Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-297

Félags- og skólaþjónusta A-Hún bs. (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
gegn
Söru Lind Kristjánsdóttur (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kjarasamningur
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 30. nóvember 2021 leitar Félags- og skólaþjónusta A-Hún bs. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í máli nr. 364/2020: Félags- og skólaþjónusta A-Hún bs. gegn Söru Lind Kristjánsdóttur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila til greiðslna vegna bakvakta í starfi sínu sem félagsmálastjóri hjá leyfisbeiðanda. Í upphaflegum ráðningarsamningi aðila 1. ágúst 2016 var samið um 25 fastar yfirvinnustundir á mánuði. Í ráðningarsamningi 17. maí 2018 var sambærilegt ákvæði um 25 fastar yfirvinnustundir en til viðbótar var boðað að gert yrði sérstakt samkomulag um greiðslur fyrir bakvaktir. Samningur um bakvaktir með neyðarsíma var síðan gerður 6. júlí 2018 sem viðauki við ráðningarsamninginn frá 17. maí sama ár. Byggir leyfisbeiðandi á því að í ráðningarsamningi 17. maí 2018 hefði verið samið um 25 fastar yfirvinnustundir sem fæli í sér útfærslu á greiðslum fyrir bakvaktir í samræmi við ákvæði kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félagsráðgjafafélags Íslands.

4. Í dómi Landsréttar kom fram að líta yrði svo á að ákvæði kjarasamningsins hefði átt við um greiðslur fyrir bakvaktir gagnaðila þar til viðaukinn var gerður 6. júlí 2018, enda hefði ekki verið samið um annað berum orðum fyrir þann tíma. Þá var ekki fallist á að gagnaðili hefði glatað rétti sínum til þessara greiðslna sökum tómlætis. Dómur héraðsdóms var staðfestur og leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila fyrir bakvaktir í samræmi við ákvæði kjarasamningsins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur. Þannig hafi rétturinn lagt rangan skilning í fyrrgreint ákvæði kjarasamnings með þeim hætti að ákvæðið gerði mun á yfirvinnugreiðslum og bakvaktagreiðslum. Sá skilningur fái ekki staðist enda telur hann að það sé alþekkt að aðilar að ráðningarsamningi semji sín á milli um annað fyrirkomulag á greiðslum vegna vinnu utan reglubundins vinnutíma en með bakvaktafyrirkomulagi. Loks byggir hann á því að gagnaðili hafi glatað rétti sínum til greiðslna vegna tómlætis.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.