Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-16

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Einari S. Einarssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Endurupptaka
  • Fíkniefnalagabrot
  • Tafir á meðferð máls
  • Refsiákvörðun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 30. janúar 2023 leitar Einar S. Einarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. október 2022 í máli nr. 61/2022: Ákæruvaldið gegn Einari S. Einarssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 3. janúar 2023. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Mál var höfðað á hendur leyfisbeiðanda 21. maí 2013 með ákæru fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa, ásamt tveimur öðrum, staðið að innflutningi til Íslands á nánar tilgreindum fíkniefnum til söludreifingar í ágóðaskyni í ágúst 2011. Þar sem leyfisbeiðandi hafði flutt til Ástralíu í mars 2013 var það mál fellt niður 20. janúar 2014. Sama dag var gefin út ný ákæra á hendur leyfisbeiðanda sérstaklega. Ákærði bjó í Ástralíu þar til hann flutti til Spánar árið 2016 en kom til Íslands í lok þess árs.

4. Með dómi héraðsdóms 12. júlí 2017 var leyfisbeiðandi sakfelldur og dæmdur í fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi. Með dómi Landsréttar 30. nóvember 2018 var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda en refsing hans milduð með hliðsjón af drætti á meðferð málsins og ákveðin þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi. Með úrskurði Endurupptökudóms 11. janúar 2022 var fallist á beiðni leyfisbeiðanda um endurupptöku fyrrgreinds dóms Landsréttar á þeim grundvelli að dómstóllinn hefði ekki verið rétt skipaður að lögum í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með dómi Landsréttar eftir endurupptöku málsins var, með vísan til framburðar leyfisbeiðanda og vitnis þar fyrir dómi og forsendna héraðsdóms, staðfest sú niðurstaða hans að sannað væri að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að meðferð málsins hefði dregist úr hömlu af ástæðum sem ekki yrðu að öllu leyti raktar til leyfisbeiðanda. Með hliðsjón af alvarleika brotsins þótti ekki unnt að skilorðsbinda refsingu leyfisbeiðanda og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í tvö og hálft ár.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun varði atriði sem hafi verulega almenna þýðingu og mjög mikilvægt sé að fá úrlausn um. Þá sé ástæða til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Leyfisbeiðandi tekur fram að liðin séu tæp 12 ár frá ætluðu broti hans og beri íslenska ríkið fulla ábyrgð á drætti á málsmeðferðinni. Hann vísar til þess að dómar yfir þeim sem upphaflega voru ákærðir með honum hafi verið bundnir skilorði, meðal annars vegna dráttar á málsmeðferð og hafi sá dómur gengið tæpum sjö árum áður en dómur í máli hans gekk í Landsrétti. Byggir leyfisbeiðandi á að eigi skilorðsbinding refsingar einhvern tímann við sé það í máli þessu enda 12 ár liðin frá hinni ætluðu refsiverðu háttsemi og staða og hagir hans hafi gjörbreyst á þeim tíma.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.