Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-190

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Barnaverndarlagabrot
  • Hótun
  • Heimfærsla
  • Refsiákvörðun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 7. júlí 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. júní sama ár í málinu nr. 269/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur ekki tekið afstöðu til beiðninnar.

3. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa veist með ofbeldi að fyrrverandi kærustu sinni A og veitt henni ítrekuð högg og spörk í höfuð og búk, rifið í hár hennar, tekið hana hálstaki og þrengt að öndunarvegi hennar sem var til þess fallið að stofna lífi hennar í hættu. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa veist með ofbeldi að henni og slegið hana í andlitið svo að hún hlaut áverka af. Loks var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. sömu laga með því að hafa ítrekað sent fyrrverandi kærustu sinni og barnsmóður B nánar tilgreindar hótanir í gegnum samskiptaforrit. Dómurinn hafnaði aftur á móti að fella framangreind brot undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Fyrir Landsrétti laut málið einungis að heimfærslu til refsiákvæða og ákvörðun refsingar. Í dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki hefði verið sýnt fram á að samband ákærða og brotaþola uppfyllti skilyrði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá var honum gert að greiða brotaþolum miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann telur að það hafi verulega almenna þýðingu og sé afar mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um hvernig skýra eigi ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016 um breytingu á almennum hegningarlögum, varðandi það hvers eðlis samband og tengsl brotaþola og ákærða þurfi að vera til að ákvæðið verði talið eiga við. Leyfisbeiðandi telur meðal annars að leggja megi til grundvallar að sambönd og tengsl ákærða og brotaþola málsins hafi verið slík að ákvæði 218. gr. b almennra hegningarlaga eigi við. Því hafi sú háttsemi sem ákærði var sakfelldur fyrir falið í sér rof á trúnaðarsambandi og trausti milli hans og brotaþolanna.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.