<span></span> <p class="MsoNormal" style="text-align:center;text-indent:1.0cm; line-height:150%;tab-stops:6.0cm 184.3pt 8.0cm;mso-layout-grid-align:none; punctuation-wrap:simple;text-autospace:none;vertical-align:baseline;"><strong style="mso-bidi-font-weight:normal;"><span style="font-size: 12pt; line-height: 150%; color: black;">Ákvörðun Hæstaréttar</span></strong></p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:35.4pt;">Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.</p> <p class="MsoBodyTextIndent" style="tab-stops:35.4pt;">Með beiðni 29. október 2020 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. sama mánaðar í málinu nr. 366/2020: A gegn barnaverndarnefnd B, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. </p> <p class="MsoNormal" style="text-align:justify;text-indent:1.0cm;line-height: 150%;"><span style="font-size: 12pt; line-height: 150%;">Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði svipt forsjá tveggja barna sinna á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur féllst á að skilyrði greinarinnar væru uppfyllt og tók til greina fyrrnefnda kröfu gagnaðila. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. </span></p> <p class="MsoNormal" style="text-align:justify;text-indent:1.0cm;line-height: 150%;"><span style="font-size: 12pt; line-height: 150%;">Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína með því að málið hafi verulegt almennt gildi að því er varðar beitingu meðalhófsreglu 2. mgr. 29. gr. og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Í þeim efnum skírskotar hún til þess að á fundi með starfsmanni gagnaðila 7. maí 2018 hafi verið lagt fyrir hana að samþykkja áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis til janúar 2019. Hún hafi samþykkt tillöguna tveimur dögum síðar en engu að síður hafi henni sama dag verið tilkynnt um að ákveðið hefði verið að leggja til að farið yrði fram á varanlegt fóstur fyrir börnin. Þá telur hún málið einnig hafa verulegt almennt gildi að því er varðar túlkun á meginreglu barnaverndarlaga um að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að meðferð málsins á fyrri dómstigum hafi verið stórlega ábótavant. Vísar hún til þess að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi dregist úr hófi þrátt fyrir að það skyldi sæta flýtimeðferð og brotið hafi verið gegn grundvallarreglum einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð og sönnunarfærslu. Þá hafi dóttur hennar ekki verið gefinn kostur á að tjá sig fyrir Landsrétti auk þess sem litið hafi verið fram hjá matsgerð dómkvadds manns sem talið hafi forsjárhæfni hennar ásættanlega héldi hún sig frá áfengi og vímuefnum. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar og barnanna.</span></p> <p class="MsoNormal" style="text-align:justify;text-indent:1.0cm;line-height: 150%;"><span style="font-size: 12pt; line-height: 150%;">Gagnaðili telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Gagnaðili bendir á að vandi leyfisbeiðanda sé langvinnur og margþættur. Afskipti barnaverndarnefndar hafi staðið um árabil og börn leyfisbeiðanda ítrekað verið vistuð utan heimilis. Um þá ákvörðun að fara fram á varanlegt fóstur barnanna vísar gagnaðili til þess að á fyrrgreindum fundi 7. maí 2018 hafi leyfisbeiðandi upplýst um óviðunandi aðstæður á heimilinu og vanrækslu barnanna frá árinu 2013. Vegna upplýsinganna hafi verið talið nauðsynlegt að meta forsjárhæfni leyfisbeiðanda og í kjölfar niðurstöðu þess að leggja fram tillögu um varanlegt fóstur barnanna. Gagnaðili hafnar því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi eins og málið liggi fyrir og að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda umfram önnur sambærileg mál. Þá telur gagnaðili dóm Landsréttar efnislega réttan og styðjast við réttar forsendur, lagarök og atvik máls. Að því er varðar meðferð málsins í héraði bendir gagnaðili á að þegar nýr dómari hafi tekið við málinu hafi lögmönnum verið gefinn kostur á að kalla á ný fyrir dóminn vitni eftir þörfum en dómari að öðru leyti stuðst við upptökur af skýrslum aðila og vitna. Hafi lögmaður leyfisbeiðanda samþykkt fyrrgreint og einungis óskað eftir að annar matsmaðurinn og leyfisbeiðandi gæfu aftur skýrslu. Þá hafi dóttir leyfisbeiðanda beðist undan því að gefa skýrslu í þriðja skipti fyrir Landsrétti. </span></p> <p class="MsoNormal" style="text-align:justify;text-indent:1.0cm;line-height: 150%;"><span style="font-size: 12pt; line-height: 150%;">Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Af gögnum málsins verður enn fremur ráðið að dóttir leyfisbeiðanda lýsti í tvígang fyrir héraðsdómi þeim vilja sínum að dvelja áfram hjá fósturforeldrum sínum og var í niðurstöðu héraðsdóms og hins áfrýjaða dóms meðal annars horft til þess. Að þessu virtu verður ekki séð að málsmeðferðinni hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. niðurlag 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.</span></p>