Mál nr. 2020-170

Sigurður Friðriksson (Einar Þór Sverrisson lögmaður) gegn Dekkjavinum ehf. (Lúðvík Bergvinsson hdl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Lausafjárkaup.
  • Lánssamningur.
  • Kröfugerð.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 16. júní 2020 leitar Sigurður Friðriksson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. maí 2020 í málinu nr. 690/2019: Dekkjavinir ehf. gegn Sigurði Friðrikssyni og Bílastofunni ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dekkjavinir ehf. leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að uppgjöri aðila vegna kaupa leyfisbeiðanda og félags í hans eigu á dekkjum gagnaðila. Aðilar höfðu gert með sér lánssamning í tengslum við kaupin þar sem gagnaðili lánaði leyfisbeiðanda fjármuni til kaupa á dekkjunum. Krafa gagnaðila var reist á því að leyfisbeiðandi og félag í hans eigu hefðu skuldbundið sig til þess að kaupa tiltekinn fjölda af dekkjum sem ekki hefði síðan verið greitt fyrir að fullu. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda á grundvelli þess að gagnaðila hefði ekki tekist að sanna að hann eða félag í eigu hans hefðu pantað þau dekk sem krafan byggðist á. Þá hefði þegar verið greitt fyrir dekkin sem sannað væri að hefðu verið pöntuð. Landsréttur taldi aftur á móti að samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi hefði gagnaðili lánað leyfisbeiðanda tiltekna fjárhæð sem notuð hefði verið til að greiða innborgun vegna kaupa á dekkjunum. Hefði leyfisbeiðandi ekki lagt fram gögn um að lánið hefði verið greitt og var hann því dæmdur til að greiða gagnaðila umrædda fjárhæð ásamt vöxtum. Þá var félag í eigu leyfisbeiðanda dæmt til að greiða fyrir dekk sem það hefði pantað og fengið afhent á nánar tilgreindu tímabili.

Leyfisbeiðandi byggir á því að fyrrnefndur dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig hafi Landsréttur dæmt leyfisbeiðanda sjálfstætt til þess að greiða tiltekna fjárhæð ásamt vöxtum á grundvelli lánssamningsins, án þess að gerð hefði verið sjálfstæð krafa um það af hálfu gagnaðila eða tilgreint nánar fjöldi dekkja sem stóð að baki fjárhæðinni. Með niðurstöðu Landsréttar hafi málsgrundvellinum því verið raskað enda hafi málatilbúnaður gagnaðila hvorki byggt á þessu í héraði né fyrir Landsrétti. Niðurstaða Landsréttar sé því í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

Að virtum gögnum málsins verður talið að á dómi Landsréttar kunni að vera þeir ágallar að rétt er að samþykkja beiðni um áfrýjun á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðnin samþykkt.