Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-21

Brú II Ísland hf. (Viðar Lúðvíksson lögmaður)
gegn
Bru II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR (Eiríkur S. Svavarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Félagsslit
  • Lúganósamningurinn
  • Frestun máls
  • Varnarþing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 26. febrúar 2024 leitar Brú II Ísland hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í máli nr. 861/2023: Brú II Ísland hf. gegn Bru II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fresta skuli meðferð máls í héraði meðan dómsmál milli sömu aðila er til meðferðar fyrir dómstóli í Lúxemborg.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þess efnis að máli um viðurkenningu kröfu gagnaðila við slit á leyfisbeiðanda yrði frestað þar til meðferð máls sömu aðila fyrir héraðsdómi í Lúxemborg yrði lokið. Leyfisbeiðandi er í slitum samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög og hafði gagnaðili lýst kröfu við slitin, en ágreiningur er um kröfuna. Í úrskurði Landsréttar kom fram að mál aðila varðaði ekki slit sóknaraðila heldur tilvist kröfu sem lýst var af því tilefni. Því yrði ekki fallist á að vegna fyrirmæla 2. töluliðar 22. gr. Lúganósamnings um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 7/2011, bæri að hafna kröfu gagnaðila um frestun málsins. Þá kæmi fram í 1. mgr. 23. gr. samningsins að hafi aðilar samið um að dómstóll í ríki, sem bundið er af samningnum, skuli hafa dómsvald um ágreining sem þegar er risinn eða kann að rísa í tengslum við lögskipti þeirra, skuli sá dómstóll hafa dómsvald. Þar sem í kaupsamningi aðila væri slíkt ákvæði um að mál skyldu rekin fyrir héraðsdómi í Lúxemborg var ekki talið að annað lægi fyrir en málið þar hefði verið réttilega höfðað fyrir þeim dómstól.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu hafi augljóst fordæmisgildi þar sem íslenskir dómstólar hafi ekki áður fjallað um inntak og skýringu skylduvarnarþingsákvæða 22. gr. Lúganósamningsins. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga um að málið varði ekki slit leyfisbeiðanda og ákvæðið eigi því ekki við. Þá byggir hann á því að skilyrði 2. málsliðar 3. mgr. 102 gr. laga nr. 91/1991, um að fresta megi máli hafi annað einkamál verið höfðað út af efni sem varði úrslit þess verulega, sé ekki uppfyllt í málinu. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar gangi gegn grundvallarreglum um málshraða við meðferð dómsmáls.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 3. málslið 3. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.