt reglum 86. gr. laga nr. 24/2000 og hvort einhver þeirra hafi andmælt því að maður úr kjörstjórn veitti sér aðstoð við atkvæðagreiðsluna. Einnig hvort einhver kjósandi hafi greitt atkvæði með atbeina manns, sem ekki hafi átt sæti í kjörstjórn, og hvort einhver á kjörskrá hafi yfirgefið kjörstað án þess að greiða atkvæði sökum þess að hann hafi ekki viljað þiggja aðstoð kjörstjórnarmanns. Samkvæmt svörum yfirkjörstjórnanna við þessum spurningum greiddu samtals 173 kjósendur á landinu öllu atkvæði með aðstoð kjörstjórnarmanns, þar af tveir að undangengnum mótmælum gegn þeirri tilhögun. Einn kjósandi hafi fengið að njóta aðstoðar manns, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað og átti ekki sæti í kjörstjórn, og einn kjósandi hafi horfið af kjörstað án þess að greiða atkvæði eftir að hafnað hafi verið ósk hans um að fá aðstoð frá manni, sem ekki sat í kjörstjórn.

Kærendunum var gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar athugasemdir, sem þau neyttu með bréfi 24. júlí 2012. Í því gera þau bæði almennar athugasemdir, sem lúta að tölfræðiupplýsingum, og athugasemdir við einstakar umsagnir.

III

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar skal forseti Íslands kjörinn beinum og leynilegum kosningum af þeim, sem hafa kosningarrétt til Alþingis, en eftir 1. mgr. 33. gr. hennar njóta þess réttar allir íslenskir ríkisborgarar, sem eru orðnir 18 ára á kjördegi og eiga lögheimili hér á landi nema undantekningar frá skilyrðinu um það síðastnefnda hafi verið ákveðnar í kosningalögum. Af 2. mgr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, sbr. 1. mgr. 81. gr., 82. gr., 84. gr., 85. gr. og 87. gr. laga nr. 24/2000, leiðir að leynileg kosning forseta á kjörfundi er einkum tryggð með því að kjósandi greiði atkvæði í kjörklefa, þar sem hann megi einn vera, hann geri þetta með því að setja með ritblýi kross á kjörseðil framan við nafn frambjóðandans, sem hann kjósi, og megi engin önnur merki færa á kjörseðilinn, hann brjóti saman seðilinn áður en hann haldi út úr kjörklefa, leggi síðan seðilinn í kjörkassa og gæti að því að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði, en verði misbrestur á því verði kjörseðill ónýtur. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, sbr. d. og e. liði 125. gr. laga nr. 24/2000, varðar það refsingu að kjósandi sýni af ásetningi hvernig hann kýs eða hefur kosið, svo og að maður njósni um hvernig kjósandi verji atkvæði sínu.

Blindum mönnum, sem numið geta blindraletur, er með úrræðum samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 24/2000 gert fært að greiða atkvæði leynilega á sama hátt og þeir, sem hafa næga sjón. Að því frágengnu er ljóst að kæmi ekki annað til yrðu þeir, sem skortir annars sjón eða líkamsmátt til að greiða atkvæði eins og að framan er lýst, í raun útilokaðir frá því að neyta kosningarréttar við forsetakosningar. Hjá slíkri skerðingu réttinda verður ekki komist nema vikið sé með lögum frá ítrustu skilyrðum um leynilegar kosningar gagnvart þeim kjósendum, sem þess þurfa með. Svo að slíkt frávik verði ekki meira en nauðsyn ber til er ekki önnur leið tæk en sú að kjósanda, sem á því þarf að halda, sé tryggð aðstoð manns, sem bundinn sé þagnarskyldu, sá maður taki á kjörfundi við fyrirmælum kjósandans um hvernig atkvæði hans skuli varið og leggi svo til sína hönd til að framfylgja þeim, en í öðrum atriðum verði farið eftir almennum reglum til að tryggja leynd kosningar. Þetta hlutverk verður vart falið öðrum með lögum en manni, sem situr í kjörstjórn við framkvæmd kosninga, eða manni, sem kjósandi velur sjálfur og fylgir honum á kjörstað. Í þessu sambandi verður að gæta að því að reglan um leynilegar kosningar þjónar meðal annars þeim tilgangi að vernda kjósanda fyrir áhrifum, sem aðrir kunna að vilja hafa á það hvernig hann ver atkvæði sínu, þar á meðal frá þeim, sem þekkja kjósandann og eru í áhrifastöðu gagnvart honum, svo sem vegna fjölskyldutengsla, búsetu, atvinnu eða fjármála. Ef kjósandi þarf aðstoð við atkvæðagreiðslu skiptir því máli að svo sé búið um hnúta að hann sé varinn fyrir slíkum afskiptum, svo sem áskilið er í reglum Feneyjanefndarinnar um góða starfshætti við kosningar, sem vitnað er til í kæru. Með því að fela manni úr kjörstjórn það verk að veita kjósanda aðstoð er tryggt svo vel, sem kostur er, að gengið sé ótvírætt eftir vilja hans á kjörstað og sá vilji ráði því einn hvernig atkvæði fellur. Fyrir þessu getur ekki fengist hliðstæð vissa ef kjósandi nýtur aðstoðar frá manni, sem hefur fylgt honum á kjörstað. Ráði kjósandinn því hver veiti honum aðstoð er á hinn bóginn tryggt að hann þurfi ekki að trúa öðrum en þeim, sem hann velur í því skyni, fyrir svo mikilvægu persónulegu málefni, en að öðrum kosti yrði hann að greina ókunnugum manni frá því.

Í 86. gr. laga nr. 24/2000 er mælt svo fyrir að skýri kjósandi kjörstjórn svo frá að hann sé ekki fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skuli sá úr kjörstjórninni, sem kjósandi nefnir til, veita honum aðstoð til þess í kjörklefa, enda er sá, sem aðstoðina veitir, bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því, sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina og tilgreina ástæðuna fyrir því að hún sé veitt. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt kjörstjórnarmanninum ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð, sem þannig þarfnast hennar. Samkvæmt b. lið 126. gr. laga nr. 24/2000 varðar það kjörstjórnarmann sektum ef hann segir frá því hvernig kjósandi, sem hann hefur aðstoðað, hefur greitt atkvæði, en slíkt brot, sem framið yrði af ásetningi, gæti varðað þyngri refsingu eftir 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með setningu þessara reglna hefur löggjafinn valið að fara þá fyrrnefndu af þeim tveimur leiðum, sem áður var getið. Að virtum þeim kostum og ókostum, sem fylgja hvorri þessara leiða, verður ekki fallist á með kærendum að ákvæði stjórnarskrárinnar, sem þau vísa til, knýi á um það að löggjafanum hefði borið að fara aðra leiðina hinni fremur, enda er málum þannig skipað samkvæmt lögum á mörgum öðrum sviðum að menn, sem fá vegna starfa síns vitneskju um einkamálefni annarra, séu bundnir þagnarskyldu um þau. Samkvæmt því verður sú skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, ekki talin andstæð stjórnarskránni. Aðrar heimildir, sem kærendur hafa vísað til, geta heldur ekki staðið til þess að krafa þeirra um ógildingu forsetakjörs verði tekin til greina.

Að lögum stendur engin heimild til þess að annar en kjörstjórnarmaður veiti kjósanda aðstoð við atkvæðagreiðslu á kjörstað. Kjörstjórnarmanni er ekki heimilt að færast undan þessari skyldu eða leyfa öðrum að veita kjósanda aðstoð í sinn stað, enda hvílir engin lögmælt skylda á þeim, sem ekki á sæti í kjörstjórn, að halda því leyndu hvernig kjósandi hefur greitt atkvæði við þessar aðstæður. Ákvæði a. liðar 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hvorki hefur verið fullgiltur af Íslandi né lögtekinn hér á landi, haggar ekki við skýrum ákvæðum laga um þetta efni. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, var brotið gegn ákvæðum 86. gr. laga nr. 24/2000 þegar kærandinn Ásdís greiddi atkvæði á kjörfundi á þann hátt, sem áður var lýst. Jafnframt liggur fyrir að í einu öðru tilviki fékk kjósandi, sem ekki var einfær um að greiða atkvæði, aðstoð frá manni, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað en átti ekki sæti í kjörstjórn. Teljast þetta ótvíræðir gallar á forsetakjörinu. Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, sbr. einnig 94. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, kemur fram sú meginregla í íslenskum rétti að almennar kosningar skulu því aðeins lýstar ógildar að slíkir gallar séu á þeim að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á kosningaúrslit. Frá þessari meginreglu er gerð undantekning með því að mælt er svo fyrir í fyrrnefnda lagaákvæðinu að alþingiskosningar skuli allt að einu ógiltar ef þingmaður, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellum, enda séu þær verulegar. Í lögum nr. 36/1945 er ekki kveðið á um það hvenær gallar á forsetakjöri skuli leiða til ógildingar þess. Þótt ekki sé þar efnislega vísað til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000 hljóta sömu reglur eftir eðli máls að eiga við þegar úrskurðað er um gildi forsetakjörs og alþingiskosninga, enda er í báðum tilvikum um að ræða almennar kosningar á landinu öllu. Samkvæmt því verður ekki litið svo á að fyrrgreindir gallar á forsetakjörinu 30. júní 2012 eigi að leiða til ógildingar þess, enda voru þeir með öllu óviðkomandi þeim frambjóðanda, sem flest atkvæði hlaut, umboðsmönnum hans og meðmælendum og höfðu augljóslega engin áhrif á úrslit kjörsins.

Samkvæmt öllu framangreindu er hafnað kröfu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar um að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.