Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-99

Glitvangur ehf. (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
gegn
Mercus Truck Export-Import (Jón Þór Ólason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Greiðsla
  • Riftun
  • Ógjaldfærni
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 21. júlí 2023 leitar Glitvangur ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í máli nr. 232/2022: Glitvangur ehf. gegn Mercus Truck Export-Import. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um riftun 18.000.000 króna greiðslu félagsins D-Son Imports til leyfisbeiðanda. Bú síðarnefnda félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta og nýtur gagnaðili heimildar 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að höfða riftunarmálið á sína áhættu til hagsbóta búinu.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun greiðslunnar og leyfisbeiðanda gert að greiða þrotabúinu fjárhæðina ásamt vöxtum. Félagið D-Son Imports hafði milligöngu um innflutning á bifreiðum í eigu gagnaðila og var kaupverð þeirra eftir sölu hér á landi lagt inn á reikning leyfisbeiðanda sem greiddi það síðan til gagnaðila að frádreginni söluþóknun. Þegar bú D-Son Imports ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni gagnaðila kom í ljós að 18. janúar 2019 höfðu verið millifærðar 18.000.000 krónur af reikningi félagsins inn á reikning leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að fullnægt væri skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslunnar. Þá var fallist á að leyfisbeiðanda yrði gert að greiða þrotabúi D-son Import ehf. fjárhæðina, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði atriði sem hafi mikið almennt gildi einkum þar sem í því reyni á skilyrði hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991. Verulega sé slakað á kröfum til sönnunar um ótilhlýðileika og ógjaldfærni þrotamanns, auk þess sem sönnunarbyrði um gjaldfærni sé felld á riftunarþola í stað þess að sá sem vilji rifta gerningi þurfi að axla sönnunarbyrði um ógjaldfærni. Þá varði málið mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda. Hann telur jafnframt að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur bæði að formi og efni.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.