Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-188

Margeir Ingólfsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir (Torfi Ragnar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Ólöfu Hansínu Friðriksdóttur (Skarphéðinn Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Landamerki
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. júlí 2021 leita Margeir Ingólfsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. júní sama ár í málinu nr. 799/2019: Ólöf Hansína Friðriksdóttir gegn Sigríði Jóhönnu Guðmundsdóttur og Margeiri Ingólfssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili tekur undir með leyfisbeiðendum og telur að samþykkja eigi beiðni þeirra.

3. Í málinu deila aðilar um landamerki landspildu úr landi Brúar í Biskupstungum. Leyfisbeiðendur eru þinglýstir eigendur jarðarinnar en gagnaðili er þinglýstur eigandi spildunnar sem staðsett er innan merkja jarðarinnar.

4. Hinn 4. júní 1983 gerðu Guðmundur Óskarsson, þáverandi þinglýstur eigandi jarðarinnar, sem leigusali og Kristinn S. Jónsson sem leigutaki með sér samning um leigu á spildu úr landi jarðarinnar. Guðmundur er faðir leyfisbeiðandans Sigríðar en Kristinn eiginmaður gagnaðila sem situr í óskiptu búi eftir hann. Í leigusamningnum var spildunni lýst með nánar tilgreindum hætti og mörk hennar sýnd á loftmynd sem var hluti samningsins. Guðmundur afsalaði spildunni til Kristins 10. ágúst 1989 og var í afsalinu vísað til lýsingar leigusamningsins á spildunni og viðfestrar ljósmyndar af loftmynd sem var sú sama og hafði fylgt leigusamningnum. Guðmundur afsalaði jörðinni til leyfisbeiðenda árið 1991.

5. Gagnaðili höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að mörk spildunnar væru með þeim hætti sem nánar var lýst í stefnu. Leyfisbeiðendur kröfðust sýknu af þeirri kröfu og höfðuðu gagnsök þar sem krafist var viðurkenningar á því að rétt landamerki spildunnar væru afmörkuð með öðrum nánar tilgreindum hætti. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur leyfisbeiðenda en með dómi Landsréttar var niðurstöðu héraðsdóms snúið við að hluta með því að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda í gagnsök. Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að uppdráttur sem gagnaðili hefði lagt fram til stuðnings varakröfu sinni, sem kom ekki til skoðunar í málinu vegna 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, sýndi að minnsta kosti lögun spildunnar samkvæmt loftmyndinni sem fylgt hefði leigusamningnum og afsalinu. Að virtum þeim gögnum var talið að hvorki kröfulínur leyfisbeiðenda né gagnaðila samrýmdust mörkum spildunnar eins og þeim hefði verið lýst í leigusamningnum og afsalinu og þeirri loftmynd sem fylgt hefði báðum skjölunum. Var því talið óhjákvæmilegt að sýkna leyfisbeiðendur af kröfum gagnaðila og jafnframt að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda.

6. Leyfisbeiðendur telja dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til þar sem rétturinn hafi metið gögn og staðreyndir málsins ranglega. Þau vísa meðal annars til þess að rétturinn hafi gefið loftmynd sem lögð var fram vegna varakröfu sem komst ekki að fyrir réttinum, óeðlilega mikið vægi. Það mat hafi verið í andstöðu við önnur gögn málsins sem skýrlega hafi bent til þess að spildan væri mun minni. Þá vísa leyfisbeiðendur til þess að með niðurstöðu Landsréttar væri jafnframt virt að vettugi sú grundvallarregla réttarríkisins að hlutverk dómstóla sé að skera úr um ágreining aðila. Niðurstaða réttarins hafi verið að sýkna af dómkröfum í aðal- og gagnsök og aðilar máls því í raun í sömu stöðu og áður en málið var höfðað. Telja leyfisbeiðendur að dómstólum sé rétt taka til skoðunar, innan marka kröfugerðar aðila, hver sé rétt niðurstaða í máli. Með þeim hætti fáist endanlega niðurstaða um ágreining aðila. Einnig telja leyfisbeiðendur að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni þeirra aðila sem eiga í hlut. Þau byggja jafnframt á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi í sambærilegum málum um ágreining um landamerki.

7. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðendur byggja á. Jafnframt verður talið að á dómi Landsréttar kunni að vera þeir ágallar að rétt sé að samþykkja beiðni um áfrýjun á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.