Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-251

Þorsteinn Ragnar Leifsson (Edda Björk Andradóttir lögmaður)
gegn
Swanhild Ylfu K. R. Leifsdóttur (Stefán Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Landamerki
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 14. október 2021 leitar Þorsteinn Ragnar Leifsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 17. september sama ár í málinu nr. 185/2020: Þorsteinn Ragnar Leifsson gegn Swanhild Ylfu K. R. Leifsdóttur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta og krafðist þess að viðurkennt yrði að landamerki milli jarðanna Byrgisskarðs, sem er í hans eigu, og Bakkakots, sem er í sameiginlegri eigu hans og gagnaðila, yrðu með nánar tilgreindum hætti. Jörðin Byrgisskarð var stofnuð sem nýbýli úr landi Bakkakots með afsali 30. september 1950. Þar var norður- og austurmerkjum Byrgisskarðs lýst þannig að þau væru „að láginni utan við Byrgismel. Úr vörðu nyrst á melnum í beina stefnu á stóran stein á dalbrúninni, þá sömu stefnu niður á melbrún þá, sem liggur langs eftir dalnum ofan við veginn, sömu stefnu eftir þessari melbrún norðvestur á Jökulsá. Austurmerki býlisins eru eftir dalbrúninni.“ Með dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að Byrgismelur væri þar sem íbúðar- og útihús í Byrgisskarði stæðu nú, í samræmi við varakröfu gagnaðila. Var því ekki fallist á kröfur leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

4. Leyfisbeiðandi byggir á að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi í landamerkjamálum. Með dómi héraðsdóms, sem staðfestur hafi verið í Landsrétti, hafi verið vikið nokkuð frá dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm réttarins 29. október 2009 í máli nr. 685/2008, einkum um mat og túlkun á fyrirliggjandi heimildum um landamerki. Vísar hann til þess að glögg merki hafi verið og séu enn til staðar milli jarða af náttúrunnar hendi sem merkjalýsing sín miði við. Þá sé dómurinn bersýnilega rangur að efni til í fyrsta lagi þar sem hann taki ekki mið af landfræðilegri afmörkun landamerkja heldur finni þeim stoð í öðrum sönnunargögnum svo sem vitnisburðum sem gangi í berhögg við aðrar heimildir. Í öðru lagi sé staðsetning örnefnisins Byrgismels á grösugu svæði í ósamræmi við þá málvenju að melur þýði grýtt og lítt grösugt svæði. Í þriðja lagi gerir leyfisbeiðandi athugasemd við niðurstöðu dómsins um staðsetningu vörðunnar sem getið er í landamerkjalýsingu og færir fyrir því ýmis rök. Í fjórða lagi vísi dómurinn til þess að „melbrún ofan við veginn“ sé norðan við veg milli Neðstahvamms og Miðhvamms, þrátt fyrir að enginn vegur hafi legið þar þegar landamerkjalýsingin var gerð. Í fimmta lagi telur leyfisbeiðandi túlkun dómsins ranga um þýðingu þess að við skiptingu jarðanna hafi þess sérstaklega verið getið að nýbýlið ætti allan jarðhita í landi Bakkakots og hefði vatnstökurétt. Þá hafi Landsréttur ekki tekið tillit til gagna sem lögð hafi verið fram þar fyrir dómi um stærð jarðanna. Loks byggir leyfisbeiðandi á að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem búskapur verði nær ómögulegur í Byrgisskarði ef hinn áfrýjaði dómur fái að standa enda væru nær öll tún hans þá utan merkja Byrgisskarðs.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.