Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-25

A (Fjölnir Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Læknir
  • Óhappatilvik
  • Sönnun
  • Málsástæða
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 7. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. febrúar 2024 í máli nr. 663/2022: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í skurðaðgerð á sjúkrahúsi í nóvember 2017 og við eftirfarandi meðferð á spítala.

4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila staðfest með vísan til forsendna hans. Héraðsdómur tók fram að ekki yrði séð að skortur á skráningu hefði leitt til þess að atvik þegar sýking kom upp eftir aðgerð leyfisbeiðanda hefði ekki verið nægilega upplýst. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á að starfsmenn sem gagnaðili bæri ábyrgð á hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi við þá meðferð leyfisbeiðanda sem um ræddi. Þá yrði ekki séð að meðferðin hefði verið í ósamræmi við ákvæði laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga eða önnur ákvæði sem leyfisbeiðandi vísaði til. Það væri þó eigi að síður ljóst að leyfisbeiðandi hefði fengið alvarlega sýkingu í kjölfar skurðaraðgerðar sem hann undirgekkst og orðið fyrir líkamstjóni af þeim sökum. Talið var að óhappatilvik hefði valdið þessari sýkingu sem meta yrði fylgikvilla aðgerðarinnar. Hefði leyfisbeiðandi þegar fengið greiddar hámarksbætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun á skráningar- og tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsmanna í skilningi 1. mgr. 9. gr. og 10. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Einkum um það hvaða þýðingu vanræksla heilbrigðisstarfsmanna á því að tilkynna og skrá óvænt atvik hafi og í hvaða tilvikum sé rétt að varpa sönnunarbyrði yfir á meintan tjónvald. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og vísar þar um einkum til þess að sönnunarmat dómsins hafi verið rangt.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.