Mál nr. 2021-84

Eirberg ehf. (Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl.) gegn Baldvini Bjarnasyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Vinnusamningur.
  • Trúnaðarskylda.
  • Skaðabætur.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 19. mars 2021 leitar Eirberg ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. febrúar sama ár í málinu nr. 371/2019: Baldvin Bjarnason gegn Eirbergi ehf. og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna brota gagnaðila á starfs- og trúnaðarskyldum eftir að honum var sagt upp störfum hjá leyfisbeiðanda. Hann byggir á því að gagnaðili hafi á uppsagnarfresti hafið undirbúning að samkeppnisrekstri við sig með stofnun einkahlutafélagsins Titus og unnið að því að ná til sín viðskiptasamböndum við danska fyrirtækið V. Guldmann A/S sem honum hafi verið trúað fyrir að annast samskipti við í þágu leyfisbeiðanda. Með háttsemi sinni hafi gagnaðili brotið gegn ráðningarsamningi sínum við leyfisbeiðanda, skráðum og óskráðum réttarreglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi og þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Bótakrafa leyfisbeiðanda byggist meðal annars á matsgerð dómkvadds manns um tapaða framlegð leyfisbeiðanda af sölu á vörum V. Guldmann A/S og þjónustu við þær svo og óafturkræfan kostnað af kaupum á varahlutum og markaðssetningu á vörum fyrirtækisins.

Í dómi Landréttar var hvorki fallist á að gagnaðili hefði gerst brotlegur við ákvæði ráðningarsamnings né óskráðar trúnaðarskyldur sínar gagnvart leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi var ekki talinn hafa fært sönnur á að gagnaðili hefði nýtt sér atvinnuleyndarmál eða aðrar upplýsingar í andstöðu við 16. gr. c laga nr. 57/2005. Gagnaðili var því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skýringu reglna um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Hann vísar til þess að í málinu sé óumdeilt að gagnaðili hafi á uppsagnarfresti átt í samskiptum við viðskiptamann leyfisbeiðanda um samstarf þeirra í milli auk þess sem gagnaðili hafi stofnað félag sem síðan hóf samkeppnisrekstur við leyfisbeiðanda. Að mati leyfisbeiðanda felur dómur Landsréttar í sér að starfsmaður geti átt í samskiptum við viðskiptamann vinnuveitanda síns um að hefja samstarf í samkeppni við vinnuveitandann svo lengi sem hann taki samstarfið ekki formlega upp fyrr en að loknum uppsagnarfresti. Hann telur að við úrlausn málsins verði að líta til dóma Hæstaréttar 30. apríl 1998 í máli nr. 398/1997 og 16. nóvember 2001 í máli nr. 398/2001. Nauðsynlegt sé að Hæstiréttur kveði á um að hvaða marki starfsmanni sé heimilt að eiga í samskiptum við viðskiptamann vinnuveitanda síns um mögulegt samstarf og hvort honum sé heimilt að samþykkja slíkt samstarf þótt formlegur rekstur bíði þar til uppsagnarfrestur hans rennur út. Þá hafi ekki áður reynt á skaðabótaábyrgð fyrrum starfsmanns á tjóni vinnuveitanda vegna tapaðrar viðskiptavildar sem leiði af brotum á trúnaðarskyldu í vinnusambandi. Úrlausn málsins hafi almennt gildi um skýringu á ákvæðum ráðningarsamnings um bann við samkeppni og um skýringu reglna um viðskiptaleyndarmál samkvæmt 16. gr. c laga nr. 57/2005, sbr. nú 4. gr. laga nr. 131/2020 um viðskiptaleyndarmál. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar ekki í samræmi við beitingu ákvæðisins í dómi Hæstaréttar 5. nóvember 2009 í máli nr. 98/2009. Hann byggir beiðnina jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína þar sem háttsemi gagnaðila hafi leitt til þess að hann hafi misst eitt elsta og mikilvægasta viðskiptasamband sitt. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að það mat Landsréttar að hann hafi ekki sannað að gagnaðili hafi aðhafst nokkuð sem geti talist fela í sér brot á trúnaðarskyldu sé bersýnilega rangt og hafi leitt til rangrar niðurstöðu í málinu.

Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skýringu reglna um trúnaðarskyldur í vinnusambandi og eftir atvikum um önnur atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.