Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-117

A og B (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
C, D, E, F, G, H og I (Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Faðerni
  • Erfð
  • Aðild
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 8. september 2022 leita A og B leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 5. sama mánaðar í máli nr. 475/2022: A og B gegn C, D, E, F, G, H og I á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að viðurkennt verði að þær séu erfingjar J sem lést í apríl 2017. Dánarbú hans var tekið til opinberra skipta í byrjun árs 2018 og eru gagnaðilar á meðal lögerfingja í dánarbúinu. Með bréfi 30. nóvember 2021 vísaði skiptastjóri búsins ágreiningi um arfstilkall leyfisbeiðenda til héraðsdóms á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðenda. Landsréttur rakti að með álitsgerð rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að meira en 99% líkur væru á því að J væri faðir K sem var faðir leyfisbeiðenda. Þá vísaði rétturinn til þess að leyfisbeiðendur höfðuðu í byrjun árs 2018 mál á hendur lögerfingjum J og kröfðust þess að viðurkennt yrði að hann hefði verið faðir föður þeirra, fyrrgreinds K. Með dómi Hæstaréttar 6. október 2021 í máli nr. 17/2021 var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að leyfisbeiðendur uppfylltu ekki skilyrði 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 til að eiga aðild að umræddu faðernismáli. Þá vísaði Landsréttur til þess að fyrir lægi að J hefði ekki viðurkennt faðerni K enda hefði sá síðarnefndi alla tíð verið kenndur öðrum manni. Jafnframt vísaði Landsréttur til þess að í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hefði verið tekið fram að skýr vilji löggjafans stæði til að einskorða málsaðild í faðernismálum við þá aðila sem tilgreindir væru í 1. mgr. 10. gr. barnalaga. Þar sem þeir aðilar sem átt gætu aðild að slíku máli væru allir látnir yrði faðerni K ekki staðfest með dómi að gildandi rétti úr því sem komið væri. Þannig lægi fyrir að K hefði ekki verið feðraður með þeim hætti sem kveðið væri á um í lögum, hvorki með faðernisviðurkenningu né dómsúrlausn um að J væri faðir hans. Af því leiddi að leyfisbeiðendur teldust ekki niðjar J í skilningi 1. töluliðar 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og væru því ekki erfingjar hans.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni um hvort réttarfarsreglur barnalaga um málsaðild í faðernismálum og síðan túlkun Landsréttar á 1. tölulið 1. gr. erfðalaga eigi að útiloka einstaklinga frá því að vera taldir niðjar afa síns og leiða til þess að útarfar njóti arfs eftir hann en ekki raunverulegar niðjar. Þá telja þær að af framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 17/2021 sé ekki hægt að álykta að þær geti ekki tekið arf eftir J og að Landsréttur mistúlki dóm Hæstaréttar að þessu leyti. Jafnframt telja leyfisbeiðendur að „bókstafstúlkun Landsréttar“ á ákvæði 1. töluliðar 1. gr. erfðalaga, sem sett hafi verið áður en unnt var að staðreyna faðerni með erfðarannsóknum, geti ekki staðist út frá þeirri þróun sem orðið hefur við slíkar rannsóknir. Um þetta úrlausnarefni liggi ekki fyrir dómafordæmi Hæstaréttar. Þá reisa leyfisbeiðendur beiðni sína á því með vísan til framangreindra röksemda að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins og að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðendur byggja á, einkum hvort krafa til erfðatilkalls á grundvelli 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé fortakslaust háð því að fyrir liggi staðfest faðerni að barnalögum. Er samkvæmt þessu fullnægt skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.