Mál nr. 32366/2021

A og B (Sigurður Jónsson hrl.) gegn C, D, E, F, G, H og I (Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Faðerni.
  • Börn.
  • Aðild.
  • Stjórnarskrá.
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 25. febrúar 2021 leita A og B eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 817/2019: C, D, E, F, G, H og I gegn A og B, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um viðurkenningu á því að J hafi verið líffræðilegur faðir K, föður þeirra. Faðerni K var vefengt að kröfu móður hans árið 2017 og fyrir liggur mannerfðafræðileg rannsókn um að meira en 99% líkur séu á að J hafi verið faðir hans. Gagnaðilar eru systkini og systkinabörn  J. Þegar málið var höfðað voru K, móðir hans og J öll látin.

Með héraðsdómi var viðurkennt að J hefði verið faðir K. Vísað var til þess að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 gæti stefnandi faðernismáls verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem teldi sig föður barns enda hefði barn ekki verið getið með gjafasæði. Leyfisbeiðendur væru börn þess barns sem þetta faðernismál varðaði og uppfylltu því ekki skilyrði ákvæðisins. Hins vegar var það mat dómsins að engin málefnaleg rök lægju til þess að neita leyfisbeiðendum um aðgang að dómstólum til að fá staðfestingu á faðerni föður þeirra enda hefði slík viðurkenning þýðingu fyrir réttarstöðu þeirra. Því var talið, með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 18. desember 2000 í máli nr. 419/2000, að ekki yrði séð að sú takmörkun á aðgengi leyfisbeiðenda að dómstólum sem fælist í 1. mgr. 10. gr. barnalaga gæti talist, eins og hér stæði á, byggð á málefnalegum forsendum. Það hlyti að vera megintilgangur reglna um feðrun barna að faðerni væri skráð og enn frekar að það væri rétt skráð en hvorugu væri til að dreifa um K föður leyfisbeiðenda. Var því talið með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar að ákvæði 1. mgr. 10. gr. barnalaga gæti ekki með réttu staðið því í vegi að leyfisbeiðendur fengju efnislega úrlausn réttinda sinna í málinu.

Í dómi Landsréttar var forsaga aðildarreglna í barnsfaðernismálum rakin og meðal annars þær breytingar sem urðu eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 419/2000 þar sem manni sem taldi sig föður barns var játuð aðild að faðernismáli. Hefði sú breyting fyrst og fremst verið rökstudd með vísan til beinna hagsmuna barns af því að vera rétt feðrað og rétt þess til að njóta umgengni og samvista við föður. Vísaði Landsréttur til þess að leyfisbeiðendur hefðu af því hagsmuni að fá staðfestingu á því að J væri faðir K  þar sem dómur þar um gæti skotið stoðum undir tilkall þeirra til arfs eftir hann. Hins vegar væru þeir aðilar sem málið hverfðist um látnir og stæðu málsaðilar hver öðrum fjær en vera myndi um föður og ætlað barn hans. Því var talið að hagsmunir leyfisbeiðenda af því að fá faðerni föður síns viðurkennt væru ekki sambærilegir hagsmunum þeim sem uppi voru í fyrrgreindum dómi réttarins.  Með vísan til þess og þeirra sjónarmiða og hagsmuna sem aðildarreglur í faðernismálum byggðust á var ekki talið að leyfisbeiðendur hefðu sýnt fram á að haldbær rök stæðu til þess að óbreyttum lögum að unnt væri að fallast á kröfu þeirra um viðurkenningu á því að J hefði verið faðir K. Gagnaðilar voru því sýknaðir af kröfu leyfisbeiðenda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða málsins varði þær miklu. Þær hafi ríka hagsmuni af því að ætterni þeirra sé rétt skráð og engum vafa sé undirorpið að J hafi verið faðir K föður þeirra. Einnig séu hagsmunir þeirra fjárhagslegir en dánarbú J sé undir opinberum skiptum og eignir til skipta eftir hann um 18 milljónir króna og ættu þær að vera einkaerfingjar afa síns. Fráleitt sé að þær hafi ekki hagsmuni af úrslausn málsins og að þær geti af þeim sökum ekki nýtt sér hina almennu málshöfðunarheimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, eins og Landsréttur virðist byggja á með vísan til 2. mgr. 16. gr. þeirra laga. Einnig telja leyfisbeiðendur að málið hafi mikla almenna þýðingu enda sé það mikilvægt fyrir alla Íslendinga að ætterni þeirra sé rétt skráð og jafnframt að ákvæði settra laga um faðerni einstaklinga standi því ekki í vegi að faðerni verði rétt skráð. Að lokum telja leyfisbeiðendur að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng og að í henni hafi í raun falist gagnályktun frá 10. gr. barnalaga.

Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um aðildarreglu 10. gr. barnalaga og hvort hún fari að þessu leyti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til að bera mál undir dómstóla. Beiðnin er því tekin til greina.