Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-19

Vátryggingarfélag Íslands hf. (Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)
gegn
A (Óskar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brunatrygging
  • Lögmannsþóknun
  • Málskostnaður
  • Sérfróður meðdómandi
  • Sönnun
  • Vátrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 23. febrúar 2024 leitar Vátryggingarfélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. janúar sama ár í máli nr. 668/2022: Vátryggingarfélag Íslands hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu brunabóta vegna bruna á húseign hans sem var tryggð hjá leyfisbeiðanda. Deildu aðilar um hvort leyfisbeiðanda hefði verið heimilt að draga frá brunabótum annars vegar kostnað vegna förgunar húseignarinnar miðað við að asbest hefði verið í henni og hins vegar verðmæti undirstöðu og frárennslislagna sem leyfisbeiðandi mat að hefðu verið óskemmdar eftir brunann. Gagnaðili krafðist jafnframt bóta vegna lögfræðikostnaðar sem hlaust af því að halda uppi kröfum gagnvart leyfisbeiðanda áður en til málshöfðunar kom.

4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að leyfisbeiðanda yrði gert að greiða gagnaðila 9.116.898 krónur ásamt dráttarvöxtum. Í dóminum var vísað til þess að engin greining hefði farið fram á því hvort asbest væri í húsinu, eins og áskilið væri í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 430/2007 um bann við notkun asbests á vinnustöðum, léki vafi á því hvort asbest væri til staðar við niðurrif eða aðra vinnu. Landsréttur tók fram að leyfisbeiðandi hefði átt frumkvæði að niðurrifi húseignarinnar fyrir hönd gagnaðila og þannig tekið á sig að gæta hagsmuna hans í kjölfar brunans. Komist var að þeirri niðurstöðu að sönnunarbyrði um hvort að asbest hefði verið í húseigninni yrði felld á leyfisbeiðanda sem hefði, gegn mótmælum gagnaðila, hvorki tekist sönnun þess að brunarústir hefðu verið asbest-mengaðar né gert gagnaðila grein fyrir því að brunarústunum yrði fargað sem slíkum, með tilheyrandi kostnaði. Staðfesti Landsréttur því niðurstöðu héraðsdóms um að ekki hefði verið heimilt að draga frá brunabótum kostnað samfara því að farga brunarústum sem asbest-menguðum. Að gættum sjónarmiðum um eðli brunatrygginga og skyldu leyfisbeiðanda var niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um að gagnaðila væri heldur ekki heimilt að draga frá bótum fjárhæð sem svaraði til andvirðis undirstaðna hússins og frárennslislagna. Þá var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að hafna kröfu um áfallinn lögmannskostnað staðfest.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að formi og efni, hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi byggir á því að mjög mikilvægt sé að fá niðurstöðu Hæstaréttar um hvort sönnunarkröfur til vátryggingarfélaga séu almennt meiri þegar um sé að ræða lögbundnar vátryggingar. Þá hafi sönnunarbyrði um hvort að tjón hafi orðið eða umfang þess aldrei fyrr verið snúið við með vísan til röksemda um eðli brunatrygginga sem skyldutrygginga og skyldna vátryggingarfélaga í tengslum við það eðli. Dómur Landsréttar sé þannig í andstöðu við meginreglur um sönnun og sönnunarbyrði og dómaframkvæmd.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.