Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-12

D&T sf. og Deloitte ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
Lárusi Finnbogasyni og Guðmundi Kjartanssyni (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Lögsaga
  • Lagaskil
  • Varnarþing
  • Gerðardómur
  • Samaðild
  • Kröfugerð
  • Túlkun samnings
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 24. janúar 2023 leita D&T sf. og Deloitte ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 10. janúar 2023 í máli nr. 616/2022: Lárus Finnbogason og Guðmundur Kjartansson gegn D&T sf. og Deloitte ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta á rætur að rekja til þess að gagnaðilum var með bréfi forstjóra leyfisbeiðandans Deloitte ehf. sagt upp störfum og samhliða lýst yfir innlausn á stofnfjárhlutum þeirra í leyfisbeiðandanum D&T sf.

4. Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Héraðsdómur hafði vísað málinu frá dómi á þeim forsendum að málið ætti undir enska dómstóla, auk þess sem stefna hefði þurft breska sameignarfélaginu NWE LLP til varnar, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Í úrskurði Landsréttar kom fram að samkvæmt hluthafasamkomulagi fyrir leyfisbeiðandann Deloitte ehf. heyrðu ágreiningsefni í tengslum við samkomulagið undir úrlausn Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands. Gagnaðilar fólu Gerðardómi Viðskiptaráðs Íslands meðferð málsins í samræmi við fyrrgreint samkomulag en málinu var vísað frá gerðardómi þar sem leyfisbeiðendur neituðu að hlíta lögsögu hans. Taldi Landsréttur að með því að hafna því að meðferð málsins ætti undir gerðardóminn gætu leyfisbeiðendur ekki borið fyrir sig að vísa bæri málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli. Landsréttur taldi jafnframt að ítrekaðar tilvísanir hluthafasamkomulagsins til annars samnings sem mælti fyrir um að réttindi og skyldur aðila hans færu að enskum lögum fælu ekki í sér að aðilar hefðu undirgengist lögsögu enskra dómstóla um úrlausn krafna sinna á hendur leyfisbeiðendum, auk þess sem atbeini breska sameignarfélagsins NWE LLP væri ekki nauðsynlegur til að fullnægja kröfu gagnaðila. Þá voru ekki taldir aðrir annmarkar á málatilbúnaði gagnaðila sem varðað gætu frávísun málsins frá héraðsdómi.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins og verulega almenna þýðingu. Þeir vísa einkum til þess að niðurstaða um hvort héraðsdómur hafi lögsögu í málinu muni hafa grundvallarþýðingu fyrir meðferð þess og að niðurstaða um þennan ágreining muni hafa fordæmisgildi um hvernig túlka eigi varnarþingsákvæði þegar samningar vísa um efni réttinda til annarra samninga sem jafnframt hafa að geyma varnarþingsákvæði. Jafnframt muni niðurstaða hafa fordæmisgildi um það hvort aðili geti fyrirgert rétti sínum samkvæmt varnarþingsákvæði í samningi með því að byggja á því að varnarþingsákvæði í öðrum samningi gangi því framar. Þá hafi málið fordæmisgildi um skyldu til samaðildar að einkamáli. Leyfisbeiðendur byggja enn fremur á því að niðurstaða Landsréttar um áhrif varnarþingsákvæðisins og um að samaðildar hafi ekki verið þörf sé bersýnilega röng að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 3. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðninni er því hafnað.