Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-117

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Ragnari Ólafssyni (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umferðarlagabrot
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Refsiákvörðun
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Lagaskil
  • Skilorð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. apríl 2021 leitar ríkissaksóknari fyrir hönd ákæruvaldsins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. mars sama ár í málinu nr. 689/2019: Ákæruvaldið gegn Ragnari Ólafssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið í tvö aðgreind skipti undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá var hann sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum tiltekið magn af marijúana. Í dómi Landsréttar kom fram að eftir uppkvaðningu héraðsdóms hefðu tekið gildi ný umferðarlög og að dæma skyldi um háttsemi ákærða eftir þeim lögum. Um ítrekunaráhrif fyrri umferðarlagabrota ákærða kom fram að sú háttsemin sem hann hefði verið sakfelldur fyrir með dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 569/2014 væri ekki lengur refsinæm samkvæmt gildandi umferðarlögum. Af lögskýringargögnum með 3. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 mætti ráða að horfa skyldi til refsiákvörðunar eldri dóma og viðurlagaákvarðana við mat á ítrekunaráhrifum og ákvörðunar refsingar þrátt fyrir slíkar lagabreytingar. Á hinn bóginn hefði frá því ákvæðið var upphaflaga sett orðið umtalsverð þróun í beitingu og túlkun íslenskra dómstóla á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem meðal annars mætti rekja til setningar stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og upptöku ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu í íslenskan rétt. Þá hefði orðið breyting á túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæði 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmálans. Í ljósi þeirra grunnsjónarmiða sem lægju að baki 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmálans, um að sakaður maður ætti að njóta þess ef háttsemi sem áður hefði verið talin refsinæm þætti það ekki lengur, kæmi framangreindur dómur Hæstaréttar, þrátt fyrir skýringar með 3. gr. almennra hegningarlaga, ekki til skoðunar við ákvörðun refsiviðurlaga í málinu. Að því virtu var refsing ákærða ákveðin fangelsi í 60 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár vegna óhóflegs dráttar á útgáfu ákæru í málinu. Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og ökuréttarsviptingu voru staðfest.

4. Leyfisbeiðandi telur það hafa verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um gildi 3. gr. almennra hegningarlaga og beitingu ákvæðisins í málinu. Þá hafi það verulegt almennt gildi að fá úrlausn réttarins um réttaráhrif refsiákvarðana vegna brota gegn 45. og 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem fíkniefni voru eingöngu mælanleg í þvagi ökumanns, á refsiákvarðanir vegna síðara brots sama ökumanns samkvæmt gildandi 49. og 50. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Einnig telur leyfisbeiðandi það hafa verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um þá niðurstöðu Landsréttar að skilorðsbinda refsingu ákærða með þeim rökum sem fram komi í dóminum. Að mati leyfisbeiðanda sé niðurstaða Landsréttar að þessu leyti í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar og dóm Landsréttar 19. mars 2021 í máli nr. 3/2020.

5. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að mikilvægt sé að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga í því, sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.