Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-17

Stilling hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
þrotabúi Fashion Group ehf. (Svanhvít Axelsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verksamningur
  • Aukaverk
  • Skuldajöfnuður
  • Tafabætur
  • Tómlæti
  • Málsástæða
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 15. febrúar 2024 leitar Stilling hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 2. febrúar sama ár í máli nr. 308/2021: Stilling hf. gegn þrotabúi Fashion Group ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu er tekist á um kröfu gagnaðila um greiðslu eftirstöðva samningsfjárhæðar úr hendi leyfisbeiðanda samkvæmt verksamningi milli þeirra auk greiðslu sem gagnaðili telur sig eiga rétt á fyrir ýmis auka- og viðbótarverk.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 16.368.603 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 12.191.069 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Í dómi Landsréttar kom fram að af hálfu leyfisbeiðanda hefði ekki verið gerð grein fyrir því til hvaða tafa krafa hans tæki, það er á hvaða tímabili þær tafir hefðu orðið sem gagnaðili bæri ábyrgð á. Þá væri fjárhæð kröfunnar ekki sundurliðuð á grundvelli slíkrar útlistunar. Til þess væri að líta að leyfisbeiðanda hefði borið að tilkynna gagnaðila án tafar þegar hann teldi fram komið tilefni til að krefja gagnaðila um tafabætur. Krafa leyfisbeiðanda þar að lútandi væri fallin niður fyrir tómlæti. Honum var gert að greiða gagnaðila tilgreinda fjárhæð sem nam eftirstöðvum endurgjalds samkvæmt verksamningi. Leyfisbeiðandi var hins vegar sýknaður af kröfu um greiðslu fyrir tiltekið aukaverk sem honum hafði verið gert að greiða fyrir með dómi héraðsdóms. Landsréttur féllst á að leyfisbeiðandi gæti nýtt til skuldajafnaðar kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar samkvæmt fimm reikningum, þar sem um hefði verið að ræða verk sem gagnaðila hefði borið að framkvæma.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um inntak 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 hvað varðar skýra og glögga kröfugerð og málatilbúnað en engin gögn hafi legið til grundvallar niðurstöðu Landsréttar um fjárhæð kröfunnar. Þá hafi málið gildi um túlkun á því hvenær gagnaðili teljist hafa viðurkennt fjárhæð kröfu. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar í andstöðu við lög nr. 91/1991 og dómaframkvæmd Hæsta-réttar og telur að vísa hefði átt málinu frá héraðsdómi. Enn fremur telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar um meint tómlæti bersýnilega ranga.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.