Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-205

BB & synir ehf. (Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)
gegn
Orkuveitu Reykjavíkur (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Vatnsréttindi
  • Nauðungarsala
  • Leigusamningur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 20. júlí 2021 leita BB & synir ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í málinu nr. 186/2020: Orkuveita Reykjavíkur gegn BB & sonum ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að því hvort leigusamningur 14. maí 2008 milli gagnaðila og fyrrum eiganda jarðarinnar Hrísa á Snæfellsnesi um rétt gagnaðila til vinnslu á köldu vatni á landi jarðarinnar sé skuldbindandi fyrir leyfisbeiðanda. Landsbankinn hf. hafði eignast umrædda jörð við nauðungarsölu en seldi hana leyfisbeiðanda síðar og er hann núverandi eigandi hennar. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfu leyfisbeiðanda og viðurkennt að umræddur leigusamningur væri óskuldbindandi gagnvart gagnaðila. Með framangreindum dómi Landsréttar komst meirihluti dómenda að gagnstæðri niðurstöðu. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að ótvírætt væri að samningurinn hefði verið gerður á grunni 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og líta yrði svo á að kvaðirnar sem í honum fælust leiddu beinlínis af lögum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þær hefðu því ekki fallið niður við nauðungarsöluna á grundvelli ákvæðisins. Auk þess hefði verið vísað til samningsins í söluyfirliti við sölu jarðarinnar til gagnaðila.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um rétt til vatnstöku fyrir almenning í ljósi verndar eignarréttar og friðhelgi einkalífs samkvæmt stjórnarskránni. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Í dóminum sé ranglega byggt á því að af 25. og 26. gr. vatnalaga leiði að fyrrgreind réttindi gagnaðila samkvæmt leigusamningnum falli ekki niður við útgáfu nauðungarsöluafsals. Niðurstaðan stríði meðal annars gegn eignarréttarákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá hafi Landsréttur veitt gagnaðila of mikið svigrúm til að heimfæra það sem í reynd hafi verið ný málsástæða undir aðra almennt orðaða málsástæðu. Jafnframt hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til þess hvort Landsbankinn hf. eða leyfisbeiðandi hafi tekið að sér réttindi eða kvaðir leigusamnings í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 auk þess sem réttindi gagnaðila samkvæmt leigusamningnum hafi verið háð þinglýsingu samkvæmt 1. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Landsréttur hafi ranglega talið að þinglýsing hefði ekki skipt máli þar sem leyfisbeiðandi hafi verið grandsamur um tilvist leigusamningsins.

5. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.