Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-20

Danól ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tollur
  • Tollskrá
  • Ógildingarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 24. febrúar 2022 leitar Danól ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. febrúar sama mánaðar í máli nr. 462/2021: Danól ehf. gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldur verði úr gildi úrskurður embættis tollgæslustjóra nr. 3/2021. Ágreiningur málsins snýr að túlkun á b-lið 4. athugasemdar við 4. kafla tollskrár, sbr. viðauka I með tollalögum nr. 88/2005 vegna tollflokkunar rifins osts sem leyfisbeiðandi flutti inn að innihaldi rúmlega 80% mozzarella-ostur en 11-12% pálmaolía.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fyrrgreindri kröfu leyfisbeiðanda var hafnað. Kom fram í héraðsdómi að ekki væri um það deilt að varan væri að meginuppistöðu mozzarella-ostur og að tollskrárliður fyrir ost væri 0406. Í fyrrgreindri athugasemd við 4. kafla tollskrárinnar var tekið fram að undir kaflann heyri ekki vörur fengnar úr mjólk þar sem einum eða fleiri náttúrulegum þáttum hennar, til dæmis mjólkurfitu, væri skipt út fyrir aðra þætti, svo sem jurtafitu. Vísað var til þess að samkvæmt venjulegum málskilningi fæli það að skipta einhverju út í sér að eitthvað væri fjarlægt eða tekið í burtu og annað sett í staðinn. Það að skipta einu efni út fyrir annað væri því ekki það sama og að bæta efni til viðbótar því sem fyrir væri. Niðurstaða tollgæslustjóra um flokkun vörunnar undir þennan vörulið var talin í samræmi við almennar reglur um túlkun tollskrárinnar. Þá var því jafnframt hafnað að brotið hefði verið gegn meðalhófsreglu, jafnræðisreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar við meðferð málsins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, ekki aðeins fyrir tollflokkun þeirrar tilteknu vöru sem um er deilt í málinu heldur jafnframt fyrir flokkun og þar með tollun nánast allra unninna mjólkurvara sem framleiddar eru úr fleiri hráefnum en náttúrulegum þáttum mjólkur. Jafnframt hafi ágreiningurinn þýðingu fyrir öll alþjóðaviðskipti Íslands með vörur af þessu tagi. Þá hafi ekki áður reynt á sambærilegt úrlausnarefni fyrir dómstólum og niðurstaða Hæstaréttar yrði því fordæmisgefandi. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Það eitt að bæta jurtaolíu við vöru sem innihaldi mjólkurfitu leiði óumflýjanlega til þess að magn mjólkurfitu minnki og teljist því skipt út fyrir jurtaolíu. Byggir hann á því að túlkun sín sé til samræmis við fjölmörg fyrirliggjandi gögn. Þá telur leyfisbeiðandi að umfjöllun héraðsdóms og Landsréttar um málsástæður hans um að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar niðurstöðu úrskurðar tollgæslustjóra nr. 3/2021 sé verulega áfátt.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.