Mál nr. 2020-185

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Guðnýju Hrefnu Leifsdóttur (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Virðisaukaskattur.
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 9. júní 2020 leitar Guðný Hrefna Leifsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. maí sama ár í málinu nr. 814/2018: Ákæruvaldið gegn Guðnýju Hrefnu Leifsdóttur, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi Aukaafls ehf. látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma ásamt opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins. Leyfisbeiðandi var ásamt fyrrverandi sambýlismanni sínum sakfelld í héraði fyrir framangreind brot. Fram kom að sambýlismaðurinn var daglegur stjórnandi og varastjórnarmaður umrædds félags. Fyrir dómi byggði leyfisbeiðandi einkum á því að hún hefði engin afskipti haft af rekstri félagsins heldur hefði skráning hennar hjá félaginu verið að beiðni sambýlismanns hennar.

            Í dómi Landsréttar var vísað til þess að sannað væri að leyfisbeiðandi, sem gegndi launuðu skrifstofustarfi hjá félaginu, hefði meðal annars komið að fjármálum þess og skattskilum. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hún talin bera refsiábyrgð. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í átta mánuði en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Auk þess var hún dæmd til að greiða nánar tilgreinda sekt.

Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar hvað sakfellingu varðar sé bersýnilega rangur að efni til enda hafi meirihluti dómsins ekki tekið tillit til þess að annar aðili hafi gengist við ákæruefni og viðurkennt að hafa einn farið með daglega stjórn fyrrgreinds félags og borið alla ábyrgð á fjármálum þess. Leyfisbeiðandi telur að ekki hafi verið færð fram lögfull sönnun þess að hún hafi borið ábyrgð á daglegum rekstri skattaðila meðal annars um það hvaða skuldir væru greiddar umfram aðrar.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málsliður 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.