<span> </span> <p style="tab-stops:35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;"><span lang="IS">Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.</span></p> <p style="tab-stops:35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;"><span lang="IS">Með beiðni 26. nóvember 2020 leitar ríkissaksóknari fyrir hönd ákæruvaldsins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. október sama ár í málinu nr. 610/2019: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði leggst gegn beiðninni.</span></p> <p style="tab-stops:35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;"><span lang="IS">Með framangreindum dómi Landsréttar var hnekkt niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A án hennar samþykkis og vilja, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, eftir að samræði hefði hafist með samþykki beggja aðila. Landsréttur taldi ekki sannað svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði haft ásetning til þess að eiga samræði og önnur kynferðismök við A með ofbeldi og ólögmætri nauðung eins og honum var gefið að sök í ákæru. Var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Þá var einkaréttarkröfu A vísað frá dómi.</span></p> <p style="tab-stops:35.4pt 6.0cm 184.3pt 8.0cm;"><span lang="IS">Ákæruvaldið telur að dómur Landsréttar sé rangur hvað varðar bæði form og efni enda sé í dómi Landsréttar litið fram hjá mikilsverðum atriðum varðandi ákæruefnið. Í dómi Landsréttar hafi hvorki verið fjallað um líklegar ástæður þess að A hafi strax í kjölfar kynmakanna verið í greinilegu áfalli né um þá áverka sem sáust við skoðun á henni strax eftir kynmökin og um þá staðreynd að tilvist áverkanna hafi verið í mun meira samræmi við framburð A en ákærða. Þá hafi heldur ekki verið vikið að framburði og vottorðum sálfræðings A sem hafði hana til meðferðar í kjölfar hins ætlaða kynferðisbrots. Loks hafi ekkert mat verið lagt á sönnunargildi framburðar A um hið ætlaða kynferðisbrot þrátt fyrir að fyrir liggi að hún hafi margsinnis greint með sama hætti frá atvikum máls.</span></p> <span lang="IS" style="font-family: 'Times New Roman',serif; font-size: 10pt;"> Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sýknu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.</span>