Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-115

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Kristinn Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Sönnun
  • Ásetningur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. júní 2022 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. júní 2022 í máli nr. 299/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir nauðgun og stórfelld brot í nánu sambandi samkvæmt 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist að fyrrverandi kærustu sinni með ofbeldi og haft samræði og önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður af öllum sakargiftum og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en sýknaður af ákæru um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga og refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að fallast beri á beiðni hans þegar af þeirri ástæðu að hún uppfylli skilyrði lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 þar sem með dómi Landsréttar hafi sýknudómi í héraði verið snúið í sakfellingu. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn um túlkun á samþykkishugtaki 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 16/2018 enda hafi ekki reynt á túlkun þess fyrir Hæstarétti með þeim hætti sem um ræðir í málinu.

6. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu auk þess sem telja verður að úrlausn málsins um beitingu 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eftir breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 verður beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt.