Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-67

Húsasmiðjan ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
Dalsnesi ehf. (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samningur
  • Afhending
  • Vanefnd
  • Riftun
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 3. maí 2022 leitar Húsasmiðjan ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 325/2021: Húsasmiðjan ehf. gegn Dalsnesi ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um efndabætur vegna riftunar gagnaðila á viðaukasamningi við eldri verksamning aðila. Leyfisbeiðandi telur riftunina hafa verið óheimila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að samkvæmt samningnum skyldi gagnaðili afhenda leyfisbeiðanda hönnunargögn vegna framleiðslu á gólfplötum í byggingu gagnaðila og í kjölfarið framleiða þær erlendis, annast flutning þeirra til landsins og afhenda á verkstað. Landsréttur vísað til þess að misbrestur hefði orðið á því að leyfisbeiðandi tryggði að framleiðsla á gólfplötum sem samningur aðila laut að hæfist í tæka tíð svo unnt yrði að afhenda þær á þeim tíma sem til stóð. Leyfisbeiðandi hefði ekki hnekkt þeirri ályktun að enn frekari tafir á afhendingu gólfplatnanna, sem blöstu við þegar upplýst var að framleiðsla þeirra var ekki hafin, hefðu leitt til alvarlegrar seinkunar á framkvæmdum gagnaðila. Þá hefði gagnaðili ítrekað fengið rangar upplýsingar frá leyfisbeiðanda um framleiðslu gólfplatnanna sem hefði að umfangi verið þýðingarmikill þáttur í framvindu þess sem eftir stóð af samningi aðila. Að þessu gættu var fallist á það með gagnaðila að vanefnd leyfisbeiðanda hefði verið veruleg og honum því verið heimilt að rifta samningi aðila samkvæmt 25. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það lúti að skilgreiningu fjármunaréttar á hugtakinu veruleg vanefnd með tilliti til hlutfalls þeirra hagsmuna sem þurfi að vera í húfi, andspænis samningsfjárhæð í heild, við riftun. Einnig reyni á hvaða áhrif vanefnd hafi á samningshagsmuni þess sem riftir og hvor málsaðilanna beri sönnunarbyrði um umfang þeirra afleiðinga. Þá sé deilt um hvaða áhrif vanefndir annars samningsaðila hafi á efndaskyldu hins. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann til þess að í dómi Landsréttar komi fram að túlka þurfi samningsákvæði með hliðsjón af „gagnkvæmri tillitsskyldu“ og af því dregin sú ályktun að beint samhengi ætti að vera á milli seinkunar á afhendingu hönnunargagna og afhendingu byggingarefnis án þess að höfð hafi verið uppi málsástæða um gagnkvæma tillitsskyldu og að hún hefði þessi áhrif á samning málsaðila. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að ekki hafi verið sannað í málinu að dráttur á afhendingu platnanna hafi í raun haft áhrif á framvindu byggingarframkvæmda gagnaðila.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.