Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-47

Kristinn L. Brynjólfsson (sjálfur)
gegn
Fjárfestingafélagi atvinnulífsins hf. (Eiríkur S. Svavarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 4. apríl 2022 leitar Kristinn L. Brynjólfsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. mars sama ár í máli nr. 87/2022: Kristinn L. Brynjólfsson gegn Fjárfestingafélagi atvinnulífsins hf. Um kæruheimild er vísað til 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um breytingar á fjórum frumvörpum sýslumanns til úthlutunar á söluverði fjögurra eignarhluta að tilgreindri fasteign sem seldir voru nauðungarsölu 7. september 2020, auk þess sem hann krefst þess að sýslumanni verði gert að greiða sér tryggingarfé samkvæmt viðbótarfrumvörpum sýslumanns að úthlutun.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Landsréttur vísaði til þess að leyfisbeiðandi hefði ekki sent málsgögn til héraðsdóms fyrr en tæpum þremur mánuðum eftir að gögnin stóðu honum til afhendingar. Þá hefði verið liðinn sá frestur sem hann hafði til sendingar þeirra og því hefði skilyrðum 73. gr. laga nr. 90/1991 til að bera málið undir héraðsdóm ekki verið fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun kröfu leyfisbeiðanda um breytingu á frumvörpum sýslumanns til úthlutunar á söluverði. Um kröfu hans um að sýslumanni yrði gert að greiða sér tryggingarfé samkvæmt viðbótarfrumvörpunum vísaði Landsréttur til þess að ákvörðun sýslumanns hefði ekki falið í sér afstöðu til slíkrar kröfu enda hefði hún komið fyrst fram í beiðni hans um úrlausn héraðsdóms. Var þeirri kröfu því jafnframt vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi. Í því efni vísar hann meðal annars til þess að mikilvægt sé að fá fram skýrt fordæmi Hæstaréttar um túlkun meðal annars 73. gr. laga nr. 90/1991. Jafnframt hafi kæruefnið grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins í ljósi þess að verið sé að veita gagnaðila aðgang að fjármunum sem réttaróvissa ríki um hvort hann eigi réttmætt tilkall til. Loks byggir hann á því að ástæða sé til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni.

6. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér á við.

7. Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 90/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að vísa máli um nauðungarsölu að hluta eða öllu leyti frá dómi, sbr. meðal annars ákvarðanir Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 2019-77 og 21. maí 2019 í máli nr. 2019-155. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.