Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-80

Aflhlutir ehf. (Jónas Þór Jónasson lögmaður)
gegn
Jakobsen Fisk AS (Jón Þór Ólason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Galli
  • Riftun
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 20. júní 2023 leita Aflhlutir ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. maí 2023 í máli nr. 673/2022: Jakobsen Fisk AS gegn Aflhlutum ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um endurgreiðslu kaupverðs ljósavélar og skaðabætur vegna viðgerða á henni en vélin stöðvaðist eftir að hafa verið keyrð í um 200 klukkustundir og viðgerð skilaði ekki tilætluðum árangri.

4. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfu gagnaðila um endurgreiðslu kaupverðs vélarinnar og skaðabætur. Dómurinn vísaði til þess að ekki lægi annað fyrir í málinu en að gagnaðili sem var kaupandi ljósavélarinnar hefði gengið út frá því að vélin væri ný og ónotuð. Það hefði svo komið í ljós þegar leitað var orsaka bilunarinnar að vélin var framleidd átta árum áður en hún var seld. Vitni sem vann að bilanagreiningu vélarinnar taldi að aldur hennar og það að hún hefði ekki verið gangsett frá framleiðslu hefði valdið því að olíuverkið var þurrt og það hefði orsakað bilunina. Taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi yrði að bera hallann af sönnunarskorti um ástæðu þess að ljósavélin bilaði. Mat Landsréttur vanefndina verulega í skilningi 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og því hefði verið heimilt að rifta kaupunum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að Landsréttur hafi vikið frá almennum reglum um sönnunarmat og sönnunarbyrði með því að leggja á leyfisbeiðanda að upplýsa um málsatvik sem varði möguleg orsakatengsl milli annars vegar aldurs vélarinnar eða geymslu hennar á lager og hins vegar bilunar á olíuverki hennar tíu mánuðum eftir gangsetningu. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar grundvallist á málsástæðum sem ekki rúmist innan upphaflegrar kröfugerðar og dómurinn samræmist að þessu leyti ekki réttarframkvæmd og meginreglum einkamálaréttarfars.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.