Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-154

A (Hildur Sólveig Pétursdóttir lögmaður)
gegn
B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Erfðaskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 2. júní 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 20. maí sama ár í málinu nr. 209/2021: B gegn A á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili hefur ekki tekið afstöðu til beiðninnar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að dánarbú móður hans verði tekið til opinberra skipta en gagnaðili fékk leyfi til setu í óskiptu búi 19. september 2016 á grundvelli sameiginlegrar og gagnkvæmrar erfðaskrár gagnaðila og móður leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi reisir kröfuna á 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 og ákvæði erfðaskrárinnar um að heimild langlífari maka til að sitja í óskiptu búi falli niður gangi hann í hjónaband að nýju eða hefji sambúð. Auk þess hafi móðir hans við gerð erfðaskrárinnar látið skýrlega í ljós þann vilja sinn að gagnaðili myndi einungis fá að sitja í óskiptu búi í þrjú ár. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda með vísan til þess að gagnaðili hefði gengist við því að hafa hafið samband við [...] konu og verið skráður með sama lögheimili og hún í [...].

4. Í úrskurði Landsréttar er rakið að í leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi til handa gagnaðila væri ekki að finna skilyrði í þá veru að skorður væru reistar við því að leyfishafi hæfi sambúð að nýju. Slíkar skorður væri heldur ekki að finna í erfðalögum nr. 8/1962 en þar væri á hinn bóginn kveðið á um að heimild maka til setu í óskiptu búi félli niður gengi hann í hjúskap að nýju, sbr. 2. mgr. 13. gr. erfðalaga. Þá væri erfingja heimilt að krefjast skipta sér til handa ef hann sannaði að maki vanrækti framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýrði efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veitti tilefni til að óttast mætti slíka rýrnun, sbr. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga. Öðrum lagaheimildum væri ekki til að dreifa til handa erfingja til að krefjast þess að dánarbú væri tekið til opinberra skipta þegar maki sæti í óskiptu búi en slík lagaheimild væri nauðsynlegur grundvöllur að töku bús til opinberra skipta, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Kröfu leyfisbeiðanda um opinber skipti á dánarbúinu var því hafnað.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé ekki í samræmi við ákvæði erfðalaga og að með honum sé vilji arfleiðanda að öllu leyti virtur að vettugi. Leyfisbeiðandi byggir á því að reglur um heimild langlífari maka til setu í óskiptu búi feli í sér veigamikla undantekningu frá þeirri meginreglu erfða- og skiptaréttar að arfskipti skuli fara fram svo fljótt eftir andlát arfleiðanda sem við verður komið og því beri að túlka slíkar heimildir þröngt. Hann byggir á því að 3. mgr. 8. gr. erfðalaga reisi ekki skorður við því að arfleiðandi bindi setu í óskiptu búi við tiltekinn tíma eða önnur skilyrði. Með niðurstöðu Landsréttar sé verulega vegið að viljakenningu erfðaréttar og því samningsfrelsi sem einstaklingar njóti þegar þeir taki ákvarðanir með erfðaskrá. Hann telur skilyrði erfðaskrárinnar um að langlífari maki hæfi sambúð að nýju fullnægt.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti meðal annars haft fordæmisgildi um túlkun á heimildum erfingja til að krefjast þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Beiðnin er því tekin til greina.