Mál nr. 2020-195

A, B og C (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) gegn D (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Kæruleyfi.
  • Dánarbússkipti.
  • Óskipt bú.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 1. júlí 2020 leita A, B og C eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 299/2020: A, B og C gegn D, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. D leggst gegn beiðninni.

Í málinu gerir gagnaðili þá kröfu fyrir héraðsdómi að við skipti á dánarbúi E, látins eiginmanns síns, yrði útlagðar til hennar tilteknar fasteignir búsins og lóð gegn greiðslu á því sem hún ætti ekki tilkall til af matsverði þeirra að arfi og búshluta. Gagnaðili fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir andlát eiginmanns síns 19. maí 2006 en leyfið féll niður þegar hún gekk í hjónaband að nýju 15. júlí 2014. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort langlífari maki, sem situr í óskiptu búi, njóti réttar til þess að leysa til sín einstakar eignir búsins, samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1991, sem tilkomnar eru eftir andlát hins skammlífari.

Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila. Taldi dómurinn að fyrirmæli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1991 miðuðu við að dánarbú hefði verið tekið til skipta og enga þýðingu hefði þótt þar væri meðal annars vísað til eigna hins látna í lifanda lífi. Með því að gagnaðili hefði setið í óskiptu búi eftir lát maka síns hefðu  eignirnar tekið ýmsum breytingum. hefðu þær þannig verið hluti af hinu óskipta búi þegar það var tekið til opinberra skipta 18. mars 2015 og varð útlagningarréttur gagnaðila samkvæmt fyrrgreindu ákvæði þá jafnframt virkur.

Leyfisbeiðendur byggja á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur enda hafi ekki í honum verið fjallað um þá málsástæðu leyfisbeiðenda að gagnaðili hefði með athöfnum sínum og athafnaleysi talist hafa annars vegar samþykkt sölumeðferð fasteignanna og hins vegar látið hjá líða að krefjast útlagningar eignanna við afgreiðslu skiptafundar um sölu og samþykki tilboða í umræddar eignir í andstöðu við f. lið 1. mgr. 114. gr., sbr. 4. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Þá telja leyfisbeiðendur að málið hafi verulegt almennt gildi enda sé ekki að finna dómafordæmi Hæstaréttar um kæruefnið, auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið fullnægi áskilnaði 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um mikilsverða almannahagsmuni eða fordæmisgildi. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.