Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-92

Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
Ernst & Young ehf. og Rögnvaldi Dofra Péturssyni (Tómas Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Hlutafélag
  • Hlutafé
  • Greiðsla
  • Endurskoðandi
  • Sérfræðiábyrgð
  • Skaðabætur
  • Þrotabú
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 7. júlí 2023 leitar Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 9. júní 2023 í máli nr. 457/2021: Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. gegn Ernst & Young ehf. og Rögnvaldi Dofra Péturssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna saknæmrar háttsemi við staðfestingu tveggja hlutafjárhækkana í Stakksbraut 9 ehf. sem fram skyldu fara með skuldajöfnuði og greiðslu peninga. Báru tilkynningar til ríkisskattstjóra, 23. september 2014, það með sér að eigandi félagsins, hollenska félagið USI Holding B.V., hefði aukið hlutafé sitt um samtals 672.975.000 nafnverðshluti. Byggir leyfisbeiðandi á því að engar greiðslur hafi komið fyrir hlutina og eiganda félagsins þannig gert kleift að eignast hlutafé með þeim hætti. Hafi efnahagsleg áhrif þessa færst yfir á Sameinað Sílikon hf. við samruna þess og Stakksbrautar 9 ehf. Með þessu telur leyfisbeiðandi að gagnaðilar hafi valdið honum tjóni sem því nemi þar sem fjármunina hafi vantað í sjóði þrotabúsins. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að gagnaðilar hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að staðfesta með áritun sinni í samrunaefnahagsreikningi félaganna Sameinaðs Sílikons hf. og Stakksbrautar 9 ehf. frá sama ári rangar upplýsingar um óefnislegar eignir.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Taldi dómurinn að viðhlítandi bókhaldsgögn hefðu legið til grundvallar færslu í bókhaldi Stakksbrautar 9 ehf. á skuldum félagsins við félagið Tomahawk Development á Íslandi hf. vegna greiðslna sem bárust inn á bankareikning Stakksbrautar 9 ehf. á árunum 2012 til 2014. Umrædd skuld hafi numið 223.759.046 krónum 31. desember 2013 þegar fyrri hlutafjárhækkunin, sömu fjárhæðar, var samþykkt á hluthafafundi Stakksbrautar 9 ehf. Við það hafi skuldin við Tomahawk Development á Íslandi hf. verið lækkuð í bókhaldi Stakksbrautar 9 ehf. sem því nam. Á árinu 2014 hafi greiðslur haldið áfram að berast inn á bankareikning Stakksbrautar 9 ehf. í gegnum félagið Tomahawk Development á Íslandi hf. Skuld Stakksbrautar 9 ehf. vegna þessara greiðslna hafi numið samtals 638.341.600 krónum 31. ágúst 2014 þegar greiðslufrestur vegna síðari hlutfjárhækkunarinnar, að fjárhæð 449.216.000 krónur, rann út. Gagnaðilinn Rögnvaldur Dofri hafi staðfest greiðslu hlutafjár til Stakksbrautar 9 ehf. vegna beggja hlutfjárhækkananna, með tilkynningum sem bárust sem fyrr segir ríkisskattstjóra 23. september sama ár. Þær staðfestingar hafi byggst á framangreindum greiðslum, sem hafi borist inn á reikning Stakksbrautar 9 ehf. áður en tilkynnt var um hækkunina. Þær hafi svo runnið viðstöðulaust út af reikningi Stakksbrautar ehf. og inná reikning Pyromet Engineering B.V. Taldi dómurinn ósannað að Rögnvaldur Dofri hafi vitað eða mátt vita að annað lægi að baki útgáfu reikninga frá Pyromet Engineering B.V. en að þeir væru vegna vinnu við hönnun á ofni fyrir kísilverksmiðju í Helguvík. Þá vísaði dómurinn til þess að skylda til að annast um að saminn væri endurskoðaður efnahags og rekstrarreikningur sem sýni allar eignir og skuldir í hverju félaganna fyrir sig, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög hvíli á félagsstjórn en ekki endurskoðanda. Geti möguleg skaðabótaábyrgð hans ekki byggst á öðru en því að Rögnvaldi Dofra hafi borið að gera stjórnum félaganna viðvart um þá skyldu. Þá væri til þess að líta að í málinu hefðu verið lögð fram allmörg dæmi um áritun endurskoðenda á samrunaefnahagsreikninga sem gæfu ekki annað til kynna en að þeir væru að öllu leyti reistir á óendurskoðuðum reikningum samrunafélaga. Virtist sú framkvæmd hafa viðgengist átölulaust um langt skeið. Í þessu ljósi yrði athafnaleysi Rögnvaldar Dofra gagnvart stjórnum samrunafélaganna um þetta atriði ekki virt honum til sakar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun 1. mgr. 6. gr. og 16. gr. laga nr. 2/1995 um skilyrði bótaábyrgðar endurskoðenda í tengslum við hækkun hlutafjár. Um þetta vísar leyfisbeiðandi einnig til ákvörðunar Hæstaréttar nr. 2022-68. Þá telur leyfisbeiðandi sérlega brýnt að fá dóm Hæstaréttar um niðurstöðu Landsréttar um 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995 og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994. Í þessum ákvæðum sé fortakslaust kveðið á um að saminn skuli endurskoðaður sameiginlegur efnahagsreikningur, sem sýni allar eignir og skuldir í hvoru félagi um sig. Í dómi Landsréttar sé lagt til grundvallar að gagnaðilinn Rögnvaldur Dofri hafi ekki haft neinar skyldur að lögum og aðkoma hans talin athafnaleysi við ráðgjöf. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að mat Landsréttar á saknæmi hafi verið gallað að því leyti að ekki hafi verið horft til þeirra margvíslegu hlutverka sem hann gegndi fyrir félögin sem komi við sögu í málinu og vitneskju sem hann ýmist bjó yfir eða hafði tilefni til að afla sér við endurskoðun.

6. Að virtum gögnum málsins og að teknu tilliti til þess að rétturinn hefur þegar veitt áfrýjunarleyfi í máli þar sem reynir á samkynja álitaefni, sbr. ákvarðanir nr. 2023-78 og 2023-88, verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.