Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-22

A (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
Sinfóníuhljómsveit Íslands (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður) og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Uppgjör
  • Örorkulífeyrir
  • Líkamstjón
  • Vextir
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 1. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja til réttarins dómi Landsréttar 2. febrúar sama ár í máli nr. 713/2022: A gegn Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort draga skuli frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns leyfisbeiðanda 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem hann hefur þegið frá Lífeyrissjóði […] , sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, hvort vextir fyrir 10. maí 2015 af kröfu leyfisbeiðanda gagnvart stefnda Sinfóníuhljómsveit Íslands séu fyrndir og um upphafstíma dráttarvaxta.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dómi Landsréttar var fallist á að 40% af reikuðu eingreiðsluvirði örorkulífeyris skyldi koma til frádráttar kröfu leyfisbeiðanda, enda yrði ekki annað ráðið af mati læknis á orkutapi hans en hann fengi greiddan örorkulífeyri vegna sama slyss og bótakrafa hans væri reist á. Þá staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um að vextir af kröfu leyfisbeiðanda fyrir 10. maí 2015 væru fyrndir. Loks vísaði Landsréttur til þess að ekki væri unnt að miða upphafstíma dráttarvaxta við fyrra tímamark en þegar útreikningar um eingreiðsluvirði greiðslna til leyfisbeiðanda frá lífeyrissjóði hefðu verið lagðir fram.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að við úrlausn málsins lesi Landsréttur bersýnilega rangt úr gögnum málsins og beiti réttarreglum ranglega. Niðurstaðan feli í sér að verið sé að skerða slysabætur með alls óskyldum greiðslum sem hafi ekkert með slysið að gera. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða málsins hafi almenna þýðingu um ráðstöfunarrétt tjónþola á greiðslum frá þriðja manni upp í skaðabótakröfu sína á hendur tjónvaldi. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði afar mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að þau fjölmörgu atriði sem leyfisbeiðandi nefnir í beiðni sinni bendi til að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð að fallist verði á beiðnina eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.