Mál nr. 2018-240

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Óttar Pálsson hrl.), Y (Helgi Birgisson hrl.) og Z (Gestur Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Umboðssvik.
  • Fjármálafyrirtæki.
  • Þóknun .
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.

Með beiðni 20. nóvember 2018 leitar ríkissaksóknari af hálfu ákæruvaldsins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. október sama ár í málinu nr. 32/2018: Ákæruvaldið gegn X, Y og Z, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærðu X, Y og Z telja ekki efni til að fallast á beiðnina. Þá krefjast ákærðu X og Y þess að Hæstiréttur ákveði lögmönnum þeirra þóknun fyrir að gæta sem verjendur hagsmuna þeirra vegna beiðninnar.

Í málinu voru ákærðu X og Y bornir sökum um að hafa í störfum sínum hjá A hf. brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að fara út fyrir heimildir sínar þegar þeir hafi 8. eða 9. júlí 2008 samþykkt í sameiningu milli funda áhættunefndar bankans, sem þeir hafi meðal annarra átt sæti í, að veita B ehf. lán að fjárhæð 6.000.000.000 krónur án fullnægjandi trygginga, sem hafi verið andstætt reglum bankans um lánveitingar og markaðsáhættu. Hafi lánið meðal annars verið veitt til kaupa B ehf., sem hafi verið í eigu C hf., á 25,7% hlut þess síðarnefnda í D Ltd. Til tryggingar hafi A hf. fengið að veði hlutina í D Ltd. og kauprétt á öllum hlutum í B ehf. fyrir eina krónu, auk þess sem C hf. hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir 1.750.000.000 krónum af fjárhæð lánsins. Ákærði Z var borinn sökum aðallega um hlutdeild í fyrrgreindu broti, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, til vara hylmingu, sbr. 254. gr. sömu laga, en að því frágengnu peningaþvætti, sem varði við 264. gr. laganna.

Í héraði voru ákærðu X og Y sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök í ákæru, en ákærði Z sýknaður. Í Landsrétti voru þeir á hinn bóginn allir sýknaðir. Vísaði Landsréttur til þess að ákærðu X og Y hafi samkvæmt útlánareglum A hf. verið í aðstöðu til að samþykkja lánið til B ehf. utan funda áhættunefndar og skuldbinda bankann með þeim hætti. Þá hafi ákæruvaldið ekki rennt stoðum undir það að með þeim hluta lánsfjárhæðarinnar til B ehf., sem ráðstafað hafi verið til greiðslu á skuldum C hf. við A hf., hafi fjártjónshætta bankans aukist frá því sem áður hafi verið svo nokkru næmi. Talið var að ákærðu X og Y hafi við ákvörðun um lánveitinguna verið með fullnægjandi gögn um mat á virði hlutanna í D Ltd. Þótti því ekki hafa verið sýnt fram á að þeim hafi hlotið að vera það ljóst eða látið sér það í léttu rúmi liggja að þeir væru að misnota aðstöðu sína þannig að jafn miklar líkur eða meiri líkur væru á því að fjártjón hlytist af ráðstöfun þeirra. Hafi réttmætar væntingar þeirra fremur staðið til þess að lánveitingin og tengdar ráðstafanir myndu hafa í för með sér að A hf. fengi tryggingu fyrir endurgreiðslu útlána sem hann hafi ekki áður notið. Taldi Landsréttur því ekki fullnægt þeim skilyrðum 249. gr. almennra hegningarlaga að ákærðu X og Y hafi við ákvörðun um lánveitinguna af ásetningi misnotað aðstöðu sína og valdið A hf. verulegri fjártjónshættu. Þá var ekki heldur fallist á að ákærði Z hafi með aðkomu sinni að lánveitingunni gerst sekur um brot gegn 254. gr. eða 264. gr. almennra hegningarlaga.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Vísar hann til þess að það hafi verulega almenna þýðingu að Hæstiréttur endurskoði beitingu Landsréttar á 249. gr. almennra hegningarlaga sem sé ekki í samræmi við niðurstöður Hæstaréttar í sambærilegum málum, auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni. Telur hann einkum að skilyrði samkvæmt reglum A hf. fyrir millifundasamþykki ákærðu X og Y hafi ekki verið uppfyllt og hafi virði hlutanna í D Ltd. jafnframt verið stórlega ofmetið samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Bendir leyfisbeiðandi á að jafnvel þótt virði hlutanna teldist hafa verið rétt metið sé ljóst að C hf. hafi fengið þriðjung lánsfjárhæðarinnar til frjálsrar ráðstöfunar og án fullnægjandi trygginga, þvert gegn lánareglum A hf.

Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að leyfisbeiðni lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.

Ekki er heimild í lögum nr. 88/2008 til að ákveða lögmönnum ákærðu þóknun úr ríkissjóði fyrir störf þeirra við gerð athugasemda vegna beiðni ákæruvaldsins um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.