Mál nr. 2020-182

Íslenska ríkið (Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður) gegn A (Auður Björg Jónsdóttir hrl.) og B (Baldvin Hafsteinsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Útlendingur.
  • Brottvísun úr landi.
  • Stjórnvaldsákvörðun.
  • Rannsóknarregla.
  • Stjórnarskrá.
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu.
  • Börn.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 26. júní 2020 leitar íslenska ríkið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. maí sama ár í málinu nr. 632/2019: A og B gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila A um að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014, en með henni var honum vísað á brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma. Einnig krefst hann þess að felldur verður úr gildi úrskurður kærunefndar útlendingamála 16. mars 2017 þar sem ákvörðunin var staðfest og endurkomubann ákveðið 20 ár. Fyrrgreind ákvörðun var tekin í kjölfar dóms Hæstaréttar 26. apríl 2012 í máli nr. 701/2011 þar sem gagnaðili A var sakfelldur fyrir manndráp. Héraðsdómur hafnaði kröfu gagnaðila A um ógildingu á fyrrnefndri ákvörðun og úrskurði en stytti endurkomubann hans í 10 ár. Í fyrrgreindum dómi Landsréttur var aftur á móti komist að gagnstæðri niðurstöðu og krafa hans tekin til greina.

Ágreiningur aðila snýr einkum að því hvort skilyrðum b. liðar 1. mgr. 20. gr. b laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. b. lið 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga fyrir brottvísun hefði verið fullnægt og hvort takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 96/2002, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 80/2016 hefðu átt við. Í dómi Landsréttar kom fram að heimild til að vísa útlendingi úr landi samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum bæri að skýra með hliðsjón af 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi fjölskyldu, en við þá skýringu bæri jafnframt að horfa til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sama efni og þeirra viðmiða sem hefðu mótast við skýringu ákvæðisins í dómaframkvæmd. Við mat á heimild til inngrips í friðhelgi fjölskyldu þyrfti að horfa til fjölmargra viðmiða, þar á meðal fjölskyldutengsla viðkomandi. Ljóst væri að ákvörðun um brottvísun gagnaðila A varðaði ekki eingöngu hagsmuni hans heldur einnig tveggja barna hans á Íslandi sem ættu sjálfstæðan rétt til að njóta umgengni við föður sinn. Að mati Landsréttar var talið sannað að gagnaðili A hefði notið umgengnisréttar við börn sín áður en hann fór í fangelsi andstætt því sem fyrrnefnd ákvörðun og úrskurður byggðu á. Þá taldi Landsréttur að engin lagaheimild væri fyrir að beina því til gagnaðila A að afla greinargerða frá mæðrum barna hans og láta hann í kjölfarið bera hallann af því að afla ekki upplýsinganna. Loks taldi Landsréttur að það leiddi af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að nauðsynlegt hefði verið að taka til sjálfstæðs mats tengsl gagnaðila A við börn sín með aðstoð sérfróðs manns, ef ekki hefði verið fyrir hendi nauðsynleg þekking á viðkomandi sviði. Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferðinni var fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar útlendingamála felld úr gildi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um heimildir leyfisbeiðanda til að tryggja öryggi ríkisins og vernd almannahagsmuna með brottvísun einstaklings, sem framið hafi alvarleg afbrot en hafi fjölskyldutengsl í landinu, samkvæmt b. lið 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016. Þá reyni í málinu á túlkun á réttinum til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem málið hafi jafnframt verulegt almennt gildi um beitingu og skýringu rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem í honum hafi meðal annars verið dregnar rangar ályktanir af úrskurði kærunefndar útlendingamála um þær upplýsingar sem hún byggði úrskurð sinn á. Þá telur leyfisbeiðandi að allra nauðsynlegra upplýsinga hefði verið aflað um málsatvik í því skyni að tryggja rétta efnislega ákvörðun samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.