Mál nr. 2020-197

A (Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður) gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Börn.
  • Forsjársvipting.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson.

Með beiðni 7. júlí 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. júní sama ár í málinu nr. 145/2020: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að leyfisbeiðandi verði svipt forsjá sonar síns á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur féllst á að skilyrði greinarinnar væru uppfyllt og tók til greina fyrrnefnda kröfu gagnaðila. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.

Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína með vísan til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um það hvort nauðsynlegt sé að afla nýs forsjárhæfnimats við meðferð forsjársviptingarmála. Niðurstaða um þetta atriði hafi verulegt fordæmisgildi um túlkun á þýðingu mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð Landsréttar hafi verið stórkostlega ábótavant þar sem forsjárhæfni leyfisbeiðanda hafi ekki verið metin og vilji barnsins ekki kannaður fyrr en eftir að málinu var áfrýjað til Landsréttar. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Verður ekki séð að málsmeðferðinni hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. niðurlag sömu málsgreinar. Í því tilliti er þess að gæta að leyfisbeiðandi var ekki til samvinnu um að undirgangast forsjárhæfnismat í aðdraganda þess að málið var höfðað í héraði, þótt hún hefði fallist á það 31. október 2018 og ítrekað verið leitað eftir samvinnu við hana af matsmanni frá desember sama ár til loka ágúst 2019. Aftur á móti lágu fyrir við dómsmeðferðina gögn um afskipti barnaverndaryfirvalda og vímuefnavanda leyfisbeiðanda. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.