Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-93

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Halldór Þ. Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sifskaparbrot
  • Börn
  • Forsjá
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómarar.

2. Með beiðni 31. mars 2021 leitar ríkissaksóknari fyrir hönd ákæruvaldsins eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 268/2019: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Í málinu var ákærðu gefið að sök brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa yfir nokkurra mánaða tímabil svipt tvo nafngreinda barnsfeður sína valdi og umsjá yfir börnum þeirra, dreng og stúlku, með því að fara með börnin úr landi án leyfis og vitundar feðranna sem hefðu farið með forsjá barns síns sameiginlega með ákærðu.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur og ákærða sýknuð af sakargiftum. Með vísan til forsögu og skýringa við ákvæði 193. gr. almennra hegningarlaga var talið að því væri fyrst og fremst ætlað að standa vörð um hagsmuni barns til að njóta umsjár og verndar þess sem færi með forsjá í skilningi barnalaga nr. 76/2006. Ákærða hefði farið með forsjá beggja barnanna auk þess sem þau höfðu búið hjá henni frá fæðingu. Þá hefði hún upplýst báða barnsfeður sína um fyrirhugaðan flutning og hversu lengi hún áætlaði að dveljast erlendis og leitað afstöðu þeirra til áforma sinna. Í ljósi stöðu ákærðu sem forsjárforeldris og aðalumönnunaraðila barnanna sem og atvika að öðru leyti var ekki fallist á að ákærða hefði brotið gegn 193. gr. almennra hegningarlaga.

5. Ákæruvaldið kveður tilgang áfrýjunar vera að fá endurskoðun á niðurstöðum Landsréttar sem byggðar séu á skýringu eða beitingu réttarreglna. Ákæruvaldið byggir á því að orðin vald og umsjá í 193. gr. almennra hegningarlaga svari til forsjár í skilningi barnalaga, sbr. dóm Hæstaréttar 23. mars 2006 í máli nr. 206/2005. Með vísan til inntaks sameiginlegrar forsjár, sbr. 28. gr. a barnalaga, telur ákæruvaldið að beita megi ákvæðinu í tilvikum þegar um er að ræða sameiginlega forsjá og annað foreldrið sviptir hitt foreldrið valdi og/eða umsjá yfir barni. Þá verði ákvæðinu beitt óháð því að það foreldri, sem sviptir hitt foreldrið valdi, sé aðalumönnunaraðili barnsins. Ákæruvaldið telur það hafa mjög almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það álitaefni sem um ræðir.

6. Ákærða leggst gegn beiðninni. Hún tiltekur að þrátt fyrir andstöðu feðra barnanna á brottfarardegi hafi hún metið hagsmuni barnanna að fá að fylgja sér meiri en rétt feðra þeirra samkvæmt 3. mgr. 28. gr. a barnalaga. Um eðlilega för hafi verið að ræða í takmarkaðan tíma og hvorki staðið til að takmarka samskipti barnanna við föður sinn í heimsóknum og fríum né samskipti þeirra í gegnum síma eða á annan rafrænan hátt. Hún kveður 193. gr. almennra hegningarlaga samhljóða 1. mgr. 215. gr. dönsku hegningarlaganna og að það ákvæði hafi ekki verið talið ná til þeirrar háttsemi forsjárforeldris að flytja barn sitt úr landi án fullnægjandi samþykkis. Til að bregðast við því hafi nýrri málsgrein verið bætt við ákvæði dönsku hegningarlaganna til þess að gera það refsivert þegar farið sé með barn ólöglega úr landi. Hún telur niðurstöðu Landsréttar rétta og að óeðlilegt væri að brot á barnalögum leiddi sjálfkrafa til þess að brotið væri gegn 193. gr. almennra hegningarlaga. Þá geti ekki komið til álita að beita ákvæðinu í tilviki stúlkunnar þar sem hún fari í reynd ein með forsjá hennar. Þá hafnar hún því að málið hafi verulegt almennt gildi. Verði fallist á kröfu ákæruvaldsins í málinu leiði það til þess að öll tálmun á umgengni sem brjóti gegn ákvæðum barnalaga sé jafnframt brot á almennum hegningarlögum.

7. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn um beitingu 193. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 sem mikilvægt sé að fá afstöðu Hæstaréttar til. Beiðnin er því samþykkt.