Mál nr. 2021-74

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn Þorvaldi Árna Þorvaldssyni (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Ölvunarakstur.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 24. febrúar 2021 leitar Þorvaldur Árni Þorvaldsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. janúar sama ár í málinu nr. 645/2019: Ákæruvaldið gegn Þorvaldi Árna Þorvaldssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Að virtum sakaferli leyfisbeiðanda og með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hans ákveðin fangelsi í 60 daga. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að málið hafi almenna þýðingu fyrir framkvæmd ölvunarakstursmála í landinu. Verði dómur Landsréttar lagður til grundvallar sé fallist á að framkvæmd lögreglu á Norðurlandi eystra á rannsókn vegna ölvunaraksturs nægi til sakfellingar þegar sama framkvæmd myndi ekki leiða til útgáfu ákæru á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún væri ófullnægjandi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Vísar hann til þess að refsing ákærða í málinu hafi verið hegningarauki við dóm Héraðsdóms Suðurlands 11. desember 2017 en endurupptökunefnd hefði fallist á að það yrði endurupptekið og sé málið til meðferðar fyrir Héraðsdómi Suðurlands en nýr dómur hafi enn ekki verið kveðinn upp. Hegningarauki hafi því verið dæmdur við dóm sem sé undir endurupptöku. Þá telur hann ákvörðun refsingar vera ranga miðað við fordæmi.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.