<span></span> <p class="MsoNormal" style="text-align:center;text-indent:1.0cm; line-height:150%;tab-stops:6.0cm 184.3pt 8.0cm;mso-layout-grid-align:none; punctuation-wrap:simple;text-autospace:none;vertical-align:baseline;"><strong><span style="font-size: 12pt; line-height: 150%;">Ákvörðun Hæstaréttar</span></strong></p> <p class="MsoBodyTextIndent">Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.</p> <p class="MsoBodyTextIndent">Með beiðni 3. febrúar 2021 sem barst ríkissaksóknara 17. sama mánaðar leitar Ragnar Valur Björgvinsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. janúar 2021 í málinu nr. 609/2019: Ákæruvaldið gegn Ragnari Vali Björgvinssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. </p> <p class="MsoBodyTextIndent">Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ekið bifreið í tvígang á brotaþola, ekið með hann á vélarhlífinni og tekið skarpa beygju svo að hann féll niður með vinstri hlið bifreiðarinnar með nánar tilgreindum afleiðingum. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola skaðabætur. </p> <p class="MsoBodyTextIndent">Fimm dögum fyrir flutning málsins fyrir Landsrétti óskaði verjandi leyfisbeiðanda eftir því að leggja fram ný gögn. Um var að ræða gögn í máli ákæruvaldsins gegn brotaþola, er lýtur að eignaspjöllum gagnvart eiginkonu leyfisbeiðanda, upptöku er leyfisbeiðandi kveður sýna brotaþola lemja með hamri í rúðu bifreiðar þeirra skömmu fyrir þann verknað sem ákært er fyrir og upptökur, myndir og gögn er lúta að ónæði og áreiti af hálfu brotaþola gagnvart fjölskyldu leyfisbeiðanda. Samkvæmt þingbók málsins hafnaði Landsréttur framlagningu gagnanna með vísan til 3. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 og þess að gögnin bæru ekki annað með sér en að þau hefðu verið tiltæk fyrir þann lokafrest til gagnaframlagningar sem ákvæðið mælti fyrir um. </p> <p class="MsoBodyTextIndent">Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að málið hafi almenna þýðingu þar sem í því reyni á rétt sakaðs manns til að halda uppi vörnum með því að leggja fram sönnunargögn hvenær sem er undir rekstri máls, sbr. 2. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008. Hann telur afstöðu Landsréttar til fyrrgreindrar gagnaframlagningar og ákvæði 3. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008, sem kveði á um að málsaðilar skuli afhenda Landsrétti ný gögn eigi síðar en einni viku fyrir flutning máls, brjóta í bága við þá grundvallarreglu sem fram komi í 2. mgr. 171. gr. laganna, 70. gr. stjórnarskrárinnar og b-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Leyfisbeiðandi telur mikilvægt að Hæstiréttur leggi skýrar línur um gildi 2. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 og að framlagning yfirlýsinga, gagna og mótmæla sé aldrei of seint fram komin. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Þannig hafi Landsréttur lagt rangt mat á sönnunargögn í málinu, þar á meðal myndbandsupptöku af atvikum og upplýsingar um langvarandi áreiti sem leyfisbeiðandi hafi mátt búa við af hálfu brotaþola, auk þess sem verulega hafi skort á nákvæmni við dómasamningu.</p> <p class="MsoBodyTextIndent">Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni og vísar til þess að samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 geti Landsréttur vikið frá þeim vikufresti sem mælt sé fyrir um í 1. málslið ákvæðisins þegar sérstaklega standi á, enda séu aðilar á það sáttir að ný gögn komi fram með skemmri fyrirvara. Landsréttur hafi ekki metið umrædd gögn nauðsynleg fyrir varnir leyfisbeiðanda þannig að þau yrðu lögð fram óháð frestinum. Þá hafi niðurstaða um sakfellingu leyfisbeiðanda ráðist af mati á sönnunargögnum þar á meðal munnlegum framburði sem ekki verði áfrýjað til endurskoðunar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.</p> <span style="font-size:10.0pt;font-family:'Times New Roman',serif;mso-fareast-font-family: Calibri;mso-fareast-theme-font:minor-latin;mso-ansi-language:IS;mso-fareast-language: EN-US;mso-bidi-language:AR-SA;"> Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.</span>