Mál nr. 32361/2021

Læknafélag Íslands (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn J.H. vinnuvélum ehf. (Björn Jóhannesson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Verksamningur.
  • Sönnun.
  • Sönnunarbyrði.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 12. mars 2021 leitar Læknafélag Íslands eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. febrúar sama ár í málinu nr. 478/2019: J.H. vinnuvélar ehf. gegn Læknafélagi Íslands á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu þriggja reikninga samtals að fjárhæð 1.675.212 krónur vegna vinnu aðallega við snjómokstur. Í málinu deila aðilar um hvort samningur hafi komist á milli leyfisbeiðanda og orlofssjóðs gagnaðila um snjómokstur að þremur orlofshúsum sjóðsins í Brekkuskógi á tímabilinu desember 2014 til apríl 2015.

Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila. Til stuðnings því var meðal annars vísað til þess að enginn skriflegur samningur hefði legið fyrir um snjómokstur gagnaðila fyrir leyfisbeiðanda og að gagnaðili hefði ekki sýnt fram á að leyfisbeiðandi hefði óskað eftir slíkri þjónustu í umrædd skipti. Í fjölmörgum tilvikum hefði verið um að ræða mokstur þegar hús leyfisbeiðanda hefðu ekki verið í útleigu og talið afar ósennilegt að leyfisbeiðandi hefði óskað eftir mokstri í slíkum tilvikum. Í dómi Landsréttar var á hinn bóginn talið að samningur hefði komist á um að gagnaðili annaðist snjómokstur fyrir leyfisbeiðanda í desember 2014 og janúar 2015, í þeim tilvikum sem einhver var að koma í húsin, fyrir utan útkall 29. janúar 2015. Einnig var talið að samningur hefði komist á um snjómokstur 19. febrúar og 1. apríl 2015. Ekki var fallist á með leyfisbeiðanda að rétt hefði verið að líta svo á að sú þjónusta hefði verið innifalin í viðhaldsgjaldi samkvæmt lóðarleigusamningum fyrir orlofshúsin eða að gagnaðili hefði fallið frá rétti sínum til að krefjast greiðslu fyrir snjómokstur. Þá var ekki talið sýnt fram á að það verð sem gagnaðili krafðist fyrir snjómoksturinn og hálkuvörn hefði verið ósanngjarnt eða að gagnaðili hefði ekki notað hagkvæmustu tæki við snjómoksturinn. Loks var því hafnað að krafa leyfisbeiðanda hefði verið niður fallin fyrir tómlæti. Samkvæmt þessu var leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila 1.259.440 krónur með dráttarvöxtum.

 Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann til þess að gagnaðili hafi lofað að annast snjómokstur stofnbrauta án endurgjalds og að það loforð hafi fyrirsvarsmaður gagnaðila gefið lóðarleiguhöfum við gerð lóðarleigusamninga. Hann hefði endurgjaldslaust annast snjómokstur stofnbrauta á svæðinu á árinu 2007 til og með nóvember 2014 fyrir alla orlofshúsaeigendur sem leigt hefðu land undir hús sín. Það hljóti að vera eðlilegt og sjálfsagt að þjónustuaðili sem aldrei hafi innheimt gjald fyrir þjónustu sína geri þjónustuþegum aðvart áður en hann byrji á að innheimta gjald fyrir þjónustuna en samningur þess efnis hefði aldrei komist á. Þá telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi horft fram hjá tveimur mikilvægum staðreyndum varðandi þá málsástæðu hans að verð gagnaðila hafi verið of hátt. Annars vegar hafi leyfisbeiðandi lagt fram gögn um hvaða þóknun tíðkaðist fyrir snjómokstur á öðrum orlofssvæðum þar sem orlofssjóður leyfisbeiðanda ætti orlofshús og sú þóknun væri allt önnur og miklu lægri en það endurgjald sem gagnaðili krefjist. Hins vegar að gagnaðili innheimti hjá engum öðrum lóðarleigutaka á svæðinu gjald fyrir að moka snjó á stofnbrautum. Þá telur leyfisbeiðandi að gagnaðili hafi sýnt af sér tómlæti með því að höfða ekki mál fyrr en örfáum vikum áður en fjögur ár voru liðin frá útgáfu fyrsta reikningsins. Einnig telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi bæði verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.