Mál nr. 2019-79

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn Thomas Frederik Møller Olsen (Björgvin Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Manndráp.
  • Fíkniefnalagabrot.
  • Refsilögsaga.
  • Stjórnarskrá.
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu.
  • Hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 31. janúar 2019 leitar Thomas Frederik Møller Olsen eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. nóvember 2018 í málinu nr. 51/2018: Ákæruvaldið gegn Thomas Frederik Møller Olsen, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómurinn mun hafa verið birtur fyrir leyfisbeiðanda 4. janúar 2019. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjaness um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir að hafa brotið gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að brotaþola með nánar tilgreindu ofbeldi og í framhaldinu varpað henni í sjó eða vatn, meðal annars með þeim afleiðingum að hún hafi drukknað. Þá var hann sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a. sömu laga með því að hafa haft í vörslum sínum 23.424 grömm af kannabisefnum sem hann hafi ætlað að flytja til Grænlands í ágóðaskyni. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í 19 ár auk þess sem honum var gert að greiða foreldrum brotaþola skaðabætur.

Telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Byggir hann á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og brotið í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar hann í þeim efnum meðal annars til þess að einn af dómendum í málinu fyrir Landsrétti hafi verið vanhæfur til að leysa úr málinu vegna lögmannsstarfa sinna fyrir ákæruvaldið á árunum 2009 til 2015. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar um réttarfarslegar afleiðingar handtöku leyfisbeiðanda utan íslenskrar refsilögsögu sé bersýnilega röng og í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu. Hafi málið verulega almenna þýðingu um það atriði. Þá hafi mat Landsréttar á sönnunargildi annarra gagna málsins en munnlegum framburði ekki verið í samræmi við þær reglur sem gildi við meðferð sakamála, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess geti ráðist af atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.