<span> </span> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; text-align: center; line-height: 150%; text-indent: 1cm; vertical-align: baseline; tab-stops: 6.0cm 184.3pt 8.0cm; mso-layout-grid-align: none; punctuation-wrap: simple;"><strong style="mso-bidi-font-weight: normal;"><span style="color: black; line-height: 150%; font-size: 12pt; mso-bidi-font-size: 10.0pt; mso-fareast-font-family: 'Times New Roman';">Ákvörðun Hæstaréttar</span></strong></p> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; tab-stops: 35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;">Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.</p> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; tab-stops: 35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;">Með beiðni 18. ágúst 2020 leitar Ágúst Alfreð Snæbjörnsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. júní sama ár í málinu nr. 24/2019: Ákæruvaldið gegn X og Ágústi Alfreð Snæbjörnssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómur Landsréttar var birtur leyfisbeiðanda 24. júlí 2020. <span style="mso-spacerun: yes;">&nbsp;</span>Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.</p> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; tab-stops: 35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;">Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Hamarsfells byggingafélags ehf. látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins. Einnig var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem framkvæmdastjóri útibús Adakris UAB á Íslandi látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins. Þá var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir skilasvik, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 250 gr. almennra hegningarlaga með því að hafa gefið tilmæli sem framkvæmdastjóri Adakris UAB til starfsmanns Reykjavíkurborgar um greiðslu vegna verksamninga samtals að fjárhæð 50.105.000 krónur inn á bankareikning félagsins þrátt fyrir að hafa verið kunnugt um að greiðslurnar væru veðsettar MP banka hf.</p> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; tab-stops: 35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;">Í dómi Landsréttar var vísað til þess að leyfisbeiðandi hefði í krafti stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri Hamarsfells ehf. tekið ákvarðanir um skattskil félagsins og borið ábyrgð á þeim brotum sem honum voru gefin að sök. Talið var ósannað að leyfisbeiðandi hefði gefið sérstök fyrirmæli um ráðstöfun greiðslna opinberra gjalda félagsins á því tímabili sem hann var framkvæmdastjóri. Jafnframt var talið að leyfisbeiðandi hefði í krafti stöðu sinnar borið raunverulega ábyrgð á rekstri útibús Adakris UAB það tímabil sem vísað var til í ákæru, fyrst í samræmi við opinbera skráningu og síðar sem daglegur stjórnandi. Þá var vísað til þess að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að tollstjóri hefði í öllum meginatriðum ráðstafað greiðslum inn á eldri skuldir samkvæmt fyrirmælum og í samræmi við reglur. Að lokum var vísað til þess að í málinu hefði legið fyrir skýr og ótvíræð yfirlýsing um að MP banki hf. ætti veð í almennum fjárkröfum á hendur framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar til tryggingar greiðslu skuldar Adakris UAB við MP banka hf. Talið var að leyfisbeiðanda hefði verið það kunnugt þótt hann hefði ekki ritað undir yfirlýsinguna með eigin hendi. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í tvö ár en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Auk þess var hann dæmdur til að greiða nánar tilgreinda sekt. Meðákærði var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins þar sem ekki var talið að hann hefði borið ábyrgð á skattskilum Hamarsfells ehf. á því tímabili sem lýst var í ákæru.</p> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; tab-stops: 35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;">Leyfisbeiðandi telur málið hafa víðtækt fordæmisgildi um það með hvaða hætti athafnir og aðgerðir ákærða geti haft áhrif við mat á saknæmi í málum er varða vangoldna vörsluskatta. Leyfisbeiðandi telur það skjóta skökku við að þær athafnir hans að greiða inn á vangoldin opinber gjöld félagsins hafi engin áhrif haft á mat á sök hans og að hann hefði hlotið sömu refsingu ef ekkert hefði verið greitt inn á vanskil félagsins. Vísar leyfisbeiðandi til þess að athafnir hans þegar hann hafði með höndum stjórn félagsins hafi eingöngu lotið að því að bæta úr vanskilum og draga úr tjóni ríkissjóðs. Telur leyfisbeiðandi að það samræmist ekki almennum refsiréttarsjónarmiðum að athafnir sem almennt leiði til refsileysis, hafi engin áhrif á réttarstöðu hans, fyrir þær einu sakir að hann hafi ekki haft fullnægjandi skilning á samspili fyrirmæla greiðanda um ráðstöfun innborgana og reglna nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda. Þá telur leyfisbeiðandi að í forsendum héraðsdóms og Landsréttar hafi ákvæði 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga verið ranglega skýrð og þar með sök ranglega felld á hann. Vísar leyfisbeiðandi til þess að með öllu hafi skort gögn um að Kvika banki, áður MP banki, hafi eignast réttindi yfir þeim fjármunum sem ákæran varðaði og að sönnunarbyrðinni hafi verið snúið við og leyfisbeiðanda gert að sanna sakleysi sitt þótt það hafi staðið ákæruvaldinu nær að sanna sök. Þá sé ekki unnt að ganga út frá því eins og Landsréttur hafi gert að ráðstöfun fjármunanna hafi falið í sér fjártjónshættu fyrir bankann enda hafi leyfisbeiðandi mátt vita að hann ætti fullnægjandi veð fyrir útistandandi lánum. </p> <p style="margin: 0cm 0cm 0pt; tab-stops: 35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;">Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.</p>