<span></span> <p class="MsoNormal" style="text-align:center;text-indent:1.0cm; line-height:150%;tab-stops:6.0cm 184.3pt 8.0cm;mso-layout-grid-align:none; punctuation-wrap:simple;text-autospace:none;vertical-align:baseline;"><strong style="mso-bidi-font-weight:normal;"><span lang="IS" style="font-size: 12pt; line-height: 150%; color: black;">Ákvörðun Hæstaréttar.</span></strong></p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:36.0pt;"><span lang="IS">Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. </span></p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:36.0pt;"><span lang="IS">Með beiðni 10. júlí 2019 leitar Eimskipafélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. júní sama ár í málinu nr. 416/2018: Eimskipafélag Íslands hf. gegn Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fjármálaeftirlitið og íslenska ríkið leggjast gegn beiðninni.</span></p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:36.0pt;"><span lang="IS">Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um ógildingu eða niðurfellingu ákvörðunar gagnaðilans Fjármálaeftirlitsins 8. mars 2017 þar sem byggt var á því að leyfisbeiðandi hafi brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa látið hjá líða að birta afkomutilkynningu á tilsettum tíma. Þá krefst leyfisbeiðandi endurgreiðslu eða lækkunar sektar að fjárhæð 50.000.000 krónur sem lögð var á hann með ákvörðuninni. Í meginatriðum snýr ágreiningur aðila að því hvort birtingarskyldar upplýsingar um bætta afkomu leyfisbeiðanda á fyrsta ársfjórðungi 2016 hafi orðið til fyrir birtingu árshlutareiknings 26. maí 2016. Með fyrrnefndum dómi staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu gagnaðila með vísan til þess að upplýsingar sem hafi gefið tilefni til afkomutilkynningar hafi legið fyrir 20. maí 2016 þegar fyrstu drög að árshlutauppgjöri höfðu verið gerð og hafi því ákvörðun gagnaðilans Fjármálaeftirlitsins ekki verið haldin annmörkum sem leitt gætu til ógildingar hennar. </span></p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:36.0pt;"><span lang="IS">Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi á sviði verðbréfaviðskipta en í því reyni á skýringu hugtaksins innherjaupplýsingar í skilningi 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007 og hvenær upplýsingaskylda samkvæmt 1. mgr. 122. gr. sömu laga verði virk. Auk þess reyni á heimild samkvæmt 4. mgr. 122. gr. laganna til að fresta birtingu innherjaupplýsinga. Þá byggir leyfisbeiðandi á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um fyrrgreind atriði. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni sína. </span></p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:36.0pt;"><span lang="IS">Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi um framangreind atriði. Á þeim grunni er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi tekin til greina.</span></p>