Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-156

Vátryggingafélag Íslands (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
A (Styrmir Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Árslaun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1 . Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. júní 2021 leitar Vátryggingafélag Íslands leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. maí sama ár í málinu nr. 132/2020: Vátryggingafélag Íslands gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem gagnaðili hlaut í umferðarslysi í janúar 2017. Þegar slysið varð hafði gagnaðili nýlokið stúdentsprófi og var í fullu starfi og tekur krafa hans mið af launum hans árið 2017, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Leyfisbeiðandi telur á hinn bóginn að miða beri við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. sömu lagagreinar. Héraðsdómur féllst á kröfu gagnaðila og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Með vísan til atvika og gagna málsins var talið að gera mætti ráð fyrir að ef slysið hefði ekki orðið hefði gagnaðili að minnsta kosti haft jafnháar tekjur næstu árin og hann hafði á árinu 2017.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem með dómi Landsréttar sé sett nýtt fordæmi um túlkun og beitingu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við aðstæður þar sem framtíð og framtíðarstarf tjónþola sé óráðið á slysdegi og/eða þar sem tjónþoli sé nýkominn á vinnumarkað og hafi litla eða enga tekjusögu eða starfsreynslu. Þá sé dómurinn bersýnilega rangur að efni til. Ekki sé gerð krafa um að gagnaðili sanni að það starf sem hann gegndi á slysdegi hafi verið líklegt framtíðarstarf hans og tekjur fyrir það líklegar framtíðartekjur. Máli sínu til stuðnings vísar leyfisbeiðandi meðal annars til dóms Hæstaréttar 10. desember 2015 í máli nr. 260/2015. Loks byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans.

5. Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann telur dóm Landsréttar í samræmi við dóma Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 26/2006 og 2. júní 2016 í máli nr. 639/2015. Þá séu fordæmi fyrir því að litið sé til tekna tjónþola eftir slys, sér í lagi þegar um takmarkaðar varanlegar afleiðingar sé að ræða, sbr. dóm Hæstaréttar 22. febrúar 2018 í máli nr. 71/2017.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.