Mál nr. 2021-82

A (Eiríkur Gunnsteinsson hrl.) gegn dánarbúi B (Reynir Karlsson hrl.)
Lykilorð
  • Kæruleyfi.
  • Dánarbú.
  • Opinber skipti.
  • Fjárskipti.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 15. mars 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 2. mars 2021 í málinu nr. 727/2020: A gegn dánarbúi B, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að við skipti á varnaraðila verði viðurkenndur 100% eignarhlutur hans í söluandvirði fasteignarinnar að [...] en ella hlutdeild umfram 50% eignarhlut. Leyfisbeiðandi og B sem voru í sambúð, keyptu fasteignina með kaupsamningi 27. mars 2014 og voru skráð kaupendur eignarinnar að jöfnu. Elísabet lést 13. júlí 2016. Leyfisbeiðandi byggir kröfu sína á því að hann hafi alfarið fjármagnað kaup fasteignarinnar og nánast að öllu leyti séð um greiðslu af lánum og opinberum gjöldum vegna hennar. Í úrskurði héraðsdóms var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa fært sönnur á staðhæfingar sínar þannig að rétt væri að víkja þinglýstum heimildum til hliðar. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti óskaði leyfisbeiðandi eftir að leggja fram fjölda nýrra skjala. Í úrskurði Landsréttar var rakið að samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 giltu um meðferð kæru fyrir Landsrétti í málinu sömu reglur og í almennu einkamáli og að sá sem kærði dómsathöfn mætti styðja kæruna við ný sönnunargögn, sbr. 2. mgr. 145. gr. og 5. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna útilokunarreglu einkamálaréttarfars, sem feli meðal annars í sér að aðila beri að leggja fram sönnunargögn af sinni hálfu svo fljótt sem verða megi og í síðasta lagi áður en fresti til gagnaöflunar lýkur ellegar mál er tekið til dóms eða úrskurðar, sbr. 5. mgr. 101. gr. og 104. gr. laga nr. 91/1991, væri réttur aðila til að leggja fram ný gögn fyrir Landsrétti þó takmarkaður, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 15. september 2016 í máli nr. 511/2016. Þannig væri aðila að jafnaði óheimilt að leggja fram skjal sem hefði ekki verið lagt fyrir dóm við meðferð máls í héraði nema skjalið hefði þá ekki verið orðið til eða aðilinn ekki haft það undir höndum. Það sama ætti við um skjal sem orðið hefði til eftir málsmeðferðina í héraði ef afla hefði mátt þess meðan hún stóð yfir. Landsréttur tók fram að skjöl leyfisbeiðanda væru öll því marki brennd að hafa verið til eða að þeirra hefði mátt afla undir rekstri máls í héraði. Á þeim yrði því ekki byggt fyrir Landsrétti heldur úrskurðað í málinu eftir þeim gögnum sem lágu fyrir í héraði. Í úrskurði Landsréttar var kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkenndur yrði 100% eignarhlutur hans í söluandvirði fasteignarinnar hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms. Þá var staðfest krafa gagnaðila um að dánarbúið ætti 50% í söluandvirði fasteignarinnar.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Hann telur að Landsrétti hafi borið að ómerkja úrskurð héraðsdóms vegna ágalla á úrskurðarorði þar sem kveðið hafi verið á um viðurkenningu á eignarrétti í fasteign sem þegar hafi verið seld. Þá hafi ekki komið skýrt fram af hálfu gagnaðila við meðferð málsins í héraði að hann gerði kröfu um 50% hlutdeild í söluandvirði eignarinnar. Ekki hafi því verið á færi Landsréttar að lagfæra úrskurðarorð héraðsdóms. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi fordæmisgildi um inntak skyldu skiptastjóra til að senda héraðsdómi þau gögn sem varða ágreiningsefni sem beint er til dómstólsins, sbr. 1. og 2. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991, einkum við túlkun á útilokunarreglu einkamálaréttarfars. Leyfisbeiðandi telur að Landsréttur hafi ranglega hafnað framlagningu grundvallargagna málsins, sbr. 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 og dóm Hæstaréttar 10. maí 2016 í máli nr. 308/2016. Hann leggur áherslu á að útilokun sönnunargagna eigi ekki við ef gagnaðili hefur haft gögnin undir höndum.

Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann kveður málatilbúnað aðila fyrir héraðsdómi hafa lotið að hlutdeild í andvirði umræddrar fasteignar eins og komi fram í forsendum og niðurstöðu héraðsdóms. Þá vísar hann til úrskurðar Landsréttar þar sem ekki séu taldir þeir annmarkar á samningu úrskurðar héraðsdóms að tilefni sé til að ómerkja hann. Að því er varðar fordæmisgildi málsins vísar gagnaðili til þess að í kæru leyfisbeiðanda til Landsréttar hafi nýrra skjala hvorki verið getið né heldur hvað þau ættu að sanna líkt og áskilið sé í 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi gögnin ekki verið lögð fram þegar tilefni hafi verið til og það þrátt fyrir að leyfisbeiðandi hafi fengið sérstakan frest til gagnaöflunar fyrir héraðsdómi. Þá mótmælir gagnaðili því að hafa látið hjá líða að láta grundvallargögn fylgja með beiðni til héraðsdóms. Sá galli hafi verið á kröfulýsingu leyfisbeiðanda að meintar greiðslur hans hafi verið byggðar á excel-skjölum án þess að kvittanir eða yfirlit bankareikninga hafi fylgt. Með tölvubréfi skiptastjóra gagnaðila til lögmanns leyfisbeiðanda 13. febrúar 2020 hafi verið vakin sérstök athygli á þessu. Í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms 19. ágúst 2020 sé einnig vakin athygli á að gögn vanti til staðfestingar á greiðslum. Þrátt fyrir þetta hafi leyfisbeiðandi ekki nýtt rétt sinn til frekari skjalaframlagningar fyrir héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi leyfisbeiðandi fyrst freistað þess að leggja fram frekari gögn, meðal annars yfirlit bankareikninga. Um sé að ræða á annað hundrað blaðsíður sem gagnaðili hafi ekki séð fyrr. Stærstur hluti gagnanna séu ný gögn og framlagning þeirra myndi raska verulega grundvelli málsins. 

Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.