Mál nr. 2021-68

Ólafur Björnsson (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður) gegn íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Auðlegðarskattur.
  • Skattframtal.
  • Endurgreiðsla.
  • Endurálagningarheimild.
  • Frestur.
  • Andmælaréttur.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 4. mars 2021 leitar Ólafur Björnsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. febrúar sama ár í málinu nr. 710/2019: Ólafur Björnsson gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu á skatti sem hann innti af hendi í kjölfar endurákvörðunar álagningar auðlegðarskatts fyrir gjaldárið 2014. Vegna eignarhlutar síns í Dalsnesi ehf. taldi leyfisbeiðandi fram til auðlegðarskatts skattalega hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það hafði verið talið fram í skattframtali félagsins 2013. Með úrskurði ríkisskattstjóra árið 2016 var skattalegt eigið fé Dalsness ehf. í skattframtali félagsins árið 2013 endurákvarðað til hækkunar. Í framhaldi af því taldi ríkisskattstjóri þörf á að leiðrétta skattframtal leyfisbeiðanda til samræmis við þá breytingu. Með úrskurði ríkisskattstjóra árið 2018 var stofn leyfisbeiðanda til auðlegðarskatts hækkaður gjaldárið 2014 vegna hlutabréfaeignar hans í Dalsnesi ehf. í árslok 2012. Leyfisbeiðandi reisti endurgreiðslukröfu sína á því að fyrrnefndir úrskurðir ríkisskattstjóra hefðu verið ólögmætir og því hefði álagður skattur á grundvelli þeirra verið oftekinn í skilningi laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í málinu byggði leyfisbeiðandi meðal annars á því að frestur skattyfirvalda til endurákvörðunar um álagningu skattsins samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hefði verið liðinn og að óheimilt hefði verið að breyta framtali Dalsness ehf. vegna réttmætra væntinga sem félagið og hluthafar þess hefðu mátt hafa til þess að framtal félagsins væri rétt. Með héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Landsrétti, var talið að 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 gæti ekki átt við um heimild til endurákvörðunar álagningar auðlegðarskatts á leyfisbeiðanda þar sem fullnægjandi upplýsingar hefði hvorki verið að finna í framtali hans né í fylgigögnum með því. Vísað var til þess að skattframtal annars aðila, félagsins Dalsness ehf., sem skattyfirvöld hefðu móttekið, gæti ekki talist fylgigagn með framtali leyfisbeiðanda. Þá kom fram að ákvörðun um leiðréttingu á framtali Dalsness ehf. hefði verið staðfest með úrskurði yfirskattanefndar og máli félagsins sem höfðað hefði verið til að hnekkja þeirri ákvörðun hefði verið vísað frá dómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum þess. Úrskurðurinn hefði eingöngu tekið til félagsins og engu gæti breytt þótt hluthafar í því kynnu að hafa talið sig hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þar sem þeir hefðu ekki átt aðild að máli félagsins hjá stjórnvöldum. Því var talið að leyfisbeiðandi gæti ekki byggt rétt á því að hafa haft réttmætar væntingar til þess að framtal félagsins væri rétt og að því yrði ekki breytt. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi þar sem við úrlausn þess reyni á mörkin á milli 1. og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Þessi mörk hafi verulega almenna þýðingu fyrir skattframkvæmd og varði réttaröryggi allra skattgreiðenda miklu. Því sé nauðsynlegt að Hæstiréttur skeri úr um og skýri mörk þessara ákvæða þannig að beiting þeirra í réttarframkvæmd verði fyrirsjáanleg fyrir borgarana. Í málinu séu uppi álitaefni sem ekki hafi verið dæmt um þar sem handvömm skattyfirvalda í máli þriðja aðila valdi afleiddum breytingum á skattframtali skattgreiðanda án þess að hann hafi þar átt nokkra sök. Telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi einnig verulegt almennt gildi þar sem við úrlausn þess reyni á gildissvið og inntak óskráðrar meginreglu um andmælarétt í tilvikum þar sem stjórnsýslumál varði verulega fjárhagslega hagsmuni einstaklings sem ekki telst aðili þess í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það sé mikilvægt að fá afdráttarlaust fordæmi Hæstaréttar um það hvort skattgreiðandi skuli njóta andmælaréttar þegar skattyfirvöld breyti framtali þriðja aðila í þeim eina tilgangi að hækka skattstofn skattgreiðanda. Leyfisbeiðandi telur að slík málsmeðferð fái ekki staðist óskráðan andmælarétt í málum sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni einstaklinga. Þá fái hún ekki heldur staðist þær kröfur til vandaðrar málsmeðferðar sem leiði af 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu í málum sem varða endurákvörðun skatta. Einnig byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Það varði ekki aðeins þá fjárhagslegu hagsmuni sem af honum voru teknir með endurákvörðun og hækkun viðbótarauðlegðarskatts heldur jafnframt réttmætar væntingar hans og hagsmuni af því að njóta eigna sinna í friði eftir að framtalstímabili og álagningu á grundvelli framtals sé lokið. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé haldinn verulegum annmarka að formi til. Leyfisbeiðandi hafi byggt á því með skýrum hætti í héraðsdómsstefnu að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 hefðu átt við um frest skattyfirvalda til að endurákvarða opinber gjöld hans og að brotið hafi verið gegn óskráðum andmælarétti hans við meðferð málsins. Til þessara atriða hafi engin rökstudd afstaða verið tekin í forsendum héraðsdóms eins og áskilið sé í f-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Rökstuðningur dómsúrlausna sé þáttur í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt

gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Í því tilliti skal tekið fram að með héraðsdómi, sem Landsréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var leyst úr öllum málsástæðum leyfisbeiðanda með fullnægjandi hætti. Beiðninni er því hafnað.