Mál nr. 2020-191

Ágúst Heimir Ólafsson (Andri Árnason hrl.) gegn D&T sf., Deloitte ehf. , Deloitte FAS ehf., Aðalsteini Þór Sigurðssyni, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Benóní Torfa Eggertssyni, Birnu Maríu Sigurðardóttur, Birni Inga Victorssyni, Guðna Björgvini Guðnasyni, Gunnari Þorvarðarsyni, Halldóri Arasyni, Haraldi Inga Birgissyni, Hilmari Alfreð Alfreðssyni, Hólmgrími Pétri Bjarnasyni, Jóhanni Geir Harðarsyni, Jónasi Gesti Jónssyni, Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur, Lúðvík Þráinssyni, Pálínu Árnadóttur, Páli Grétari Steingrímssyni, Ragnari Jóhanni Jónssyni, Sif Einarsdóttur, Signýju Magnúsdóttur, Sigurði Álfgeiri Sigurðarsyni, Sigurði Heiðari Steindórssyni, Sigurði Páli Haukssyni, Sigurði Pálma Sigurðssyni, Sunnu Dóru Einarsdóttur, Þorsteini Pétri Guðjónssyni (Ólafur Eiríksson hrl.), Birki Leóssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Knúti Þórhallssyni og Lárusi Finnbogasyni (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Endurskoðandi.
  • Uppsögn.
  • Ráðningarsamningur.
  • Skaðabætur.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 30. júní 2020 leitar Ágúst Heimir Ólafsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. júní sama ár í málinu nr. 243/2019: Ágúst Heimir Ólafsson gegn D&T sf., Deloitte ehf., Deloitte FAS ehf., Aðalsteini Þór Sigurðssyni, Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, Benóní Torfa Eggertssyni, Birnu Maríu Sigurðardóttur, Birni Inga Victorssyni, Einari Hafliða Einarssyni, Bjarna Þór Bjarnasyni, Birni Helga Arasyni, Guðna Björgvini Guðnasyni, Gunnari Þorvarðarsyni, Halldóri Arasyni, Haraldi Inga Birgissyni, Hilmari Alfreð Alfreðssyni, Hólmgrími Pétri Bjarnasyni, Jóhanni Geir Harðarsyni, Jóhanni Óskari Haraldssyni, Jónasi Gesti Jónssyni, Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur, Lúðvík Þráinssyni, Pálínu Árnadóttur, Páli Grétari Steingrímssyni, Ragnari Jóhanni Jónssyni, Sif Einarsdóttur, Signýju Magnúsdóttur, Sigurði Álfgeiri Sigurðarsyni, Sigurði Heiðari Steindórssyni, Sigurði Páli Haukssyni, Sigurði Pálma Sigurðssyni, Sunnu Dóru Einarsdóttur, Þorsteini Pétri Guðjónssyni, Birki Leóssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Knúti Þórhallssyni og Lárusi Finnbogasyni og Deloitte FAS ehf. gegn Ágústi Heimi Ólafssyni., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar, aðrir en Birkir Leósson, Guðmundur Kjartansson, Knútur Þórhallsson og Lárus Finnbogason, leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að starfslokum leyfisbeiðanda hjá gagnaðila Deloitte FAS ehf. og tengdum félögum og fjárhagslegu uppgjöri vegna þeirra. Leyfisbeiðandi reisir kröfur sínar á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt og að í henni hafi í reynd falist riftun á ráðningarsamningi hans með tilliti til þess að uppsagnarfresturinn hafi aðeins verið einn mánuður. Í fyrrgreindum dómi Landsréttar kom meðal annars fram að þegar litið væri til markmiðs siðareglna endurskoðenda og innri reglna gagnaðila Deloitte FAS ehf. og tengdra félaga og þeirrar ríku áherslu sem lögð væri á mikilvægi þess að fyrirbyggja hagsmunaárekstra og tryggja óhæði væru ekki efni til að hnekkja mati gagnaðila Deloitte FAS ehf. á brotum leyfisbeiðanda á starfsskyldum sínum. Þannig hefði leyfisbeiðanda, sem reyndum endurskoðanda og einum eigenda og stjórnenda gagnaðila Deloitte FAS ehf., mátt vera kunnugt um mikilvægi þess að fylgja umræddum reglum og um hugsanleg viðurlög við frávikum frá þeim. Dómurinn taldi að uppsögnin hefði því verið lögmæt með skemmri fresti en sex mánuðum. Í ljósi almennra reglna um hæfilegan uppsagnarfrest hefði þó ekki verið nægt tilefni til að segja honum upp með eins mánaðar fyrirvara. Dómurinn taldi því að leyfisbeiðandi ætti rétt á skaðabótum vegna tapaðra launatekna í tvo mánuði til viðbótar.

Í dómi Landsréttar var aftur á móti ekki fallist á að uppsögn leyfisbeiðanda hefði falið í sér ólögmæta meingerð og var því sýknað af kröfu hans um miskabætur. Dómurinn hafnaði jafnframt kröfu leyfisbeiðanda um að við innlausn eignarhluta hans í gagnaðila D&T sf. yrði beitt annarri reikningsaðferð við ákvörðun á útgönguverði en þeirri sem getið hefði verið um í samkomulagi starfsmanna félagsins. Einnig var hafnað kröfu hans um viðurkenningu á rétti hans til hlutdeildar í hagnaði gagnaðila Deloitte ehf. vegna þess rekstrarárs þegar innlausn hluta hans í gagnaðila D&T sf. hefði átt sér stað.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi hann með aðgerðum gagnaðila verið sviptur starfi sínu og starfsframa án nægilegs tilefnis. Leyfisbeiðandi hafi auk þess sérstaklega mikilsverða hagsmuni af því að fá úrlausn um rétt sinn til arðs vegna þess rekstrarárs þegar innlausn hluta hans í gagnaðila D&T sf. átti sér stað. Þá hafi hann einnig mikilsverða hagsmuni af réttri niðurstöðu að því er varðar útreikning á verðmæti eignarhlutar hans í D&T sf. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að úrslit málsins hafi almennt gildi og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í málinu reyni á samspil ákvæða ráðningarsamnings og sameignarfélagssamnings um viðurlög við meintum brotum á starfsskyldum og útreikning á „verðmæti félags“ í skilningi laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Að mati leyfisbeiðanda gengur túlkun Landsréttar á ákvæðum sameignarfélagssamningsins mun lengra en leiði af almennum reglum vinnuréttar. Þá telur hann að rétt hefði verið að meta hlut hans í sameignarfélaginu eftir ákvæðum laga nr. 50/2007 og samkvæmt orðanna hljóðan í sameignarfélagssamningnum. Loks fái niðurstaða Landsréttar varðandi rétt leyfisbeiðanda til arðgreiðslu ekki staðist, hvorki með tilliti til almennra samningaréttarlegra viðhorfa né að teknu tilliti til almennra túlkunarreglna.

Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.